Laugardagur 31.12.2011 - 09:33 - FB ummæli ()

Nýmjólkin og krabbamein

Um áramót mætir gamli tíminn þeim nýja á áberandi hátt. Nýi tíminn boðar þá alltaf von um að maður getur gert betur, en sá gamli skilur stundum eftir sig sögu mistaka, sem maður vill ekki endurtaka. Út á þetta ganga meðal annars vísindin. Ný íslensk rannsókn sýnir tengsl mikillar mjólkurneyslu á unglingsárum drengja við hættuna á myndun íllvígs blöðruhálskirtilskrabbameins síðar á ævinni. Rannsóknir Jóhönnu Eyrúnar Torfadóttur næringarfræðings og doktorsnema hafa vakið mikla athygli. Rannsóknirnar sýndu að íslenskir karlar sem neyttu mikillar mjólkur á unglingsárum voru þrefalt líklegri til að greinast með blöðruhálskirtilskrabbamein en hinir sem drukku minna af mjólk. Hugsanlega má tengja áhrif mjólkur við viðkvæmt þroskaferli blöðruhálskirtilsins kringum kynþroskann og hormónaáhrifa einhverskonar. Eftir því sem best er vitað, hefur ekki áður fundist samband milli fæðuvenja snemma á ævinni við áhættu á að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli seinna á ævinni. Reyndar er til önnur rannsókn sem sýndi fram á það gagnstæða og sem Jóhanna bendir á í viðtali. Þörf er því á fleiri rannsóknum sem kanna tengslin betur. Rannsóknin er engu að síður áhugverð og vel unnin.

Krabbamein í blöðruhálskirtli er hins vegar ekki einn sjúkdómur heldur form af mörgum og sem flestir karlmenn fá vísir af strax um miðjan aldur. Því skal fara mjög varlega í að alhæfa um mikilvægi kúamjólkurinnar einnar sem áhættuþætti fyrir algengasta illkynja krabbameinsvextinum.

Hlutfall krabbameins í blöðruhálskirtli sem fundið er með smásjárskoðunum á vefjabitum úr kirtlum einkennalausra karla er mjög hátt. Allt að 8% manna á þrítugsaldri greinast með slíkar breytingar, 30% manna á fertugsaldri, 50% manna á sextugsaldri og 80% manna á áttræðisaldri. Í mörgum þessara tilfella er PSA (prostate specific antigen) hækkað en sem engu að síður hefur verið oft notað í kembileit að krabbameininu með vægast sagt slæmum árangri hvað lifun varðar og lífsgæðum og ég hef fjallað um áður á blogginu mínu.

Fjöldi annarra áhættuþátta en hugsanlega neysla nýmjólkur, skiptir sennilega miklu meira máli hvort krabbamein myndast og jafnvel breytist í illkynjaðasta formið, og sem mestu máli skiptir. Þar á meðal ýmislegt sem finna má í fæðunni í dag og öðrum neysluvenjum almennt. Áfengi, tóbak og brasaður matur þar á meðal. Rannsókn Jóhönnu er engu að síður athyglisverð enda fékk hún í upphafi árs viðurkenningu Velferðarráðuneytisins fyrir framúrskarandi verkefni á sviði lýðheilsu. Sérstaklega er hún áhugaverð vaðandi spurninguna um hollustu ýmissa fæðutegunda í uppvextinum og veltir við mörgum steinum sem við erum grunlaus um hvað geti leynst undir. Ekki er hins vegar ástæða til í dag að vara við gömlu góðu mjólkinni okkar og sem við höfum talið vera meðal okkar bestu og hollustu afurða hingað til, en í hófi. Meiri ástæða þykir að vara við þeim drykkjum sem við þegar vitum hvað eru óhollir, m.a. alla gosdrykkina sem unga fólkið drekkur hvað mest af í dag.

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn