Laugardagur 15.10.2011 - 13:16 - FB ummæli ()

iPhoninn minn og læknisfræðin

 

Á síðustu árum hafa rutt sér til rúms ýmsar tækninýjungar sem manni hafði ekki órað fyrir að ættu eftir að sjá dagsljósið, jafnvel fyrir bara áratug síðan. Nokkrar hafa verið hér til umræðu á blogginu mínu áður og ennþá eru margar í mótun, sumar reyndar nokkuð umdeildar. Refeindatækninni hefur fleygt svo fram, ekki síst í tölvugeiranum og sífellt nálgast símarnir okkar að sameina allt sem þarf, góðan síma til að tala í, taka við skilaboðum og póstinum, horfa á sjónvarpið ef vill, hlusta á útvarp eða góða músik, nota sem myndavél eða jafnvel sem rafbók og síðan en ekki síst sem lófatalva með tengingum við allskonar forrit á netinu, til gagnaöflunar eða til úrvinnslu og greiningar hverskonar á staðnum.

Sumir hafa talað um að kynslóðin sem fædd er eftir 1980 sé að vissu leiti brautryðjandinn og sem noti mest þessa tækni, tengt flestu því sem ungt fólk gerir í dag. Þau fá upplýsingarnar fljótar og miðla þekkingu sinni hraðar en milli okkar sem eldri erum og sem eigum oft fullt í fangi með að fylgja þeim eftir. Orðið hafa til nýyrði í íslenskri tungu og stundum er talað um þessi undur eins og um væri að ræða einn úr fjölskyldunni. En stundum er hraðinn of mikill og sumir sitja hræddir eftir, kvíðnir og berjast á móti. Þróuninni sem er samt komin til með að vera, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Fyrir ári minntist ég á tækni til að greina eyrnabólgur á mikið markvissari hátt en áður með rafrænni myndatöku, t.d. af miðeyrnabólgubreytingum barna. Greining sem annars er oft mjög erfið. Líka til að fylgja eftir breytingum á hljóðhimnum og til að aðrir læknar geti tekið við upplýsingunum og fylgt breytingunum eftir. Nokkuð sem allir skilja sem vilja. Ekki síst foreldrar og sem furða sig oft á að slík tækni skuli ekki vera frekar reglan en undantekning á eyrnabólgulandinu Íslandi. Tækni sem býður upp á þann möguleika að þú sjáir eyrnabólgu barnsins þíns á iPhoninum þínum. Tækni sem býður upp á að spara megi óþarfa sýklalyfjagjöf sem ekki er vanþörf á hér á landi og mikið hefur verið í fréttum að undanförnu. Þegar oft betra er að bíða með slíka meðferð og sjá hver framvindan verður. Ekki síst vegna þeirra sem mest þurfa á slíkri meðferð að halda í framtíðnni og þregar við viljum að lyfin virki vel.

Hægt er að fá forrit fyrir iPhone síma til greiningar á húðbreytingum og sem ég fjallaði nýlega um. Sími og forrit sem gefur fólki kost á að taka mynd af fæðingarblettunum sínum hvar sem er til sjálfsgreingar eða til varðveislu og samanburðar síðar. Forrit sem merkir helstu form og litabreytingar sem læknar fara annars eftir þegar leitað er eftir einkennum sortuæxlis (melanoma) og sendir myndina til greiningar í forrit gegnum netið. Nákvæm greining á öllum þáttum, jaðarútliti, lit, hversu misdökkur bletturinn er og skiptur. Ráðleggur síðan hugsanlega um nánara eftirlit hjá lækni. Tæki sem getur hjálpað mörgum sem eru óöruggir með blettina sína og sem um leið hvetur til árvekni og meiri sjálfsábyrgðar. Líka til áminningar að fara varlega í sólinni og á ljósabekkjunum.

Önnur tækni sem er að ryðja sér til rúms eru einföld hljóðbylgjutæki til greiningar á fóstrum og allskyns innvortis meinum. Það sem við sjáum ekki og er bak við og fingurnir greina ekki heldur. Hættulausar hljóðbylgjur að minnsta kosti í höndum fagfólks. Jafnvel bara eins og penni sem þú tengir við iPhoninn þinn. Greiningartækni sem er að verða jafn sjálfsögð og venjuleg líkamsskoðun á bráðamóttökum og jafnvel á heilsugæslustöðvunum víða um heim. Jafnvel í heimahúsum með snjallsímanum þínum í framtíðinni.

Svona mætti lengi telja. Hjartalínurit til greiningar á bráðum hjartasjúkdómum einnig og sem kæmi sér ekki síst vel sem forrit fyrir flesta lækna og jafnvel fleiri sem eiga iPhone eða iPad. Allt tækni sem kostar ekki svo mikla peninga. Þegar oft er hægt að stefna að betri læknisfræði með tækninni í stað steinsteypu. Þegar við viljum hætta að hræðast þekkinguna og vinna með henni en ekki á móti.

http://www.alivecor.com/en

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn