Fimmtudagur 30.06.2011 - 23:54 - FB ummæli ()

Þetta er landið þitt

Í gærkvöldi gekk ég í góðum hópi ferðafélaga á Vífilsfellið. Hef reyndar gert það nokkrum sinnum áður mér til gleðiauka, en aldrei í jafnbjörtu veðri. Það var smá norðannæðingur sem bara jók á ánægjuna enda svifu svifflugvélarnar fram og til baka rétt yfir höfðinu svo auðveldlega mátti heyra þytinn í þeim. Öðruvísi fuglar en ég er vanur í móunum heima og flugmenn sem sjá heiminn öðruvísi en flest okkar..

Gangan upp er frekar brött og telst frekar erfið fyrir óvana. Eins og segir í ljóði Tómasar Guðmundssonar, Fjallgangan. „Urð og grjót, upp í mót“ og vísar þar líka meðal annars til lífsgöngu okkar. Efri hlutinn er hins vegar gjörólíkur og minnir helst á tunglið enda ljóðið ort um önnur fjöll, ef til vill Esjuna, drottningu höfuðborgarinnar. Vífilsfellið gæti þá hæglega verið kóngurinn, þótt minna sé, enda bara fell. Vindsvarðar móbergsflögur af öllum stærðum og lögun er líka einkennandi fyrir sögu fellsins. Margar móbergsmyndirnar eins og skúlptúrar úr mannheimum sem vísar til listviskunnar. Ekki síst efst og smá príl byrjar til að komast alla leið á toppinn..

Útsýnið þar er engu líkt á góðum og björtum degi eins og var í gær. Þá sést vestur allan Reykjaneshrygginn, til Helgafells, Keilis, Grænudyngju og Trölladyngju. Norður yfir Þingvallasveit, Botnssúlur, Ármannsfell og alla leið til Skjaldbreiðar. Hellisheiðin sjálf eins og lágheiði, Ingólfsfjallið og Hekl og Vestmannaeyjar lengst í austri. Hengilsvæðið er eins og í nærsýn, allt eins og það leggur sig til að kortleggja í þaula í lófa sér. Og síðan Esjan og Móskarðstindar ásamt Skálafelli sem byrgir manni þó sýn lengra upp í Borgarfjörðinn. Öll fjöllin og sveitirnar okkar. Nágranarnir okkar góðu og fósturjörð, blíð en hörð í senn.

Þegar maður nýtur alls útsýnisins, auk dulmagnaðrar fegurðar sjálfs fellsins, kemst maður ekki hjá því að velta fyrir sér samlíkingum, jafnvel um eitthvað sem manni finnst ómissandi í daglega lífinu. Til dæmis spegilmyndarinnar og að spegla sjálfan sig og horfa jafnvel djúpt í eigin augu, spegil sálarinnar. En sýnin á fjallinu er í þrívídd og miklu fullkomnari og þú getur snúið þér í hringi og horft í allar áttir. Hlegið, öskrað, frjáls eins og fuglinn eitt augnablik. Þetta er landið okkar og hluti af sjálfum mér, sem er svo gott að geta skynjað.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn