Síðdegis fór ég með konunni í síðdegisgöngu á Esjuna. Á fyrsta sumardeginum, ef svo má segja. Í 17° hita og drottningin skartaði svo sannarlega sínu fegursta. Kórónan sjaldan fallegri og tignarlegi, svo hvít og stór en samt svo fínleg. Það var eins og hún gréti gleðitárum þar sem lækjasprænurnar fossuðu fram úr giljunum.
Á toppnum var hjarnið ótrúlega slétt og glansandi í allar áttir, eins og jökull. Sólin hreinlega lék sér á breiðunni og allt í einu var eins og maður væri kominn á topp veraldar þar sem við áttum ein heima. Aðeins sólin ofar og blár himininn. Önnur fjöll svo fjarska lág. En yfir höfuðborginni lá mistur. Mistur vandamála og amsturs. Þar sem við flest eigum heima.