Fimmtudagur 13.01.2011 - 16:16 - FB ummæli ()

Sjón er sögu ríkari

Læknastofan

Rafræna otoscopið mitt

Allar nýjar alþjóðlegar leiðbeiningar í meðferð miðeyrnabólgu barna gera ráð fyrir að beðið sé með sýklalyfjameðferð, nema einkennin séu slæm. Sérstaklega er ráðlegt að bíða með meðferð barna eldri en eins árs. Hvatt er til eftirlits með einkennum sem kunna að versna. Vandamálið hingað til varðandi meðferðina hefur hins vegar verið vöntun á eftirliti og þar sem sjaldnast koma sömu læknar að málum, enda flest börnin skoðuð á skyndivöktum hér á höfuðborgarsvæðinu. Þá er oft fljótlegasta og auðveldasta valið að grípa til sýklalyfja sem þó eru óþörf í mörgum tilvikum. Afleiðingarnar með tímanum eru hins vegar alvarlegar. Mikil sýklalyfjanotkun, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og sýklalyfjaónæmið þegar orðið meira en þekkist í nágranalöndunum hjá helsta sýkingarvaldinum (pneumókokkinum) eins og ég fjallaði um í síðasta bloggi og sem er ein mesta heilbrigðisógn barna á Íslandi í dag.

Sú tækni sem auðveldar okkur sjúkdómsgreiningu á eyrnabólgunni og auðveldar sérstaklega allt eftirlit er rafræn myndataka af eyrnabólgubreytingunum og sem bera má saman frá einum tíma til annars. Eins með möguleikum á myndum sem senda mætti á milli eins og t.d. frá skyndivakt til heilsugæslu. Sjálfur hef ég haft slíkt tæki til umráða, m.a. til að kynna á heilsugæslustöðvunum. Takmarkaður áhugi hefur hins vegar verið á tækninni og heilbrigðisyfirvöld hafa ekki sýnt málinu neinn áhuga. Á sama tíma er sýklalyfjaónæmið stöðugt að aukast, ekki síst í sýkingum barna sem fá þá oft ófullnægjandi meðferð við slæmu eyrnabólgunum og sem þurfa jafnvel að leggjast inn á sjúkrahús til að fá sterkustu sýklalyf sem völ er á, í æð eða vöðva. Tækið sjálft kostar samt ekki nema eins og góð myndavél eða um 200.000 kr. og eins og sést hér myndinni að ofan hægt að tengja við hvaða fartölvu (snjallsíma) sem er. Sjá má kynningarband um tækið og rafræna myndatöku með því að smella á myndina eða textann hér.

Segja má að þrýstingur á nákvæma greiningu frá byrjun er miklu meiri en áður þar sem nýjustu rannsóknir sýna að aðeins ákveðnar slæmar miðeyrnabólgur gagnast sýklalyfjameðferð betur. Í þeim tilfellum gætu 25% barna gagnast sýklalyfjameðferðin þótt fórnarkostnaður séu vissulega aukaverkanir og hugsanlega meira sýklalyfjaónæmi meinvalda í nefkoki barnanna í framhaldinu. Eins hugsanlega aukin hætta á endurteknum sýkingum síðar. Tvær greinar um efnið og ritstjórnargrein birtust í dag í hinu virta læknatímariti NEJM þar sem mesta áherslan er einmitt lögð á nákvæma greiningu til að koma í veg fyrir óþarfa sýklalyfjameðferð og að þau börn fái aðeins meðferð sem mest þurfa á henni að halda. Úrlausn vandamálsins ætti þannig hvergi að vera mikilvægari en einmitt hér á landi þar sem sýklalyfjaónæmið er mikið og meirihluti sýklalyfjaávísana barna er vegna miðeyrnabólgu. Af þessu tilefni má nefna að um 20% af öllum komum allra aldurshópa til heilsugæslunnar og vaktþjónustunnar 2009 var vegna öndunarfærasýkinga og eyrnabólgu barna og talið er að yfir helmingur af öllum komum barna á stofu til lækna tengist eyrnabólgunni eingöngu.

Og hvaða foreldri vill þá ekki fá að sjá hvernig eyrnabólga barns lítur út á rafrænni mynd, sérstakalega þegar til greina kemur að bíða með sýklalyfjameðferð og sjá hvernig hún þróast á næstum dögum. Þessi tækni gefur einnig kost á sameiginlegri ákvarðanatöku sjúklings (foreldris) og læknis um framhaldið. Málið var fyrst til kynningar fræðadögum heilsugæslunnar fyrir ári síðan http://heilsugaeslan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4420 .

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn