Laugardagur 14.01.2012 - 10:32 - FB ummæli ()

Meira um PIP iðnaðinn og konulíkamann

Nú hafa heilbrigðisyfirvöld hér á landi ákveðið að bjóða konum náið eftirlit með svokölluðum PIP  sílíkon brjóstafyllingarpúðum (Poly Implant Prothese) og borga kostnað sem hlýst við að láta fjarlægja þær fyllingar sem þegar eru farnar að leka. Upplýsingar um málið má finna á vefsíðu Landlæknisembættisins. Umræðan er um lækningavöru sem sem nú er ljóst (frá árinu 2010) að er fölsuð vara og sem inniheldur vægast sagt vafasöm efni eins og komið hefur í ljós á síðustu dögum. Vörum sem eru í hundruð þúsunda kvenna um heim allan og sem á engan hátt er treystandi og hugsanlega stórhættuleg. Líka hér á landi og hundruðir íslenskra kvenna bera, þar sem eftirlitið brást eins og annars staðar í Evrópu.

Ég hef áður sagt að það sé óásættanlegt út frá lýðheilsulegum sjónarmiðum að konur beri PIP púða innra með sér. Lekaáhættan úr púðunum sé allt of mikil, og sem eykst eftir því sem tíminn líður. Hjá sumum konum virðast skelin reyndar líka endast óvenju stutt og illa. Ekki er heldur með vissu vitað hvað er í hverjum poka, nema að sílíkonið sem í þeim er, var í upphafi ætlað í raftæki og húsgögn, en ekki menn. Auk þess hefur fundist í púðunum allskonar önnur efni, uppsprottinn úr olíuiðnaðinum og jafnvel sem ætluð eru sem bætiefni í eldsneyti og sem undir venjulegum kringumstæðum myndu flokkast sem eiturefni fyrir okkur mennina. Miklu strangari fyrirmæli virðast nú gilda um tannfyllingarefni í milligrömmum talið sem fólk lætur fjarlæga ef minnsti vafi leikur á gæðunum, en þessa hálffljótandi iðnaðarmassa undir húð sem jafnvel vegur um 5% af allri þyngd kvennanna. Auk þess allskonar aukaefni ef vel er leitað eins og áður sagði og ekki er vitað með vissu hvaða skaða getur valdið.

Ef um lyfjameðferð væri að ræða gegn sjúkdómum, væri meðferð með aukaefnum í jafnmiklu magni og finnast í PIP brjóstapúðunum sem leka, með öllu óásættanleg og lyfið umsvifalaust tekið úr umferð með bréfi og aðvörun til allra lækna. Auk þess sem rannsóknir hefðu auðvitað upphaflega þurft að fara af stað um öryggi meðferðarinnar áður en hún var markaðssett. Ekki eftir á og reyna þá fyrst að afsanna óhollustu langtímameðferðar og stofna þannig lýðheilsu kvenna í hættu. Eins og nú er rætt um með því að láta konurnar ganga með ósprungnu PIP púðana ótímabundið. Sem samt hæglega gætu verið farnir að leka ósómanum, þótt í minna magni sé og sést.

Í Bandaríkjunum fékkst fyrst leyfi á almennri notkun sílíkonbrjóstapúða 2006, að uppfylltu ströngu eftirliti og eftir reynslu og prófanir tugþúsunda kvenna. Ennþá eru fyllsta öryggi ekki fullnægt að mati heilbrigðisyfirvalda, og sem benda alltaf á eigináhættu og hugsanlegar aukaverkanir sem af púðanotkuninni kann að hljótast. Reynt hafði verið að markaðsetja frönsku PIP púðana, fyrst með saltvatsfyllingu í Bandaríkjunum frá árinu 1996 en sem voru aldrei viðurkenndir að fullu og síðan sílíkonpúðana frá aldarmótunum síðustu sem stóðust heldur aldrei þarlendar reglugerðir eða kröfur. Erfiðleikar að uppfylla gæðastaðla og eftirlit með framleiðslunni höfðu þar mest að segja, auk vafasamrar viðskiptasögu PIP fyrirtækisins við þarlend fyrirtæki. En eftir að fulltrúar FDA (Bandaríska lyfjaeftirlitsins) höfðu skoðað verksmiðjurnar í  Frakklandi, þurfti ekki ekki frekar vitnanna við og algjört bann ákveðið á sölu allra PIP púða í Bandaríkjunum.

Staðreyndin er, að lekaáhættan er að minnsta kosti tvöföld en tölurnar um lekann eru á reiki milli 2 og 12% á ekki svo mörgum árum í lífi kvennanna. Margar alvarlegar aukaverkanir geta orðið jafnvel af hreinu sílíkónini, ef það fer á flakk og sem í sjálfu sér á við um flestar gerðar sílíkonbrjóstapúða. Slæmar staðbundnar bólgur og alvarlegar sýkingar. Eins og alltaf þegar um aðskotahluti er að ræða í líkamanum, nema hvað sílikon í hálf fljótandi formi getur plantað sér út um allt eftir sogæðakerfinu og með blóðrásinni. Þegar bornar eru saman myndir af nýjum og gömlum púðum, ekki síst PIP púðunum margfrægu, þarf ekki auðugt ímyndunarafl til að sjá hvað gerst hefur eða er við það að fara að gerast. Í stað stálgráa litarins á nýju mjúku púðunum, eru þeir gömlu og notuðu líka gulblóðugir með hálf skorpinni skel. Hver getur hugsað sér slíkt til lengdar? Sjón er oft sögu ríkari.

Um helgina fer nú fram mikil kynning í Bretlandi um hvernig eftirlitinu verði best háttað og konur sem fengu PIP brjóstapúðana ísetta hjá einkafyrirtækjum hvattar til að meta stöðuna með sínum læknum og heilsugæslunni. Ef gallar finnast eða leki, á að fjarlægja brjóstapúðana strax, jafnvel á kostnað ríkisins til að byrja með.

Kanadísk heilbrigðisyfirvöld hvetja konur sem fengið hafa erlendar brjóstafyllingar erlendis að láta skoða sig sem fyrst og fjarlægja alla PIP og ROFIL púða  19.1.2012

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn