Það er yfirleitt ekki hægt að túlka nákvæmlega með orðum það sem maður sér með berum augum. Huglægt mat sem getur haft fleiri hliðar er enn erfiðara að túlka. Sífellt er maður samt að reyna að túlka skoðanir sínar fyrir aðra sem jafnvel eiga djúpar rætur í sálinni og virðast kristaltærar fyrir mann sjálfan. Sennilega eru frægustu skáldin svona fræg af því þeim hefur tekist að ljá skoðun sinni og túlkun sannfæringarkraft, þannig að maður trúir án skilyrða. Hún þyrfti samt alls ekki að vera túlkun manns sjálfs af sama tilefni, sérstaklega á öðrum stað og öðrum tíma. Upplifun atburða er nefnilega svo oft líka tengt andrýminu og stemmningunni hverju sinni. Stundum múgæsingu. Stundum jafnvel því sem maður sér og óvart girnist en getur aldrei eignast. Jafnvel það sem maður sér í hillingum eins og t.d. silfrinu á botni Peningagjárinnar á Þingvöllum og þjóðin á. Skömm sé þeim sem það reyndu.
Í daglega lífinu erum við endalaust að fást við hversdagslega hluti sem ýmist eru glaðlegir eða sorglegir. Stundum er samt hlutunum snúið við og þeir rangtúlkaðir, ekki síst þegar hagsmunir manns sjálfs eru í húfi. Hvít lygi er það kallað þegar lygin er saklaus í eðli sínu eins og við þekkjum svo vel hjá börnunum og þegar við viljum fegra hlutina til að valda ekki öðrum óþarfa áhyggjum. Og stundum trúum við jafnvel þá lyginni sjálfri. Miklu alvarlegra er þegar stjórnmálamenn, jafnvel með fréttamiðla undir, afbaka hlutina fyrir almenningi í þeim tilgangi einum að fá fólk til að trúa, ekki á réttunni, heldur á röngunni. Og glerið sem við þurfum nú að horfa í gegnum í þjóðfélagsumræðunni er orðið skýjað. Glerið sem við viljum nú fægja og pússa þannig að það verði kristaltært og gegnsætt, bilið milli þings og þjóðar.
„Björgum íslensku þjóðinni“ gæti verið bein þýðing á orðinu „Icesave“. Þýðingin gæti svo sem verið önnur eins og til dæmis sem upphaflega stóð til að erlendir aðilar gætu lagt spariféð sitt í faðm íslensku þjóðarinnar. Sumir vilja nú að dómstólarnir komist að því hverjir hafi rétt fyrir sér og hverjir rangt og fyrir hvað þýðing á orðinu raunverulega stendur. Dómsstólar sem menn treysta aðeins á þegar dómgreind þeirra sjálfra bregst. Þá verða öll málsgögn týnd til af öllum aðilum sem hlut eiga að máli, þeim til málsvarnar. Ekki bara erlendir sparifjáreigendur heldur einnig erlendir fjárfestar sem töpuðu þúsundum milljarða króna á sama tíma og Íslendingar sjálfir vörðu sitt sparifé á klaka með neyðarlögum. Hugsanlegur aðdragandi að miklu stærri málferlum en íslensk þjóðin gæti nokkrum sinnum staðið undir, ef allt færi á versta veg.
Eru slík málaferli þess virði fyrir efann hjá þeim sem nú slá sér á brjóst í stað þess að skammast sín eins og maður á að gera eftir að hafa brotið á náunganum? Óreiðumennirnir eru nefnilega við öll sem litum fram hjá regluverkinu, þó ekki síst þeir sem báru hina stjórnsýslulega ábyrgð. Á sama hátt og foreldrar eru ábyrgir fyrir óvitaskap barnanna sinna og verða að bæta nágrönunum skaðann eftir að þau hafa kastað grjóti í rúður þeirra og brotið. Barnanna okkar sem við berum ábyrgð á, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og skilja oft ekki muninn á því sem rétt er eða rangt.
Rétt hjá Peningagjánni á Þingvöllum er annar hylur sem staðsettur er í Öxará, í sjálfri Almannagjá. Þar sem ranglæti náði fram að ganga, sem menn töldu réttlæti á öldum áður. Látum ekki aðra sorgarsögu endurtaka sig hjá þjóðinni þegar enginn vill koma okkur til bjargar. Þegar og ef hægt verður að núa okkur því um nasir að þetta hafi allt verið okkur sjálfum um að kenna, að kunna ekki skil á réttu og röngu.