Þriðjudagur 29.03.2011 - 22:42 - FB ummæli ()

Brothætt stjórnsýsla

Í góðærinu töldum við Íslendingar að okkur væru allir vegir færir. Við ofmátum verðleika okkar heldur betur og eftirleikinn þekkja flestir. Miklu meira var að baki því sem afvega fór en rannsóknarskýrsla Alþingis sagði ein til um. Á flestum sviðum þjóðlífsins í dag má sjá hvað hefði mátt fara betur ef skynsamlega hefði verið að málum staðið. Grunngildin og skynsemin látin ráða. Þetta á ekki síst við um skipulag heilbrigðismála og uppbyggingu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

Í myndlíkingu má líkja stjórnsýslunni við glerhýsi þar sem gegnsæið og birtan á að vera allsráðandi. Auðvelt að líta bæði inn og út. Ekki þó eins og glerhús eins og sést á meðfylgjandi mynd, innantómt og kalt, engan veginn í takt við umhverfið og virðist bíða þess eins að brotna. Stjórnsýslan þarf meira að vera eins og gróðurhús, hlýtt og sem hlúir að lífi innan dyra um leið og það verndar og heldur kulda og ógnum utan dyra. Eins og heilsugæslustöðvar fullar af mannlífi og vel hæfu starfsfólki á öllum sviðum heilsugæslu.

Hann er kaldur þessi heimur ekki síst á landinu bláa. Heimur þar sem sagan getur líka endað illa, ólíkt því sem gerist í flestum ævintýrum sem við höfum lesið. Og því miður ekki eins og í martröð sem tekur enda og allt verður eins og áður. Hrunið varð samt til þess að opna augu okkar. Jafnvel eins og syndaraflausn og maður fór að skilja hlutina betur og smá saman losnaði maður við vonda bragðið sem hafði ágerst með árunum á tungunni. Bragð sem ég kannaðist fyrst við eftir að hafa verið ótuktarlegur við leikfélagana í gamla daga. Maður vissi einfaldlega að maður hafði ekki breytt rétt, heldur illa.

Í mörg ár, mörgum árum síðar eftir 5 ára sérfræðinám í heimilislækningum, barðist ég við félaga mína að fá þær fáu heimilislæknastöður sem auglýstar voru lausar á höfuðborgarsvæðinu. Ég sótti alls um 10 stöður á nokkrum árum áður en ég var svo heppinn að fá eina. Í millitíðinni hafði ég ásamt félaga mínum boðist jafnvel að koma á fót einkarekinni stöð fyrir það hverfi sem var á nokkurrar heimilislæknaþjónustu í Reykjavík, í Heima- og Vogahverfinu. Umsókn sem tekin var með vandlætingu og hálfgerðum skömmum fyrir að dirfast að troðast inn á svið stjórnsýslunnar sem henni var ætlað að sinna. Í upphafi góðærisins svokallaðs þar sem þjóðfélagið virtist ekki hafa þörf fyrir heimilislækna. Á þeim tíma sem minnstu munaði að ég færi að starfa við aðra sérgrein innan læknisfræðinnar eins og sumir félaga minna gerðu. Sérgreinar sem voru meira í tísku. Þá var ég reyndar ekki með vont bragð í munni heldur aðallega kökk í hálsi. Og nú um 20 árum síðar vantar um 50 heimilislækna á höfuðborgarsvæðið.

Heimilislæknaþjónustuna var litið á sem afgangsstærð í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Öll áhersla var lögð á frjálst aðgengi að sérfræðiþjónustunni í hinum ýmsu öðrum sérfræðigreinum læknisfræðinnar. Hvaða sérfræðingur sem var fyrir utan sérfræðing í heimilislækningum gat opnað stofu og reikning við Tryggingastofnun Íslands og hafið stofurekstur. Litið var á heimilislækningarnar sem „almenna“ læknaþjónustu sem væri hægt að nálgast nánast hvar sem var. Samningur Tryggingastofnunar við heimilislækna var aðeins einskorðaður við lítinn hóp heimilislækna sem voru svo lánsamir að hafa starfað lengi á stofu sem einyrkjar, leifar frá þeim tíma sem var fyrir komu heilsugæslustöðvanna.

Heimilislæknarnir þurftu síðan sjálfur að berjast fyrir tilverurétt sínum og fóru í raun í „tvö stríð“ til að reyna að koma vitinu í stjórnvöld. Það fyrra var svokallað „tilvísunarstríð“ þar sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Sighvatur Björgvinsson vildi leggja áherslu á hvar eðlilegast væri að vegferð sjúklinga um heilbrigðiskerfið hæfist. Eins og reyndar í öllum öðrum löndum í kringum okkur. Það var blásið niður enda mættu hugmyndirnar kröftugri andstöðu annarra sérfræðinga sem áttu allt sitt undir stofurekstri. Seinna stríðið snerist einfaldlega að fá sömu kjör og aðrir opinberir læknar á sjúkrahúsunum með sambærilega menntun og möguleika á að starfa við önnur rekstarform en hið opinbera eins og aðrir læknar. Samningar sem að lokum náðust og áttu að opna möguleika á nýjum sóknarfærum í heilsugæslunni árið örlagaríka, 2008. Leikur sem því miður kom of seint og ríkið fallið á tíma.

Í dag er ástandið ískyggilegt og það vantar ekki bara eins og áður segir um 50 heimilislækna á höfuðborgarsvæðið. Aldurssamsetning læknahópsins sem starfar í dag við heimilislækningar á höfuðborgarsvæðinu er slík að það þarf 7 nýja lækna á ári, næstu 10 árin til að halda í horfinu. Læknar sem engan veginn eru til og sérnám í heimilislækningum tekur a.m.k. 4-6 ár. Alvarlegast í stöðunni nú er að samningar við aðra sérfræðinga er ekki í augsýn og þeir því samningslausir frá næstu mánaðarmótum. Og ennþá er ósamið um kvöld- og helgarvaktir heimilislækna á höfuðborgarsvæðinu, sjálfa Lænavaktina.

Löngum hefur maður furðað sig á ráðaleysi stjórnvalda að klára ekki uppbyggingu heilsugæsluþjónustu höfuðborgarsvæðisins í tíma, þegar vita mátti í hvaða ástand stefndi og brautryðjendurnir ennþá til staðar. Að stjórnvöld skyldu ekki vera í jarðsambandi við grasrótina. Sjálfur var maður þó farinn að efast og jafnvel halda að íslenska undrið tæki öllu öðru fram í heiminum og ekki yrði þörf fyrir heimilislækna á Íslandi, ólíkt öllum öðrum löndum. Í staðin áttu m.a. stórbrotnar hugmyndir um heilsutengda ferðaþjónustu að leysa allan vanda og að hægt væri að selja heilsuna eins og hverja aðra markaðsvöru á markaðsvirði. Hugmyndir sem því miður ríkja ennþá daginn í dag hjá allt of mörgum. Lyfja- og rannsóknakostnaður löngu kominn úr böndunum sem virtist ekki skipta neinu máli fyrir svo ríka þjóð sem við töldum okkur vera, en vorum ekki.

Í dag sjá stjórnvöld í fyrsta skipti hvar skórinn kreppir mest í heilbrigðiskerfinu. En það er ansi seint í rassinn gripið, ekki síst þar sem landsflótti er nú skollin á meðal lækna og allir samningar í uppnámi. Nú í fyrsta sinn í langan tíma verður erfitt að halda uppi lágmarks heilbrigðisþjónustu á landinu. Og draumurinn var því miður ekki slæm martröð heldur blákaldur veruleiki sem var svo mörgum hulinn og er jafnvel enn. Draumur sem endaði eftir allt saman eins og í versta ævintýri.

En við erum þó að minnsta kosti vöknuð og ég er hvorki með vont bragð í munni né kökk í hálsi lengur. En ég sorgmætur yfir því hvernig komið er fyrir heilsugæslunni í landinu.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn