Oft hefur umræðan verið ansi neikvæð og ekki af tilefnislausu. En þess daganna er tilefni til að gleðjast yfir velgengni okkar manna á alþjóðlegri grundu. Nokkuð sem ekki hefur gerst síðan hún Jóhanna Guðrún í blá kjólnum sínum sló svo rækilega í gegn í eurovísion keppninni góðu fyrir tæplega 2 árum síðan. Fulltrúi þjóðar í vægðarlausum heimi og við í miklum sárum. Afrek sem sýnir að við getum gert stóra hluti ef við bara viljum og höfum nógu mikla trú á okkur. En við þurfum alltaf að vinna heimavinnuna fyrst og við höfum gert það áður eins og þegar silfurdrengirnir okkar komu heim um árið.
Þótt stjórnsýslan hafi brugðist á margan hátt hefur íþróttahreyfingin staðið af sér stormana sem komu á fjármálamarkaðinn eftir hrunið. Styrkir hverskonar voru þá skornir við nögl. En við vorum sem betur fer þegar farnir að blómstra á ýmsum sviðum íþróttanna sem gert hafa garðinn síðan frægan. Sama má auðvitað segja um listir hverskonar enda erum við hugmyndarík þjóð og djörf í eðli okkar. Við ættum því ekki að þurfa að hræðast framtíðina ef við pössum vel upp á þjóðararfinn sem í okkur býr og er okkur svo dýrmætur, menninguna og börnin okkar. Á þetta er minnt á dögum sem þessum þegar börnin okkar sem vaxið hafa úr íslensku grasi sýna hvers þau eru megnug.
En við vitum, að sigur gegn erlendum stórþjóðum í íþróttum er ekki auðsóttur á tímum atvinnumennskunnar. Íþróttum þar sem nánast allt er undir og heilsunni oft teflt á tæpasta vað. Þar sem blóðið stundum drýpur og svitinn fossar. Grátur og gnístan tanna. Stutt milli hláturs og gráturs, jafnvel eftir hverja sókn eða vörn. Ég heyri á mörgum íþróttafréttariturum að við „þurfum að gera betur“ ef við ætlum í verðlaunasæti. En ef við ætlum okkur of mikið og gerum óraunhæfar væntingar, jafnvel að sigra sjálfan heiminn á HM, að þá verða vonbrigðin bara þeimur meiri. Þá tilfinningu þekkjum við allt of vel og við megum aldrei gleyma að um leik er að ræða sem við eigum að njóta. Ísland er eins og Lísa í Undralandi í ævintýrinu góða. Í Undraheimi leysti Lísa úr hverri þrautinni fyrir sig jafn óðum og þess vegna var ævintýrið allan tímann svo skemmtilegt. Njótum hvers sigurs með strákunum okkar, það er afrek út af fyrir sig sem er nóg er að gleðjast fyrir daginn í dag. Stórt ævintýri en þar sem allt getur gerst.