Miðvikudagur 10.11.2010 - 15:26 - FB ummæli ()

Reglurnar

Hlutirnir ganga oft einkennilega fyrir sig á eyrinni. Það sem þótti sjálfsagt áður er bannað en það sem var bannað þykir orðið oft sjálfsagt. Eða skulum við segja látið viðgangast. Hroki og valdabarátta, virðingarleysi og ójöfnuður hvers konar. Þetta sjáum við í daglegri umræðu og aldrei betur en í uppskurðinum nú eftir hrunið. Þvílíkt lán sem hrunið var af illri nauðsyn. Og lifið snýst um svo miklu meira en auðlegðina. Illskeytnina sjáum við oftast út undan okkur eins og í umferðinni þegar við þurfum ekki að horfa í augu hvors annars og þröskuldurinn þá væntanlega aðeins lægri. Þetta vitum við öll en kennum aðstæðum í nútímaþjóðfélagi um, stressi og kreppunni sem þó er afleiðing af öllu saman en ekki orsök.

Á sl. áratugum hafa lífsgildin mikið breyst , á yfirborðinu að minnsta kosti. Það þurfti þjóðfund til að rifja upp gömlu gildin sem sumir hlæja að í dag og finnast barnaleg. En sem betur fer var haft samráð við þjóðina sjálfa. Sjálfsagt má taka undir að flest grunngildin sem tilnefnd voru sérstaklega samrímast stjórnarskránni eins og hún er í dag og þeim lífsgildum sem við lærðum í æsku. Málið er hins vegar að við vorum búin að gleyma þessum gildum að miklu leiti eða vorum að minnsta kosti hætt að lifa eftir þeim. Jafnvel þó að ákvæðum stjórnarskráarinnar væri framfylgt m.a. í stjórnsýslunni undir ramma laganna. Lög og reglur móta okkur ekki nema að takmörkuðu leiti. Þær setja okkur skorður hvað varðar ýtrustu skilyrðin, skilyrði sem oft er hægt að hliðra til og fara jafnvel á bak við í skjóli fólkinna regluverka og stjórnsýsluhátta. Regluverka sem sköpuðu aðstæður úti á hinum svokallaða frjálsa markaði. Annað mótum við af samskiptum milli okkar sjálfra.

Stjórnarskráin á að vera einföld og heilög í þeim skilningi að grunngildunum sé fylgt eftir af heilindum. Bara það að jafnræði skuli eiga gilda með þjóðkjörnum fulltrúum á alþingi okkar í stað kjörinna fulltrúa með hrossakaupum bak við tjöldin í sveitum landsins, er í átt jafnræðis. Við byggjum landið m.a. á þeim forsendum að allir njóti svipaðra kjara og þjónustu hins opinbera. Það sjónarmið er fyrir öllu en verulega hefur hallað á málefni höfuðborgarinnar sl. misseri hvað þessi atriði varðar og nefni ég bara sem dæmi málefni heilsugæslunnar þar sem þekki best til í þessu samhengi og sem ég hef oft fjallað um áður. Eins með aðskilnað ríkis og kirkju þar sem ójöfnuður hefur fengið að þrífast undir merkjum þjóðkirkjunnar og sem þó hefði átt að vera hennar aðal markmið að passa upp á auk annarra grunngilda, líka í eigin röðum.

Ég fagna einföldum niðurstöðum þjóðfundarins 6. nóvember sl. og ég fagna að finna að grunngildin eru ennþá til staðar í hjörtum okkar og ekki alveg gleymd. Þau eru aftur komin upp á yfirborðið og í umræðuna. Það hlýtur að vera verkefni stjórnalagaþingsins að endurvekja trú okkar á stjórnarskrá Íslands og það meginmarkmið að við látum okkur þykja vænt um hvort annað.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn