Í dag höfum við mest þörf fyrir hugarró og hvíld að mínu mati enda stress og kvíði alsráðandi í þjóðfélaginu. Hver hefur til dæmis á móti að dveljast nokkra daga í paradís eða jafnvel í konungshöll á miðöldum ef þess væri kostur? Listaverk hverskonar upp um alla veggi og hámenningin alsráðandi. En ekki lengi og frekar vil ég veruleikann og sannleikann blákaldann.
Í Kastljósþætti kvöldsins var viðtal var við Jón Gnarr og allt sneri einhvern veginn á haus. Um leið er honum hrósað í hástert fyrir hreinskilni og heiðarleika í bloggheimum. Takmarkanir hugans virðast litlar skorður settar en alltaf leynist sannleikskorn þar sem maður á síst von. Stundum verður þó allt hvítt svart og svart hvítt. Það er eins og að sjá aðeins negativurnar á filmunni. Í dag gætum við til dæmis haldið að væri sumar.
Listamaðurinn þroskast með verkunum sínum um leið og hann miðlar til annarra. Á sama hátt segjum við sögur, hver á sinn hátt og reynum að miðla okkar reynslu og þekkingu til hvors annars. Aðrar listgreinar miðla á annan hátt með annars konar hughrifum. List er hluti af frelsinu og tjáningunni, eins og okkur hverjum hentar hverju sinni. Lífið sjálft er hins vegar eins og myndagáta sem breytist sífelt, stundum auðleyst en stundum margbrotin og flókin. Listamaðurinn býr að minnsta kosti í okkur sjálfum.
Á vinnustað mínum eru mörg málverk á veggjunum. Þökk sé Listasafni Hafnarfjarðar sem lánar til að þeir sem koma í heimsókn fái að njóta. Það er vel við hæfi því það er eitt helsta hlutverk okkar heilbrigðisstarfsmanna að framkalla negativur úr huga skjólstæðings sem oft eru svarthvítar og reyna síðan að túlka myndirnar rétt. (þetta er leiðrétt útgáfa frá því fyrr í kvöld)