Fimmtudagur 19.05.2011 - 23:41 - FB ummæli ()

Vor

Vor, er stutt orð. Kalt vor, er stutt setning. Sumrin á Íslandi eru líka stutt og nú er aðeins um mánuður í sumarsólstöður. Hvernig má þetta vera? Við bíðum og bíðum og áður en við vitum af er aftur farið að snjóa fyrir norðan og dýrin komin í hús. Og áður en maður veit af er komið haust og þá stutt í langan vetur.

Sumum finnst þessi lýsing sjálfsagt vera svartsýnistal og bera vott um mikla neikvæðni. Fyrir mér er samt vorið í ár eitt það besta. Ekki þó vegna sumarylsins sem sumar þjóðir hafa svo nóg af og er hversdagslegur hlutur á þeirra mælikvarða. Það eru allir hinir hlutirnir sem við eigum svo mikið af. Ekki síst hlutir af landinu sem við kunnum meira og meira að meta eftir því sem við eldumst. Á landinu góða þar sem enginn dagur er eins, sumrin stutt en veturnir langir, oftast rok og nóg rigning, sem betur fer. Það er Ísland.

Frá því í febrúar er vorið búið að vera í hjartanu mínu upp á hvern einasta dag. Með þátttöku í ljósinu þegar daginn er farið að lengja svo um munar, þótt vetur konungur láti ekki stax undan. Enda hvernig ætti annað að vera, í sínu eigin landi. Þar sem sumar og sól eru boðin velkomin til hátíðarbrigða. Og á þeim hátíðisdögum reynum við að njóta daganna vel og lengi. Og síðan að hlakka aftur til næsta sumars.

Vorið er líka tími vona. Að bráðum komi betri tíð með blóm í haga. Í baráttu lífs okkar sem kviknar þrátt fyrir allt eins og nýgræðlingar upp úr freðinni jörð. Vorið var þannig líka einu sinni minn tími. Endalausar endurminningar úr sveitinni minni eftir öll þessi ár sem hafa haldið áfram að vaxa og allt er eins og gerst hafi í gær. Þar sem vinnan var ánægjan ein, með öllum dýrunum og góðu fólki, frá morgni til kvölds. Veganestið stærsta sem enst hefur mér svo vel. Vorinu er hins vegar nú lokið hjá mér sjálfum og jafnvel aðeins liðið á sumarið. Börn mín fullvaxta og uppeldinu lokið. En það er ennþá vor í sálinni enda barnabörnin mörg og fögur, kát og hress, ljósgeislarnir sterku sem lýsa upp tilveruna. Þar sem vorið er jafnvel allt árið.

Kalt vor sést á fjöllunum í fjarska. Það snjóaði í kvöld í hlíðar Esjunnar og snjóskaflarnir eru ennþá eins og frosin tár á vanga. Sömu tár og fossuðu niður um daginn sem gleðitár þegar vorylurinn loks kom. Og norðan garrinn beit ennþá örlítið í kinn á Úlfarsfellinu í kvöld. Hann Frosti vinur lætur ekki að sér hæða. Með gustinn í fangið dag eftir dag og jafnvel storminn á jöklunum sem ég heimsótti um daginn,  Snæfellsjökul og Vatnajökul. Þar sem sólstafirnir fá nýja vídd þegar horft er yfir sæ og þeir leika sér að götum skýjanna. Skjannahvít birtan sem gefur úfnum sjónum ævintýranlegan blæ, jafnvel hýjan blæ. Tálsýn eins og undir regnboganum, bara hátíðlegri. Loftið kristaltært þar sem himinn og jörð, snjór og fjöll, ský og sjór ýmist afmarkast ótrúlega vel hvað frá öðru, eða renna saman í eina móðukennda heild með yfirnáttúrulegri birtu. Mynd fyrir okkur að njóta í andartakinu. Þetta er landið mitt Ísland, þar sem alltaf bjart er á vorin.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn