Sunnudagur 19.06.2011 - 10:26 - FB ummæli ()

Vængbrotnir fuglar

Nú um hásumarið er fuglalífið í algleymingi. Eins og nýr heimur úti í móa og ný vídd til að njóta. Öll hljóðin og söngurinn sem litast af gleðinni, en líka baráttu lífsins. Allt hljóð og líf sem fær mann til að hugsa hlutina aðeins öðruvísi. Áður en allt verður þögult aftur á löngum vetrarnóttum.

Það er stórmerkilegt hvað fuglarnir geta líka verið sniðugir þegar þeir reyna að plata og afvegaleiða mann á gönguleiðinni. Það þarf mikla útsjónarsemi til að þykjast vera vængbrotinn og hlaupa rétt við fætur manns, í stað þess að fljúga sem þeim er eðlilegast. Allt til að bjarga því sem þeim er mikilvægast, ungunum sínum.

Við mennirnir förum ekkert ósvipað að, en tilgangurinn er þó oft annar. Það má segja að það liggi í blóðinu okkar að leiða hvort annað af leið, þegar að okkur þrengist. Að beina sjónum okkar hinna að einhverju allt öðru en skiptir mestu máli. Jafnvel sem allir sjá, ef betur er að gáð. Hvað erum við ekki búin að sjá þetta gerast oft síðastliðin misseri. Núna stíga yfirmenn kirkjunnar líka sinn darraðardans og reyna hvað þeir geta að afvegaleiða umræðuna þannig að hún snúist um eitthvað allt annað en sem skiptir okkur hin mestu máli. Að viðurkenna að heilum hug og öllu hjarta að sjálfur sannleikurinn hafi átt sér erfitt uppdráttar hjá kirkjunni. Að meiru máli hafi skipt að missa ekki völdin.

Alvarlegasta málið fyrir utan sjálft brotið á konunum sem segja má að séu í raun vængbrotnar, er trúnaðarbresturinn gagnavart öllum sóknarbörnum landsins. Eitt af því sem lítið hefur verið rætt um og hvaða þýðingu hefur innan kirkjunnar. Ekki bara áratuga trúnaðarbrestur sem prestur og síðar æðsti kirkjunnar maður hefur sýnt sig hafa veitt sínum sóknarbörnum og litar líka öll hans „góðu“ embættisverk. Líka þöggunin á sannleikanum öll þessi ár í skjóli núverandi yfirstjórnar kirkjunnar. Það sem er sárast og sem núverandi stjórnvöl kirkjunnar hafa viðurkennt er að þau „vissu“ allt of lengi án þess að viðhafast nokkuð. Að það hafi bara verið „ákveðin mistök“ að grípa ekki fyrr inn í. Um leið og þau árétta að mistökin séu þó ekki brotleg í laganna skilningi. Fyrir hinu almenna sóknarbarni eru mistökin mikilu alvarlegi en svo, enda ristir trúnarbresturinn djúpt, jafnvel áratugi aftur í tímann..

Að vilja hvað sem það kostar að halda ljótum sannleikanum undan, sjálfs sín vegna, er ljótur leikur. Hann er því furðulegur þessi heimur fuglanna og prestanna. Annar er þó að leika af illri nauðsyn fyrir ungana sína, hinn ekki gagnvart sóknarbörnum sínum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · kirkjan · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn