Það svíður sáran ef salt er borið í sár. Ofan á allt annað sem misfarist hefur tengt heilsunni okkar um árabil hér á landi, bætist nú við umræðan um notkun iðnaðarsalts til matvælavinnslu í stað salts sem ætlað er til manneldis, sem blautt salt í blæðandi sár. Iðnaðarsalt sem flest stærri matvælafyrirtæki hafa nýtt sér til að spara kostnað, hugsanlega á kostnað heilsu almennings. Líka barnanna okkar sem borða brauðið sitt og ostinn, til að verða stór og sterk. Salt sem er ekki ætlað til manneldis eins og stendur skýrum stöfum á plastsekkjunum sem það kemur innflutt í, heldur efnaiðnaðar hverskonar og sem saltvörn á götur og gangstíga borgarinnar sem sárlega hefur vantað, einhverja hluta vegna. Er hægt að svíða meira undan nokkri umræðu? Og maður hélt að salt til manneldis væri þó það eina sem við kæmum alltaf til með að hafa efni á, í grautinn okkar.
Hvað á þetta háttalag að þýða og skömm fyrirtækjanna og opinbera eftirlitsaðila hlýtur að vera einhver þessa daganna? Það er ekki nóg að heilbrigðisyfirvöld beini athyglinni á meinta díoxín mengun við ákveðna staði og veðurskilyrði, um áramót og sem mestu athyglina hefur fengið á síðustu árum, en skiptir í sjálfu sér minnstu þegar allt kemur til alls. Miklu frekar til kadmíns í áburði sem við notum til hálf-lífrænnar ræktunnar hér á landi. Enn frekar til mikillar sýklalyfjanotkunar gegnum árin í góðri trú, en sem er þegar búin að eyðileggja á vissan hátt sýklaflóruna okkar og gera helstu meinvaldana ónæmari fyrir sýklalyfjum þegar öflugra sýklalyfja er mest þörf. Nú á síðustu dögum líka iðnaðarsílikonsins sem lekur um líkama allt að 10% ungra kvenna að öllu óbreyttu með árunum. Öllu sýnilegra vandamál, enda tengist aukinni líkamsþyngd kvennanna sem bera slíka púða, undir húð.
En ofan í öll sárin í þjóðfélaginu þessa daganna, svíður nú mest undan iðnaðarsaltinu. Við, sem í trúarlegum skilningi erum sjálf sögð vera salt jarðarinnar en sem margir eru nú hættir að trúa, enda saltið greinilega þrælmengað eins og svo margt annað í þessu margblessaða þjóðfélagi okkar. Í betur upplýstri almennri umræðu neytenda.