Laugardagur 15.01.2011 - 10:17 - FB ummæli ()

Þar sem eldarnir brenna enn.

Undanfarna viku hefur mikið verið rætt um mengunarmál af gefnu tilefni og varða bruna í sorpbrennslustöðvum í íbúabyggð víða um land. Alvarlegast er hugsanlegt heilsutjón barna af völdum díoxíneiturs sem myndast við brunann. Vandamálið er auðvitað grafalvarlegt og allt of seint brugðist við. En hvað með önnur nærtækari mengunarslys sem þegar hafa orðið í okkar nánasta nærumhverfi, ekki síst í mesta þéttbýlinu á sjálfu höfuðborgarsvæðinu? Umhverfisáhrif á íslensku sýklaflóruna af völdum bakteríueiturs sem mikið er notað sem sýklalyf  hér á landi og sem ég fjallaði um í vikunni. Tekið var hins vegar strax á málunum er varða sorpbrennslustöðvarnar og brunann sem þar á sér stað, sem betur fer, og þegar hefur verið krafist stjórnsýslulegrar úttektar á málunum.

Vitað hefur verið um mikinn vanda tengt mikilli sýklalyfjanotkun barna hér á landi sl. ártugi og aðgerðir mótaðar m.a. hjá sóttvarnarlækni og með klínískum leiðbeiningum Landlæknis við meðhöndlun á miðeyrnabólgu en sem því miður hefur ekki náð langt. Vandinn er enda fyrst og fremst tengt skipulagi heilbrigðismála, ekki síst heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem mesta áherslan á þjónustu við veik börn er skyndiþjónusta á síðdegisvöktum, á kvöldin og um helgar. Og það er brunalykt í lofti eftir sviðna jörð sem þó er hvorki af völdum sinueld eða sorpbrennslu.

Sýklalyfin, þegar þau komu fyrst á markað fyrir rúmlega hálfri öld síðan, voru talin kraftaverkalyf og bættu áratug við meðalaldur manna í hinum vestræna heimi. Áður dó fólk oft úr sárasýkingum og lungnabólgum á besta aldri þar sem nær eingöngu var hægt að treyst á eigin varnir líkamans og góðan aðbúnað. En Adam var ekki lengi í paradís og fljótlega fór að bera á ofnotkun lyfjanna og þau jafnvel notuð við kvefsýkingum. Að sama skapi urðu sýklarnir smá saman ónæmir fyrir lyfjunum. Í dag er talið að í allt að helmingi tilfella séu sýklalyf notuð af óþörfu og hvergi á Norðurlöndunum er sýklalyfjanotkunin meiri en hér á landi. Í allt að helmingi tilfella eru algengustu sýklarnir nú orðir ónæmir fyrir penicillíni og helstu varalyfjum á Íslandi. Fjöldi barna þarf þannig að leggjast inn á sjúkrahús til að fá meðferð með sterkustu lyfjum sem völ er á, í æð eða vöðva. Vandamálið er verst á höfuðborgarsvæðinu sjálfu. Það þarf ekki mikið hugmyndarafl að sjá í hvert stefnir og hvar eldarnir munu brenna.

Sárlega vantar stjórnsýslulega úttekt á orsökunum hvernig fyrir okkur er komið og hver beri hina stjórnsýslulega ábyrgð. Ekki síst ef taka á upp fleiri skyndilausnir og takmarkaðar bólusetningar gegn algengustu heilsuvá barna, eyrnabólgunum, án þess að ráðast á rót vandans. Bólusetningu sem getur ef  betur er að málum staðið, hjálpað okkur úr vandanum tímabundið. Bjóða þyrfti þá auðvitað öllum ungbörnum bólusetninguna en ekki bara börnum sem fæðast eftir áramótin og auðvitað þarf að tryggja skynsamlegri notkun sýklalyfjanna og að farið verði eftir alþjóðlegum stöðlum og leiðbeiningum um meðferð sýkinga innan heilsugæslunnar. Meðal annars með meiri fræðslu, betri greiningu og meira eftirliti. Ef ekki, er hætta á að bólusetningarnar geti fært okkur bara úr öskunni í eldinn þegar til lengri tíma er litið.

Bólusetning gegn algengustu stofnum (pneumókokkunum) sem valda oftast miðeyrnabólgu barna, getur dregið verulega úr tíðninni, ef góð þátttaka fæst og gott hjarðónæmi næst að myndast í þjóðfélaginu. Það gildir ekki síst um alvarlegustu eyrnabólgurnar. Þá nýtur gamla fólkið og við hin bólusetningarinnar einnig óbeint þar sem minna verður um útbreiðslu þessara baktería. Bakteríur sem oft eru einnig sýklalyfjaónæmir og sem geta valdið alvarlegum lungnabólgum, blóðsýkingum og heilahimnubólgum. Hins vegar má búast við að með tímanum komi aðrir stofnar í stað þeirra sem bólusett er gegn. Það hefur gerst í löndum sem bólusetningin hefur verið framkvæmd í ungbarnaheilsuverndinni sl. áratug eins og í Bandaríkjunum. Sýklalyfjaónæmi hefur þá einnig orðið vandamál í þeim stofnum sem koma í staðinn. Þess vegna verður að taka á sýklalyfjaávísunum um leið og bólusett er og skerpa á skynsamlegi notkun. Brennt barn forðast eldinn en hvað með okkur hin sem eigum að vita betur, ekki síst heilbrigðisyfirvöld?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn