Föstudagur 17.06.2011 - 11:01 - FB ummæli ()

17. júní 2011

photoHvað skyldi Jón Sigurðsson hafa hugsað á 200 ára afmæli sínu í dag, ef hann væri á lífi? Á sama tíma og margir hugsa nú heim til Frónar eins og honum var tamt að gera við svipaðar aðstæður í hálfgerðri útlegð, enda mörgum ekki vært að dveljast heima lengur. Eins og í fjarlægri draumsýn, en samt draumur sem vonandi á eftir að rætast úr sem fyrst fyrir sem flesta. Ég vil efast um að Jóni hafi órað fyrir, að eftir alla sjálfstæðisbaráttuna og fleygu orðin, skyldum við síðan ekki kunna fótum okkar forráð og verða sjálfum okkur verst. Þar sem okkar eigin stjórnsýsla og menntakerfi brást. Þar sem spillingin gegnsýrði allt.

Full ástæða er samt að reyna að vera svolítið bjartsýnn á þjóðhátíðardaginn, á afmælisdegi sjálfstæðishetjunnar okkar og lýðveldisins. Þótt ekki væri nema fyrir börnin og barnabörnin. Það vill nefnilega oft gleymast að meta það sem verðmætast er í lífinu og við eigum flest, fjölskyldugildin auk væntumþykju fyrir landi og þjóð. Fjölskyldan okkar er einstök, eins og við sjálf og stóra fjölskyldan, sjálf þjóðin. Samt svo lítil þjóð en í stóru og auðugu landi. Þar sem er alltaf sjónarspil hafs og skýja, jökla og fjalla. Líka þjóð sem svo sannarlega hefur þurft að hafa fyrir lífinu gegnum aldirnar en sem gekk síðan út af sporinu. Eins og sá sem sem hefur fengið slæmt uppeldi og lélega kennslu í lífsins skóla sem kallaðist „íslenska góðærið“. Þar sem markaðsöflin réðu mestu. En nú mótmælir íslenska þjóðin, við mótmælum öll.

Lýðveldið rær lífróður fyrir sjálfstæði sínu og stendur á allt öðrum krossgötum en Jón Sigurðsson ímyndaði sér að við kæmum að, eftir allt sem á undan var gengið og alla baráttuna. Hjá þjóð sem þarf nú meira en nokkru sinnum áður að treysta á góð menningartengsl við önnur lönd, nýtt fjármálakerfi, góða skóla, nýja siðfræði og jafnvel nýja kirkju til að eiga möguleika á að fá að vera með í samfélagi þjóðanna. Á tímum þegar unga fólkið getur líka valið sinn dvalarstað, til vinnu eða náms hér heima eða erlendis. Líka til að læra að vera ábyrgur gerða sinna, trúr og tryggur. Til að standa vörð um auðlindirnar, landið og miðin. Fyrir næstu kynslóðir að njóta. Alls þessa minnumst við í dag og vonum það besta.

Börnin gera sér glaðan dag og hlusta á lúðrablástur, spariklædd í sumarnepjunni og vita varla hvað er verið að halda upp á. Nú loks er þó komið sumar þótt ennþá séu bláu fjöllin hvít í toppinn. En á milli fjallanna eru djúpir og hlýir dalir. Þar eru börnin okkar og barnabörn að leik og halda á íslenska fánanum í annarri hönd, en innfluttri fígúrugasblöðru í hinni. Það er svo sem aldrei spurning af hvoru við viljum sjá af upp í himingeiminn. Hverju verður haldið eða sleppt.

Ég býð lúpínuna velkomna í flóruna okkar, bláu blómin með hvítu toppana sem minna á fjöllin okkar eins og á myndinni minni hér að ofan. Þar sem hún unir sér vel innan um gulu fíflana, sólarblómið okkar. Að minnsta kosti fagnar lúpínan  mest allra deginum okkar með óteljandi blómum út um meli og haga. Ég óska líka öllum nýbúum til hamingju með daginn með von um nýja og bjarta framtíð á landinu góða. Öllum sem hér vilja búa í fjölmenningarsamfélagi þar sem umburðarlyndið verður vonandi látið ráða í minnkandi heimi. Líka í tilefni að deginum sem börnin mín eiga hér heima og í Svíþjóð. Ekki síst sonur minn, sem á líka afmæli í dag. Til hamingju Ísland.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn