Í kvöld horfði ég á ágætis Kastljósþátt sem meðal annars fjallaði um verksmiðjuframleiðslu á kjöti og dýravernd. Hvernig þessum málum er fyrir komið hér á landi og hvað má gera til úrbóta fyrir dýrin. Lágmarkið væri að skapa þeim sem minnstar kvalir og óþægindi í prísundinni og æskilegt væri að stefna að vistvænlegri ræktun undir heiðum himni. Aðstæður sem við höfum alltaf þekkst best hér á landi þar til nýlega, í fugla- og svínarækt. Aðstæðurnar skipta auðvitað öllu máli en til að hámarka afraksturinn hefur dýrum verið þjappað saman sem mest má vera og lyf notuð ósparlega til að komast hjá sjúkdómum meðal þeirra. Hver hefði annars trúað því að í sumum löndum Evrópu er meira notað af sýklalyfjum við kjötframleiðslu en til að lækna mannfólkið? Notkun sem er í réttu hlutfalli við þróun sýklalyfjaónæmis og sem leiðir til þess að erfiðlega gengur að lækna okkur sjálf. Ein mesta heilbrigðisógn framtíðar að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar, WHO.
Það skiptir líka miklu máli hvar læknisþjónustan er veitt á heilbrigðisstofnunum og að veiku fólki sé ekki óþarflega þjappað saman m.a. á bráðamóttökur sjúkrahúsanna. Þangað sem veikasta fólkið leitar á öllum tímum sólarhringsins, fólk með ónæmisbilun, krabbamein og alvarlegar sýkingar. Þar sem oft er margra klukkustunda bið eftir þjónustu, ekki síst um helgar. Þar sem hver koma leiðir til meiri rannsókna, frekari inngripa og meiru hættu á oflækningum, þar með talda lyfjameðferð, en ef sami sjúklingur er skoðaður af reyndum heimilislækni í heimilislegra umhverfi. Lækni sem er sérmenntaður í 12 ár til að greina minna alvarlega sjúkdóma frá þeim alvarlegustu og allt þar á milli. Meðal annars til að dreifa álagi og spara sérfræðiþjónustuna og spítlaþjónustuna sem mest til að hún komi að sem mestum notum þegar hennar er mest þörf. Það er ekki bæði sleppt og haldið.
Nýlega svaraði velferðaráðherra því þannig til að það skipti ekki máli hvar þjónustar væri veitt með tilliti til úrlausna, á daginn hjá heimilislækni eða á skyndivöktum á kvöldin. Þessu hef ég gert skil í annarri færslu nýlega. Í gær bárust fréttir frá Alþjóðlegu heilbrigðisstofnuninni að langvinnir sjúkdómar séu orðnir algengari m.t.t. dánartíðni en sjálfir smitsjúkdómarnir. Afleiðingar lífsstílssjúkdóma, offitu, kransæðasjúkdóma, lungnasjúkdóma og sykursýki í nútíma þjóðfélagi sem ég hef líka gert grein fyrir í fyrri færslum. Allt viðföng heilsugæslunnar, ekki síst á sjálfu höfuðborgarsvæðinu.
Þar sem um 50 heimilislækna vantar miðað við staðla á Norðurlöndunum og þar sem margir heimilislæknar hætta á næstu árum vegna aldurs svo bara þarf að bæta við 7 nýjum læknum á ári til að halda í horfið miðað við bágu stöðuna í dag. Heimilislæknum sem ekki eru til. Þar sem allt að áttfallt álag er á síðdegisvaktir og Læknavakt heimilislækna miðað við í nágranalöndunum. Þar sem heilbrigðisyfirvöld halda að vandamálin leysist endalaust með skyndilausnum og lúxus. Og nú á háskólasjúkrahúsmóttökunni á nóttunni einnig.