Föstudagur 05.08.2011 - 20:36 - FB ummæli ()

Huldir heimar

Sumri er aðeins farið að halla á Íslandi. Dagarnir eru samt heitari og landslagið fallegra en nokkru sinni. Tilvalinn tími til að leggja land undir fót. Ganga á fjöll og sjá betur landið sem við búum á. Ekki síst á þau fjöll sem við horfum dreymandi á allan veturinn. Þótt ekki væri nema einu sinni á ævinni. Kynnast betur þriðju víddinni, samspili ljós og skýja, kletta og blóðbergs sem nú er í fullum blóma. Finna lyktina af grjóti og mold á toppi veraldar þar sem ekkert annað spillir. Vera nær skýjunum og rigningunni sem allt nærir. Þar sem litirnir eru óteljandi, í bland, á alla vegu. Á íslensku fjalli, Esjunni góðu.

Móskarðshnjúkarnir eru sérstaklega skemmtilegir á að ganga. Þar sem sólin er alltaf í norðri, og jafnvel þótt hún sé langt á bak við skýin. Þar sem mosinn er hvegi mýkri og alla steinana klæðir. Í efstu og neðstu hlíðunum og sem sker sig af svo mikilli nærgætni frá gulu líparítinu. Sem dregur að sér orku sólarinnar, en gefur hana frá sér um leið. Aðdráttarafl sem engin mannleg vera stendst. Og maður skynjar þetta allt eins og að geta gengið inn í málverk málverkanna.

Hins vegar er ekkert raunveruleikanum framar, ekki einu sinni listin, með öllum þeim möguleikum sem hægt er að leika á skynfærin okkar. Skynja návígið með íslenskri náttúru. Samspil landslags og birtu á landi sem gefur fjarlægðinni vídd sem er miklu meira en þrívídd. Þar sem þó svo ótrúlega erfitt er að eiga heima þessa daganna af allt annarri ástæðu. Baráttan í mínus og framtíðin ótrygg fyrir unga fólkið. Þar sem daglega er haft áhyggjur af gengisþróun og falli verðbréfa en ekki af og til náttúruhamförunum eins og hér áður. Þar sem álögurnar hækka stöðugt og mest er rætt um hvar næst verður skorið niður af velferðarþjóðfélaginu. Á landi sem stór hluti þjóðarinnar lifir orðið undir fátæktarmörkum. Þar sem fleiri og fleiri eru fastari í skuldafeni heimilanna en í rótum ættjarðarinnar. Sem skulda miklu meira en þeir eiga, án þess að hafa okkuð um það að segja.

Nú nokkrum dögum síðar eftir fjallgönguna góðu á Hátind á Esjunni er ég staddur í Svíþjóð, í sænsku sumri eins og það gerist best, í Stokkhólmi nánar tiltekið. Nýt alls þess sem stórborgin hefur að bjóða í góðu yfirlæti fjölskyldumeðlima sem búa í úthverfi, í sveit í borg eins og heima í Mosó á Íslandi. Þar sem velferðin drýpur af trjánum og blómunum og sérlega vel fer vel um börnin. Örugg leiksvæði og opin græn svæði um allt þar sem allt önnur náttúra skartar nú sínu fegursta en sú íslenska. Öryggi í fyrirrúmi og hvert sem litið er, er mannlífið eins og best verður á kosið. Allir rólegir og kurteisir og njóta stundarinnar umfram allt.

Þá verður manni hugsað heim og hversu ólíkir heimarnir eru í raun. Hvernig dægurþrasið um lífsbjörgina frá degi til dags hverfur í sumarylnum, undir sterkri sænskri sól. Þar sem umræðan snýst um menntun og gildi hennar til framtíðar. Þar sem himininn og hafið er álíka blátt og á Íslandi og sólin er líka jafn gul. Hulinn heimur samt fyrir mörgum Íslendingum í dag og líka ólíkur heiminum sem ég heimsótti um daginn, bak við Esjuna mína. Þar sem ég get þó unað sáttur við mitt, í versta falli. Á gulu Móskarðshnjúkunum og í græna lynginu og mosanum sem klæðir hörðu steinana heima.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn