Fimmtudagur 05.05.2011 - 23:16 - FB ummæli ()

Bílamenning og lágmenning

Tæplega 200.000 bílar til afnota fyrir rúmlega 300.000 manna þjóð, knúnir í 99,5% tilfella af fljótandi eldsneyti, bensíni og díselolíu eins og sjá má í frábærri skýringarmynd Fréttablaðsins í morgun. Einnig stór fiskveiði- og kaupskipafloti sem eyðir helmingi meira en bílaflotinn. Síðan flugfélögin sem eyða ógrynni af eldsneyti í hverri einustu flugferð til sólarlanda yfir hafið og í heildina hátt í fjórðung af magni eldsneytis sem fer á bílana okkar yfir árið. Staðreyndir sem tala sínu máli enda nota Íslendingar mest allra þjóða í heiminum af orku.

„Jarðavarmaorkunotkun Íslendinga er ein og sér meiri en heildarorkunotkun hinna Norðurlandanna á hvern íbúa. Samtals nota Íslendingar tvöfalt meiri orku á mann en þær Norðurlandaþjóðir sem koma næst, en þrisvar sinnum meiri orku en t.d. Danir“ (Úr þjóðarbúskapnum 2004, Fjármálaráðneytið). Sennilega þurfa íbúar eylands í Norður-Atlantshafi að nota eitthvað meira af orku en íbúar á meginlandi Evrópu. En hverjir eiga að spara orku í heiminum ef ekki þeir sem eyða lang mest af henni? Á sama tíma bráðna jöklarnir okkar nú meira en nokkru sinni áður, eða um nokkra rúmkílómetra á ári hverju. Þeir gráta og fósturmoldin með.

Menning okkar á auðvitað taka meira mið af því hvað er að gerast í heiminum öllum og eins hvernig við umgöngumst okkar eigið land. Að við förum að líta ábyrgari augum á þá ógn sem hlýnun jarðar hefur á allt umhverfið. Bráðnun jökla er augljósasti mælikvarðinn. Ekki síst hér á landi á nýju landi sem enn er í mótun. Land sem hefur verið til spari, þar til nýlega. Þar sem býr þjóð sem vill vera í sérstöðu. Vonandi í umhverfisvernd og nýtingu hreinnar orku einnig. Fyrirmynd annarra þjóða í hófsamari orkueyðslu íbúanna sem er megin grundvöllur fyrir sjálfbærni í heiminum í dag. Þjóð sem í dag eyðir samt allra þjóða mest af orku!

Á meðan fiskiveiðiflotinn gengur á olíu og tekur megnið af þeim kóda sem okkur er úthlutaður í losun koltvísýrings samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum, að þá ætti að vera lögð miklu meiri áherslu á nýtingu hreinnar raforku til samgangna í landi á móti, ekki síst á landi eins og okkar þar sem hún er auðfengin. Nú er lag að linni og að við komumst fljótt á blað sem leiðandi þjóð í því sem ætti að vera okkur í blóð borið. En verkin verða að fá að tala. Hver og einn verður að að líta í eigin barm, viðurkenna vandann og hugsa hvernig hann notar orkuna fyrir sig og sína í dag. Ekki síst til að allir komist á sem hagkvæmastan hátt á milli staða. Samkvæmt einstaklingskóda sem ætti að vera sem jafnast dreift íbúa jarðarinnar. Ef allir hugsuðu svona og létu þessi vandamál sig persónulega varða, stæðum við skrefinu nær og minni hætta á að við skilum sviðinni og skorpinni jörð til komandi kynslóða. Að við arðrænum ekki sjálfa fósturmoldina sem við fengum gefins. Ræktanlegu landi, jöklum, ám og vötnum. Hver og einn út frá sinni samvisku þótt ekki væri meira. Og ef vel gengur gæti Ísland hugsanlega orðið að Aldingarðinum Eden í framtíðinni. En ekki fyrr en við hættum að vera umhverfissóðar.

Minni einkabílanotkun er fyrsta skrefið ásamt þá bættum almenningssamgöngum. Rafbílamenning er annað raunhæfa skrefið. Hitaveitan okkar, stolt okkar og prýði, var auðvitað fyrsta skerfið fyrir 80 árum síðan, heitt vatn í húsin sem við mættum þó vel fara mikið betur með. Um 500 bílar eru á götunum sem nota rafmagn að hluta sem orkugjafa. Skref í rétta átt. Bílar eins og Toyota Príus sem hafa verið á markaði í áratug hér á landi hafa skarað fram úr í gæðum og endingu. Talar sá sem hefur reynslu af einum slíkum. Bíll sem eyðir innan við 6 l. á hundraðið af bensíni í innanbæjarakstri. Bíll sem kemur í endurbættri útgáfu á næsta ári og sem mun eyða mun minna og hægt verður að keyra um 50 km á rafhleðslunni einni saman. Þetta er allt að gerast og nú verða stjórnvöld að hafa hraðari hendur en verið hefur til greiða fyrir innflutningi rafmagnsbíla og styðja við þær tæknibreytingar sem þörf er á til að hægt verði að rafvæða íslenska bílaflotann á næstu árum. Réttara sagt, bretta upp ermarnar. Einn, tveir og þrír og ekkert þras meir.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn