Þriðjudagur 14.02.2012 - 11:56 - FB ummæli ()

Hvað eru ungar stúlkur að hugsa í dag?

Brjóstapúðamálið svokallaða frá áramótum  sem að mestu er bundið við PIP púðana illræmdu, hefur einkennst af undanbrögðum hverskonar frá sannleika og alvarleika málsins og að vissu leiti máttlausum vörnum heilbrigðisyfirvalda, hérlendis og erlendis á öllu ábyrgðaleysinu um áraraðir. Sem nú birtist í mikilli reiði og heift í garð lækna í opinberri umræðu. Reynt var að láta líta út eins og að lekatíðnin væri ekki svo mikil og í stað þess að líta á heildarlekatíðni yfir nokkur ár (sem reynist allt að 80%) og þekktar síðkomnar afleiðingar, að þá var nær eingöngu litið á lekatíðni á púðunum á hverju einstöku ári sem auðvitað er miklu lægri tala enda bera konunrar púðana jafnvel í áratugi. Léleg stærðfræði það eða undanbrögð. Síðar hefur svo komið í ljós að ýmsar aðrar gerðir eru lítið betri en PIP púðarnir, leka oft og jafnvel líka fylltir iðnaðarsílikoni. Allt meðferðir og aukaverkanir sem yrðu aldrei nokkurn tíman liðið ef um lyfjameðferðir væru að ræða innan læknisfræðinnar.

Íslenskar ungar konur hafa greinilega farið miklar offarir í að fá brjóstapúða undir húð og vöðva, ekki síst ef miðað er við uppgefnar tíðnitölur hjá nágranaþjóðunum. Jafnvel þótt aðeins sé miðað við áætlaðar tölur, er vandinn margfalt meiri hér á landi. En upplýsingum um aðgerðirnar er ennþá haldið leyndum meðal íslenskra lýtalækna vegna trúnaðarskyldu við konurnar og málið nú á borði Persónuverndar. Ef málið sneri ekki að lýðheilsuvanda þúsunda óupplýstra kvenna væri kannski ekki svo mikið um málið að segja, enda völdu konurnar þetta sjálfar, eða hvað?

Hjá allt að 5% ungra kvenna í dag á Íslandi og sem nú eru sumar farnar að eldast aðeins og ef verstu spár um fjöldann reynast sannar. Þar sem illa var staðið  að upplýsingum um áhættur sem fylgdu aðgerðunum, ekki síst til lengri tíma litið og myndir af gömlum púðum sýna svo vel í dag. Hver einasti púði er líka aðskotahlutur í líkamanum, hvað þá tveir, sem vega um 1% af líkamsþyngd kvennanna. Sem sannað er að stóreykur líkur á lífshættulegum sýkingum. Að við, ekki síst heilbrigðisstarfsfólk skulum ekki hafa staðið okkur betur í upplýstri umræðu er auðvitað hneyksli. Og að þörfin hafi ekki verið betur metin í hverju einstöku tilviki í lífi allra þessara kvenna. Jafnvel þótt Landlæknisembættið hafi fyrir sitt leiti gefið út upplýsingabækkling um brjóstastækkanir 2002. Ekki er þó síst minni þörf á umræðu nú þegar vitað er að iðnaðarsílikon og annað sílikon flæðir um vessakerfi kvenna á Íslandi, stíflar kirtla og eitla og límist eins og tyggjóklessur milli vöðva og í og á ýmsum lífærum. Þar sem enginn veit hve alvarleg langtímaáhrifin verða þegar upp er staðið, en allir getað ímyndað sér svo vel.

En hver er þá staðan í dag? Hvað ráðleggjum við ungum konum með falleg en ef til vill ekki stór brjóst? Hver er ábyrgð fjölmiðla sem kynna brjóstastækkanir fyrir stúlkum og ungum konum eins og sjálfsagðan hlut og Stöð 2 gerði í Íslandi í dag fyrir aðeins tveimur árum síðan? Þar sem hvatt var til aðgerða hjá ungum konum strax eftir fyrsta barn og þegar útlit brjóstanna hafði tekið náttúrulegum breytingum eftir brjóstagjöf. Þar sem sjálfsímynd íslenskra kvenna var frekar rifin niður en styrkt og að konur þyrftu að líta eins út eins og fegurðardísir á 18 ári, allt öðruvísi en skaparinn ætlaðist til.

Hver er upplýsingaskylda heilbrigðisyfirvalda nú og að tekið sé á heildarvandanum sem blasir við  meðan vitleysan heldur áfram? Siðferðisþróunar í þjóðfélaginu sem smá saman leiðir til verri heilsu og verri sjálfsímyndar kvenna og okkar allra þegar upp er staðið. Nú þegar sannleikurinn og raunveruleikinn blasir ískaldur við, eins og hann gerir nú í brjóstapúðamálinu öllu á Íslandi. Samfélagslegt heilbrigðisvandamál sem mun kosta milljarða að lækna auk þess sem íslensku konurnar verða aldrei þær sömu aftur. Þó ekki síst hvernig við ætlum að standa vörð um heilsu ungra stúlkna í dag og sem nú fylgjast með umræðunni með stórum augum, en af veikum mætti. Sem jafnvel aðeins trúa því að til séu betri púðar en PIP púðarnir, eins og t.d. Gúmíbjarnapúðarnir eða bandarískir púðar sem aðeins leka í um 1.6% tilfella á 6 árum og lesa mátti í mogganum í morgun (hver sem vill trúa því). En hver ætlar að tala við stúlkurnar og hvar og hvenær eiga þær að fá að heyra allan sannleikann um talnaleikinn ljóta sem að baki býr?

Viðtal, Í bítið á Bylgunni, 20.2.2012

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn