Tölur og mælingar eru ágætar svo langt sem þær ná. Margt í daglega lífinu verður hins vegar ekki lagt á mælistiku, enda ósýnilegt. Vellíðan, vanlíðan, áhyggjur, hamingja, kvíði og verkir. Allt huglæg hugtök og aftstæð. Þögnin er heldur ekki mælanleg, kyrrð og ró sem okkur skortir oft sárlega í amstri lífsins, ekki síst þegar við erum veik og undir miklu andlegu álagi. Kyrrðin úti í náttúrunni, langt frá skarkala bæjarlífsins, kann maður best að meta þegar maður þarf mest á henni að halda. Líka þegar maður er veikur.
Þjónusta hvort við annað, meðal annars læknisþjónustan, byggist mikið á þessum hugtökum. Þegar fólk skilur að þú ert til staðar fyrir það, en ekki öfugt. Heimavitjun til sjúklings er sérstök tilfinning, líka fyrir læknirinn, sem ef til vill allir gera sér ekki grein fyrir. Að vera boðinn inn á ókunnugt heimili og hlusta á angist og áhyggjur sjúkinga og aðstandendur í þeirra eigin umhverfi. Þakklætið og traustið sem síðan ríkir i flestum tilfellum. Líka þegar komist er að sameiginlegri niðurstöðu að rannsaka þarf sjúlinginn betur eða fylgja eftir sjúkdómseinkennum á sjúkrahúsi. Ekki þó sður þegar útskýringar og viðtalið nægir eða meðferð fæst við verkjum og kvillum. Heimavitjun er ekki lúxus, heldur sjálfsögð þjónusta. Fyrsta skrefið þegar þannig stendur á hjá manni. Nálgun við vandamál þar sem það á heima og skapar öryggi og ró hjá fólki, ekki síst gömlu fólki og aðastandendum þeirra. Nálægð og stuðningur í lífsins ólgusjó, jafnvel þegar mest á reynir. Heimilisvitjun er ekki tækifæri til niðurskurðar og sparnaðar í heilbrigðiskerfinu.
Hár hiti ungbarns, eyrnaverkur, angist og kvíði eru allt dæmi um mjög algeng vandamál sem oftast má leysa með ráðgjöf hjúkrunarfræðings í síma eða með stuttri heimavitjun. Vitjun sem skilur eftir sig þakklæti og öryggi og segir að okkur hinum og samfélaginu er ekki sama. Þar sem læknirinn á fyrsta skrefið en ekki gamalmenni eða foreldrar með ungbarn út í kaldri vetrarnóttunni. Þegar þörfin er metin á undan en ekki á eftir. Þar sem þjónustan er eins og í sveitum landsins. Þar sem ekki ríkir glundroði og bið um nætur. Það sem ekki sést, en við vitum að er það mikilvægasta.