Það er áhugavert að velta fyrir sér breytingum á íslensku þjóðfélagi á einni öld. Í Kastljósþætti á mánudaginn var sagt frá einum fyrsta atvinnuljósmyndara landsins, Bárði Sigurðssyni sem tók flestar sínar myndir í Þingeyjarsýslunni í byrjun síðustu aldar. Ómetanlegar myndir sem nú eru til sýnis í Þjóðminjasafninu sem m.a. sýndu háa heimilismenningu á Íslandi í upphafi 20. aldar. Það sem mér fannst áhugaverðast við myndirnar voru svipbrigði fólksins. Svip þekkts einstaklings í ríkisstjórn Íslands brá þar jafnvel fyrir. Þrátt fyrir spariklæðnaðinn sem fólkið var í og draga átti að sér athyglina, skinu mest í há og slétt kinnbeinin og djúpar augntóftirnar hjá öllum. Flestir meitlaðir af hörku lífsins og greinilega ekki ofhaldnir. Húðin strekkt, jafnvel veðurbarin og fyllingu vantaði andlitin. Börnin svo ótrúlega lík hvort öðru með augun sín djúpsokknu, ólíkt því sem við sjáum í dag. Allt sem sagði sína sögu. Ótrúlega fallegar myndir af íslenskum heimilum fyrir einni öld. Þegar fólkið hafði reisn og saumaði fötin sín sjálft, eins og Inga Lára Baldvinsdóttir, fagstjóri Ljósmyndasafns Íslands lýsti svo vel í Kastljósþættinum. Þegar kaupstaðaferðir voru stórtíðindi og allir á bænum biðu í ofvæni eftir lífsnauðsynlegum varningi. Mættum við ekki biðja um eitthvað þarna mitt á milli.
Sjálfur man ég hálfa öld aftur í tímann, þegar ég var í sveit og ekkert rafmagn. Þá var öldin engu að síðaur allt önnur og nóg að bíta og brenna. Kaupstaðarferðin var engu að síður stórviðburður og alltaf beðið eftir henni með mikilli eftirvæntingu. Að eitthvað góðgæti bærist með varninginum. Rafmagnið kom og jafnvel sjónvarpið nokkurum árum síðar og við sáum menn stíga fæti á tunglið. Síðan hefur í raun verið góðæri og uppbyggingin hröð á flestum sviðum á Íslandi. Ótrúleg breyting á agnarskömmum tíma í Íslandssögunni og von að menn spyrji sig hvað breytingar megi yfirleitt ganga hratt fyrir sig, án þess að ein kynslóð ruglist í ríminu. Á einni ævi er gjörbreyting á okkar högum, sem betur fer til batnaðar á flestum sviðum, ekki öllum. Herinn kom t.d. um miðja öldina og Íslendingar fóru að reykja og drekka sem aldrei fyrr. Skyndibitamenningin hélt innreið sína og menn horfðu ýmist til vesturs eða austurs, eftir því sem henntaði. Til varð sér-íslensk nýmenning og á einni mannsævi vildum við komast yfir allt. Sumir líka yfir náttúruauðlindir landsins.
En hvað ef við þyrftum að snúa við, jafnvel ekki nema um nokkra áratugi. Hver yrði aðlögun okkar nú að þeim breytingum og þurfa þær endilega að vera til ills? Hætt er við að fallið yrði ansi hátt og sársaukafullt fyrir marga. Kaupmáttur yrði t.d. eins og hann var í lok síðustu aldar. Sígandi lukka hefði auðvitað verið betri fram eftir öldinni. Þá vorum bjartsýn þjóð og höfðum til alls að vinna. Nú erum við svartsýn og höfum tapað miklu. Svarthvíta myndin hér að ofan fær á sig nýja merkingu og er reyndar aftur orðin kunnuglegri. Við sem komin eru á miðjum aldur ættum þó að geta vel við unað og getum nú rifjað upp gamla tímann sem var alls ekki svo slæmur. Á sumum sviðum jafnvel betri en tíminn er í dag. Í það minnsta höfum við mikið raunhæfari væntingar til framtíðarinnar og erum reynslunni ríkari.
Hraðar menningarbreytingar hjá frumbyggjum hafa oft reynst afdrífaríkar. Yfirleitt til mikils tjóns eins og við höfum séð gerast í Grænlandi, vinaþjóð okkar. Landið sem hefði átt að heita Ísland en landið okkar þess í stað Grænland. Það getur oft verið skammt á milli feigs og ófeigs. Við þessar aðstæður kunna menn oft ekki fótum sínum fjárráð og jafnvel þjóðin fer þá fram úr sér á flestum sviðum. Þetta höfum við líka séð hjá þjóðum mikið lengra í burtu og sem búa við allt önnur lífsskilyrði en við gerum og sem ekki hafa fundið taktinn við nútímann. En lítum okkur nær. Miðað við einangrun íslensku þjóðarinnar fram á síðustu öld og það sem gömlu myndirnar áðurnefndu sýndu svo vel, var ekki við öðru að búast að eitthvað myndi gerast. Flestar aðrar nágranaþjóðir okkar fengu jú miklu lengri aðlögun. Við fengum ekki nema í raun eina til tvær kynslóðir að fara úr grárri fortíð í glansandi nútímann. Grænlendingar reyndar enn skemmri tíma. Flest sem farið hefur úrskeiðis hjá okkur má þannig eflaust rekja til vanþroska þjóðarsálarinnar. Eins og unglingur sem sigrar ætlar heiminn á einni nóttu, hraustur en reynslulaus. En við vildum líka komast fram úr öðrum þjóðum á flestum sviðum, í stað þess að taka þær til fyrirmyndar.
Heilbrigðisógnir framtíðar af okkar eigin völdum, bera þessu líka glöggt vitni eins og mikið hefur verið fjallað um áður. Ekki er endalaust hægt að treysta á ramma íslenska taug, hraustu nýfæddu börnin og unglingaheilsuna, heldur er framtíðin bundin örlagastrengjum ofáts, hreyfingarleysis, mengunar lofts, ofnotkun lyfja og jafnvel skemmdra barnatanna. Dæmi um fórnarkostnað að hafa farið allt of hratt. Á sviðum sem íslenska þjóðin stendur verr að vígi en margar vina- og nágranaþjóðir í dag.