Fimmtudagur 31.03.2011 - 22:47 - FB ummæli ()

Að kveða burt leiðindin, það getur hún.

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.
Hún hefir sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefir sagt mér að vakna og vinna
og vonglaður taka nú sumrinu mót. (Páll Ólafsson 1827-1905)

Það eru alltaf ákveðin kaflaskil þegar vorfuglarnir láta sjá sig á vorin. Tjaldurinn kom í Mosó í vikunni og heyrst hefur í lóu úti í móa. Í kyrrðinni og rökkrinu sem ennþá er á kvöldin. Síðustu snjóskaflarnir að bráðna í Hamrahlíðarbjörgunum og mávurinn, vargurinn sá, löngu farinn að láta að sér kveða með kvaki snemma á morgnana. Allt hljóð sem vekja mann til lífsins og umhugsunar.

Ef bara lóan gæti nú kveðið burt leiðindi umræðunnar í dag og sem sennilega hefur aldrei verið meiri nú rétt fyrir kosningar um „mál málanna“. Mál sem þjóðin ætti að geta verið búin að segja skilið við fyrir löngu, eins og annarra þjóða er siður. En hlustum á kveðskap fuglanna okkar. Okkur hættir nefnilega til að sökkva allt of mikið niður í dægurþrasið og sjáum þá ekki heildarmyndina. Mynd dagsins sem vorfuglarnir okkar reyna eftir fremsta megni að benda okkur á með kvakinu sínu og söng.

Hver kafli í lífinu er eins og ein árstíð. Hver kafli með atburði sem standa upp úr, hver á sinn hátt. Og sagan heldur áfram sem spennuskáldsaga eða sem ljóð. Okkar er auðvitað valið að ákveðnu marki enda skrifum við sjálf þessa sögu. Oft verður mér hugsað til þess þegar skjólstæðingar mínir sem jafnvel eru komnir vel á miðjan aldur segjast vilja geta byrjað upp á nýtt. Eftirsjá yfir því liðna og jafnvel ósk um eilífa æsku í stað þess að njóta reynslunnar og gera bara betur, í næsta kafla.

Sjúkdómavæðingin er líka hluti af þessu öllu og þar sem við læknarnir ásamt lyfjaiðnaðinum ekki saklausir að hafa átt þátt í að skapa. Aðra veröld sem ruglar fólk í rýminu. Meðal annars að ætla að greina hið ómögulega og leita allra leiða til að segja okkur með örlítilli vissu í hvaða áhættu við kunnum að vera. Jafnvel með inngripsmiklum aðferðum sem skemma lífgæði okkar. Bara til vera viss sem svo þegar allt kemur til alls skiptir ekki máli en elur á ótta og hræðslu. Í stað þess að lifa eins og okkur er einum lagið, vitum best og gerum best, með góðri ráðgjöf. Okkar er valið.

Eitt sinn fyrir mörgum árum var ég og vinur minn sem einnig er heimilislæknir og reyndur sveitalæknir að ræða álagið á Slysa- og bráðamóttökunni á Borgarspítala sem þá var og hét. Tilefnið var tengt viðhorfum einstaka kollega í húsinu sem fannst vinnan sem við sinntum á gólfinu ekki mjög merkileg vísindi. Þangað kom samt slasað fólk og sjúkt í þeim tilgangi einum að fá greiningu og meðferð við bráðum vanda, hvort sem hann síðar reyndist alvarlegur eða ekki. Sameiginleg niðurstaða okkar eftir vaktina sem var mjög erilsöm, var að það væri í raun bara til einn grunnur í læknisfræðinni og hún endurspeglaðist nákvæmlega í deildinni okkar. Að geta sjúkdómsgreint, læknað og hjálpað fólki í neyð eftir bestu þekkingu, daginn þegar fólkð sjálft óskaði eftir og þurfti mest á hjálpinni að halda. Ummæli sem ég hef gjarnan eftir þegar ég ræði grunnnám í læknisfræði við nemendur mína.

Lífið þarf ekki að vera flókið og mikilvægast að lifa einn dag í einu og taka því sem að höndum ber. Sumir dagar eru góðir, aðrir slæmir. Síst af öllu viljum við lifa leiðinlegu lífi. Í dag er þjóðin sjúk, leitar eftir hjálp og þarf á bráðalækningu að halda. „Björgum þjóðinni“ og losum hana við „Icesave“ eins og við kunnum best. Nú er tækifærið til að kveða burt leiðindin með vorboðanum ljúfa og horfa með glaðlegri augum til framtíðarinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn