Miðvikudagur 15.06.2011 - 16:38 - FB ummæli ()

Á meðan fæturnir bera mig

Varla er til betri titill á umræðu um góða beinheilsu og mikilvægi D-vítamíns í næringu okkar Íslendinga, þótt foreldrarnir sem hlaupið hafa hringinn í kringum landið og koma heim á morgun, eigi auðvitað heiðurinn af þessum titli. Markmiði sem tengist engu að síður öðrum góðum markmiðum og heilsu okkar allra.

Mikil umræða hefur verið um D-vítamín, ekki síst fyrir fyrir þær sakir að verulega hefur vantað upp á að inntaka á D-vítmíni hafi verið nógu góð gegnum tíðina hjá okkur Íslendingum. Ekki síst í seinni tíð meðal barna og unglinga. Í síðustu viku birtu bandarísku hormóna- og efnaskiptasamtökin nýjar leiðbeiningar um æskilega neyslu á D-vítamíni og ráðgjöf um mælingar í blóði, sérstaklega ef fólk hilheyrir áhættuhópum. Næg inntaka á D-vítamíni og kalki ásamt hreyfingu er mikilvægast forvörnin til að viðhalda góðri beinheilsu, ekki síst þegar árin færast yfir og burðarvirkið rýrnar. Burðarvirki sem er forsenda annarrar heilsu.

Eðlilegir beinbjálkar í frauðbeini og úrkalkaðir vegna beinþynningar (osteophorosis)

Við búum á landi dimmra og langra vetra og því er framleiðsla okkar sjálfra á D-vítamíni minni en annarra sem búa í sólríkari löndum. Neysluvenjur okkar hafa líka mikið breyst á síðustu áratugum og og margt því miður versnað í mataræðinu, þótt aldrei hafi verið meira grænmeti og ávextir á boðstólum í verslunum. Fæði sem kostar töluverða peninga og sem ekki allir eiga. Ekkert síður á skyndibitaöld þar sem gamall góður íslenskur matur hefur víkið fyrir næringarrýrara og oft á tíðum óhollara fæði. Meðal annars fiski sem inniheldur bæði nóg af D-vítamíni og ómega-3 fitusýrum sem við þörfnumst hvað mest. Áður hef ég rætt nánar um þá hluti í pistli sem bar nafnið „D-vítamín og sterkar íslenskar konur„. Sérstaklega mikilvægt er að börnin okkar og unglingar borði meira af fiski og hreyfi sig meira til að tryggja sem besta heilsu síðar á ævinni.

Beinmassann byggjum við mest upp þegar vöxturinn er hraðastur á unglingsárunum. Beinbjálkar raðast þá upp og styrkjast að tilstuðlan D-vítamíns og kalks eins og sést á mydnunum að ofan. Vaxtarhormón og kalkhormóninn gegna líka mikilvægu hlutverki í uppbyggingunni sem á síðar að standast tímans tönn. Ekkert ósvipað og önnur mannanna verk sem vel er vandað til. Við komum heldur aldrei í veg fyrir öldrun og hrörnun, en við getum hægt á henni. Auk áhrifa á beinin okkar er ýmislegt sem styður gagnsemi  inntöku D-vítamíns gegn ýmsum sjúkdómum, ekki síst gegn vöðvabólgum og vöðvaslensfári. Sumar rannsóknir benda líka á gagnsemi til að verjast ákveðnum krabbameinum svo sem ristilkrabbameini, ákveðnum smitsjúkdómum, sykursýki og jafnvel háum blóðþrýstingi. Hugsanlega með því að tengjast áhrifum afoxandi efna á öldrun frumna líkamans.

Öll viljum við geta staðið „meðan fæturnir bera okkur„. Það á ekki síður við þegar við eldumst og viljum geta sinnt nauðsynlegustu athöfnum daglegs lífs, en þegar unga fólkið hleypur hringinn í kringum landið til að minna á mikilvægi heilsu barnanna okkar. Heilsu sem er ekki alltaf sjálfgefin en okkur finnst svo sjálfsagt að þau eigi. Að fæðast hraust en lenda svo í því að fá alvarlegt krabbamein er mjög ósanngjarnt. Önnur barátta í þessu landi en sem oftast er í fréttum og sem við viljum styðja þegar hringnum nú um landið er að ljúka. Um leið og við minnumst þess hve mikilvægt það er að fæturnir beri okkur sem lengst, um leið og hugann og hvað hreyfing er alltaf nauðsynleg til að viðhalda góðri heilsu, alla ævi.

Í nýju bandarísku leiðbeiningunum er ráðlagt að D-vítamín magn í blóði haldist milli 40-60 ng/mL 25-hydroxy-vítamin D (25[OH]D) bæði hjá fullorðnum og börnum. Áður var miðað við 30 ng/mL sem er áfram lágmarkið sem miðað er við, en mælingar geta verið misnákvæmar eftir rannsóknarstofum. Klár vítamín-D skortur er skilgreindur þegar 25[OH]D gildið fer undir 20 ng/mL. Fólk á öllum aldri getur verið með skort. Þeir sem eru þó í sérstakri áhættu eru þeir sem eru offeitir, af svörtum kynþætti en búa á norðlægum slóðum og sjúklingar með ýmsa meltingar- og efnaskiptasjúkdóma. Eins konur sem hafa átt mörg börn og haft börn lengi á brjósti.

Vegna þess hve skortur er algengur og venjulegt fæði inniheldur lítið D-vítamín að jafnaði, að þá er öllum ráðlagt að taka inn D-vítamín aukalega daflega, ekki síst auðvitað þeim sem kunna að vera í meiri áhættu, ekki síst á veturna. Oftast er mælt með hærri skömmtum en ráðlögðum lágmarksskömmtum sem eru 400 IU (alþjóðlegar einingar)/dag til barna upp að eins árs aldri, en 600 IU/dag til eldri barna. Hins vegar þarf a.m.k. 1000IU/dag til að ná að hækka 25[OH]D magnið í blóðinu upp fyrir 30 ng/mL fyrir börn og unglinga en 1500 – 2000 IU/dag fyrir aldurshópinn 19- 69 ára. Þeir sem eru 70 ára og eldri ættu að taka að lágmarki 800IU/dag, en helst 1500-2000 IU/dag. Ófrískar konur og konur með börn á brjósti skulu taka að lágmarki 600 IU/dag, en 1500 IU/dag gæti þurft til að ná blóðgildinu af 25[OH]D upp fyrir 30 ng/mL.

Of þung börn og börn og fullorðnir sem taka inn flogaveikislyf, sykurstera og sveppalyf (ketoconazole) þurfa 2 til 3 sinnum meira D vítamín en aðrir. D2-vítamín og D3-vítamín eru álíka gagnleg lyfjaform til inntöku, en stöku sinnum þarf að gefa hærri skammta en hér eru nefndir að framan. Að öðru leiti er vísað á fyrri færslu frá því í vetur og grein sem þar var vísað í, í Læaknablaðinu auk greinnarinnar sem vísað var í hér að ofan,  J Clin Endocrinol Metabol. Published online June 6, 2011 og umfjöllun á Medscape-Family Medicine.

Bjóðum samt sjálfa sigurvegarana velkomna heim á morgun, 16 júní. Við höfum mörg verið með þeim í huganum um landið fagra síðastliðnar tvær vikur, en sem oft á tíðum er harðgert eins og lífið sjálft. Líka gefið okkur andrými til að losna undan ömurlegri dægurumræðunni eitt andartak og tækifæri þess í stað að taka þátt í einhverju sem sameinar okkur öll, þegar mest á reynir.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn