Sunnudagur 05.02.2012 - 17:00 - FB ummæli ()

Sólheimaljósin

Í allri ljósadýrðinni sem nýtur sín best nú í mesta skammdeginu veltir maður oft fyrir sér hvað ljós séu í raun fallegust og hvað birta gefi bestu jólastemmninguna. Sólin, ljós ljósanna er yfirleitt ekki meðtalin í ljósumskammdegisins nema þá jólasólin með dimmrauðu geislana sína og löngu skugganna í fjöllunum. Geislar sem gefa jörðinni okkar meiri vídd en bara þrívídd. Sannkallaðir Sólheimar.

Öll eru rafmagnsljósin ýkt afbrigði náttúrulegrar birtu. Jafnvel meira í líkingu við eldana sem brenna á jörðinni. Það sáum við best þegar við rifjum upp merkustu atburði ársins sem er að líða, þegar sjálfur Eyjafjallajökull gaus með eldrauðum hrauntungum í allar áttir og sem jafnvel mynduðu heilu hraunfossana. Eins alla ljósadýrðina sem fylgdi eldingunum í gosmekkinum og sást langar leiðir. Nú er það hins vegar sjálfur tunglskinsbjarminn sem skín á hvítann hjarann. Og norðurljósin, svo græn og lokkandi, eins og himingeimur í darraðardansi. Hvað er hægt að biðja um meira? Ef til vill bara lítið hvít rafmagnsljós mitt í öllu myrkrinu. Á Sólheimum.

Börnin hafa gaman af ljósum og ekki er alltaf hægt að láta sér nægja kertaljós og minningar. Um æskujólin og ljósin eins og þau voru í gamla daga. Fyrir allnokkru var ég farinn að leita aftur að því gamla og góða sem mér finnst í raun toppa það sem fæst í dag, þrátt fyrir alla tæknina. Sama hvort átt er við glitrandi regnflóðlýsingu eða falleg stjörnuhröp.

Bubluljósin fallegu sem voru svo vandmeðfarin og til vandræða horfði þegar ekki kviknaði á og loftbólurnar komu ekki. Sambland af sykursætri væmni og stemmningu sem bara tilheyra jólunum. Nú er rúmlega hálf öld liðin frá því ég sá þessi ljós síðast en sem eru mér ennþá svo kær. Óskiljanlegt tækniundur í þá daga, ljós í vatninu og loftbólurnar sem báru með sér líf og nýja vídd.

Annað ljós logar úti í sveit, nánar tiltekið á Sólheimum í Grímsnesi þar sem nú er blikur á lofti um reksturinn. Þar skín líka sólin í hjörtum þeirra sem þar búa og við höfum svo oft orðið vitni að. Nálægðin ein við staðinn staðfestir þá birtu og sem ég og fjölskylda mín varð aðnjótandi eina helgi í upphafi aðventu fyrir þremur árum. Í froststillu þegar hrím var á jörðu, nutum samverunnar, föndruðum jóladót og borðuðum góðan mat.

Ég hafði ekki komið áður að Sólheimum en barnshjartað tók kipp þegar keyrt var niður í Sólheimakvosina. Eitthvað svo kunnuglegt og vinalegt. Lítið þorp í sveit, svo framandi og öðruvísi. Á göngu um staðinn kynntist maður fljótt íbúunum sem allir tóku gestunum svo vel. Sund og samvera í veitingarsalnum til að gleðjast meira og síðan fallegir jólatónleikar í kirkjunni. Barnshjartað hélt takti sínum alla þá helgi.

Maður undrast fullkomleika sambýlisins og þeirrar fyrirmyndar sem staðurinn er fyrir fólk sem má sín lítils í höfuðborginni. Þetta er þeirra staður sem á sér stórmerkilega sögu. Í vetur fengum við að kynnast henni aðeins í sjónvarpsþætti og sagan er vel skráð m.a. af Jónínu Michaelsdóttur blaðamanni, ekki síst þætti Sesselju Hreindísi Sigmundsdóttur sem í reisti upp staðinn fyrir 80 árum, „Mér leggst alltaf eitthvað til“.

Annað ævintýri var að kynnast sjálfu Sesseljuhúsi sem er tileinkað Sesselju. Fyrir framsýni hennar og áræðni í málefnum þeirra sem þurfa annað form til að lifa hamingjusömu lífi. Í dag, á vissan hátt samsvarandi framsýni Sesselju í möguleikunum á allri þeirri sjálfbærni sem náttúran ein og tæknin býður upp á, ef við lítum okkur aðeins nær. Að koma á Sólheima er þannig eins og að koma á sjálfbæra plánetu, engri annarri líkri í sólkerfinu. Eins og ný og fullkomin veröld í ófullkomnum heimi okkur mannanna. Falið leyndarmál sem við þurfum að vera duglegri að bjóða bestu vinum okkar þegar við viljum kynna fyrir þeim möguleikum í sjálfbærni á auðlindum náttúrunnar og okkar sjálfra. Og þeim mun vel líka.

Það væri þjóðarskömm og mikill missir fyrir menningararfinn að leggja starfsemina á Sólheimum niður. Ljósið í sveitinni sem gefur svo ótrúlega mikið. Meiru meira en við gerum okkur grein fyrir fyrirfram en skynjum svo vel, þótt við aðeins komum í stutta heimsókn. Hvort heldur að skynja auðlegð náttúrunnar eða skilja mikilvægi góðrar umgengni við hana og skjólið sem hún þá veitir okkur mönnunum.

Hvergi er jólalegra um að litast og hvergi eru jólaljósin fallegri. Það veit ég í dag. Við þurfum öll að leggjast á eitt og sameinast um að tryggja áframhaldandi rekstur Sólheima. Ég skora á alla sem því ekki trúa og hina sem vilja endurnýja kynnin við Sólheima að skreppa austur í bíltúr og kaupa svo sem eitt heimatilbúið kerti. Til að kveikja á um jólin og njóta.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn