Laugardagur 04.02.2012 - 10:55 - FB ummæli ()

Skelfilegir þjóðvegatollar

Þjóðvegur hlýtur að vera vegur lands og þjóðar sem allir vilja standa vörð um og leiði okkur sem mest fram veginn. Líka um alla afkima landsins sem maður hugsar nú meira til þegar daginn er aðeins farið að lengja.

Athyglisverð grein er birt í nýjasta hefti Læknablaðsins eftir Þórodd Bjarnason félagsfræðing og Svein Arnarsson félagsfræðinema undir heitinu Slys á hættulegustu vegum landsins og sem fjallar um hvar flest alvarlegustu umferðarslysin verða, en rannsóknin var gerð á 4 ára tímabili, 2007-2010. Reiknuð var út tíðni slysa á mismunandi vegaköflum á landinu og eins miðað við ekna kílómetra. Tíðni slysa í dreifbýli var sérstaklega borin saman innbyrðis eftir staðsetningu á landinu og nálægð við mesta þéttbýlið.

Í niðurstöðunum segir síðan: „Flest slys á hvern kílometer vegar urðu á vegum til og frá höfuðborgarsvæðinu, en einnig austur að Hvolsvelli, norður til Akureyrar og á Mið-Austurlandi. Slysatíðni á hverja milljón ekna kílómerta var hins vegar hæst á norðausturhorni landsins, norðanverðu Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Neikvæð fylgni fannst milli fjölda og tíðni slysa. Hættulegustu vegarkaflar landsins með tilliti til beggja þátta voru á Mið-Austurlandi, norðanverðum Vestfjörðum, frá Blönduósi til Akureyrar og á norðanverðu Snæfellsnesi.“

Þannig að þótt flest umferðarslysin eigi sér stað í þéttbýlinu, að þá verða hlutfallslega miklu fleiri umferðarslys á hverja ekna km í mesta dreifbýlinu. Algengust reyndust umferðarslysin auðvitað vera í höfuðborginni og næst henni, enda bílaeign lang mest þar. Dánartíðnin í umferðarslysum úti á landi um var hins vegar tífalt hærri en í sjálfri höfuðborginni, eða um 0.7% af öllum slysum samanborið við 0.05%. Ef alvarleg meiðsl eru talin með þeim sem deyja er tíðnin 4.7% af öllum slysum í dreifbýli en 1.8% í höfuðborginni. En á hvaða vegaköflum úti á landi verða flest alvarlegustu slysin?

Í greininni kemur fram sú athyglisverða niðurstaða, að hlutfallslega verða flest alvarlegustu slysin á fáförnum, en nýjum vegaköflum þar sem akstursskilyrðin eru hvað best, en þar sem of hraður akstur kemur væntanlega oft við sögu. Nýjustu og beinustu vegakaflarnir á Suðurlandi og norðanverðu Snæfellsnesi eru dæmi um vegakafla þar sem flest alvarlegustu umferðarslysin verða miðað er við ekna kílómetra. Þar sem keyrt er allt of hratt á góðum vegum, en við séríslenskar aðstæður!

Tæplega eitt prósent tíðni dauðaslysa af öllum skráðum umferðarslysum í dreifbýli er allt of há tala, hvernig sem á hana er litið. Ef fækka ætti slysunum almennt í umferðinni, ætti samt að leggja meiri áherslu á að bæta og fjölga öruggum umferðarmannvirkjum í þéttbýlinu þar sem flest slysin verða en leggja megináherslu á umferðareftirlitið í dreifbýlinu þar sem hlutfallslega flest alvarlegustu umferðarslys verða tengt hraðakstri og reyndar slys almennt miðað við hverja ekna kílómetra. Það væri hægt t.d. með fjölgun umferðamyndavéla og breytingum á hönnun umferðarmannvirkja úti á landi til að halda hraðanum meira niðri. Eins þarf líka að laga einstaka mjög svo hættulega vegakafla víðs vegar um landið eins og önnur nýleg úttekt sýnir og nýlega var í fréttum.

Ekkert kemur samt í veg fyrir það sem mestu máli skiptir, sem er árveknin. Brotin hvít lína svo ekki sé talað um heila getur auðveldlega skilið milli lífs og dauða, ekki síst á hröðum vegum úti á landi. Þegar þyngd bílsins margfaldast með hraðanum sem þú keyrir á og bílnum sem á móti kemur ef árekstur verður. Staðreyndir sem allt of oft liggja fyrir varðandi íslensku þjóðvegina og slysin þar sem umferðareftirliti er oft ábótavant. Grípa þarf til aðgerða til að minnka tap þjóðfélgagsins sem mest vegna hundruða glataðra mannslífa og þúsunda örkumlaðra vegfarenda auk áþjánar tugþúsunda vina og fjölskyldumeðlima fórnalamba umferðarslysa hér á landi. Fyrst eftir að við minnkum aðeins hraðann, getum við farið að tala um betri og öruggari umferðarmannvirki sem vísar okkur veginn, hvar sem við búum á landinu.

Úttekt á hættulegustu vegum landsins, Ísland í dag. 19.1.2012

fyrri umfjöllun:

Þungaflutningar og ofsaakstur á vegum landsins

Umferðarhraðinn og slysin

Háleitisbrautin

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn