Föstudagur 06.05.2011 - 14:57 - FB ummæli ()

Góður dagur til að ganga á fjöll

Í dag er góður dagur þótt úti sé norðaustan nepja í höfuðborginni. Kalt á vangann en maður finnur samt að volgir straumar liggja í loftinu. Kjarasamningar ASI í höfn sem vonandi leggur grunninn að bjartari framtíð. Þrátt fyrir andstöðu sumra sem gera hvað sem er til að veikja ríkisstjórnina. Friður á vinnumarkaði er auðvitað algjör grundvöllur hagsældar í framtíðinni. Í dag er bullandi kreppa og óvíst hvort botninum er náð. Því mikilvægara er að komast að sameiginlegri niðurstöðu, þótt á brattan verði að sækja.

Í dag var gott að fá morgunkaffið sitt eins og maður vildi best hafa það. Dagur eins og flestir aðrir en sem samt lofaði góðu. Hundarnir voru frelsinu fegnir eins og alltaf á heiðinni og léku sér eins og þeir mest gátu. Glaðir með sitt, alveg þar til á heimleiðinni að þeir sáu kött í götunni. Þá urruðu þeir og geltu þannig að ég varð að kippa í þá. Köttur sem hafði aldrei gert þeim neitt og var í raun lagt í burtu var orsökin. Hvað er þetta eiginlega með hunda og ketti.

Stjórnmálaumræðan er oft eins þessa daganna og ekkert gott má sjást til að sumir rjúki upp og spangóli. Vegurinn þar er reyndar ansi grýttur og liggur mikið uppí móti. En það vita allir sem ganga eitthvað á fjöll, að fjallið lítur allt öðru vísi út í fjaska en það gerir þegar á hólminn er komið og uppgangan er hafin. Á toppnum er síðan eins og fjallið sé horfið og það ert þú sem horfir út yfir sjóndeildarhringinn. Stundum nýtt landslag, jafnvel ókunnur heimur. Og svo má líka spá í hvernig fjallið er hinum megin. Verum dugleg að fara út að ganga um helgina, helst á fjöll, annars fell og hóla.

Á sunnudaginn er meiningin að ganga á fjall fjallanna, sjálfan Hvannadalshnjúk. Vatnajökul, konung jökla á Íslandi og markmiðið er auðvitað að komast á sjálfan toppinn. Fá ferska vinda í hugann, storminn í fangið og vítamín í kroppinn sem endast mun vonandi næsta árið. Þar sem dægurþrasið gleymist og hvergi eru hundar eða kettir til að amast við.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn