Mánudagur 15.08.2011 - 11:52 - FB ummæli ()

Öðruvísi þríhyrningar en þeir íslensku

Nýlega skrifaði ég um göngu á fjall norður í Skagafirði sem nefnist Þríhyrningar. Nú vill svo til að ég hef verið að ganga kringum vatn hér í Svíþjóð sem einmitt heitir sama nafni eða Trehörningen og eins og nafnið ber með sér eru hornin þrjú. Vatnið tilheyrir Huddinge kommune og er mikil náttúruperla sem margir nýta sér.

Þar er þó ekkert Skessusæti og eingin Heljarskriða eins og á nafnanum heima á Íslandi, en stór skógur er hinsvegar umhverfis vatnið. Gjörólíkt umhverfi á allan hátt og í raun ekkert líkt nema litirnir í náttúrunni og sólin á himninum. Gangan sem slík líka ólík og lítið á fótinn. Rótarflækjur og sleipir bjargkollar sem helst ber að varast. Stóru trén eru mikið fyrir augað, en sárt að komast ekki á toppana og njóta útsýnis ofan frá eins og við eigum að venjast á fjöllunum okkar heima. Og vatnið frýs á veturna og höggormar geta bitið við strendurnar á sumrin. Aðstæður sem geta verið allt aðrar og varhugaverðari en á mörgum öðrum stöðum sem við eigum að venjast.

Lífið er reyndar ólíkt eftir löndum, eins og það er ólíkt í sjálfu sér hjá hverju og einu okkar. Hættur og sjúkdómar geta leynst við hvert spor, sumar og vetur, haust og vor. Göturnar í næsta nágreni vatnsins Þríhyrnings bera þó nöfn sældarlífsins og ávaxtanna en ekki víkinga og frægra sögupersóna. Sennilega til að minna á þegar allt er í blóma og allt gengur svo vel. Eins til að geta hlakkað til góðra sumra eftir langan og kaldan vetur.

En því er ekki að neita að Svíar kunna vel að njóta þess sem þeir hafa. Og mannlífið er líflegra og opnara þegar allir eru úti í góðu veðri og ræðast við, um heima og geima. Ekki síst í görðunum sínum oft undurfallegu. Mannlífið í bænum er þó ólíkt því sem er heima og innflytjendur halda sig oft í hópum, hver hópur með sína siði og sitt tungumál. Fjölþjóðlegt samfélag sem á samt eftir að þroskst mikið. En nú held ég frá Sólfögrugötu og Eplavegi, heim í Hamratúnið mitt á Fróni og þakka kærlega fyrir mig.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn