Föstudagur 06.04.2012 - 12:49 - FB ummæli ()

Föstudagurinn, allt of langi

prag clock deathFáir dagar eru jafn lengi að líða og föstudagurinn langi. Þó sérstaklega þegar maður var mikið yngri, fyrir tæpri hálfri öld og allt skemmtanahald var bannað á þessum degi. En maður komst ekki hjá að hlusta á angurværa tónlistina og messurnar í Ríkisútvarpinu. Jafnvel sjónvarpsdagskráin, þegar hún loks byrjaði, var döpur og langdregin. Dagur sem minnti rækilega á að lífið væri ekki án synda, og það tæki enda. Ef til vill hefði verið betra að fleiri hefðu lagt við hlustir á upplestri Passíusálma Hallgríms Péturssonar, þá og síðar. Um syndaaflausnarinnar og áminningu um hófsemi og jafnvel meinlæti sem Íslendingar hafa orðið að tileinka sér gegnum aldirnar. Þegar jafnvel fátæktin og sjúkdómar gátu auðgað andann, en stytt lífið. Sem líður allt of fljótt flesta aðra daga en föstudaginn langa. En líka áminning að geta byrjað upp á nýtt. En það fór sem fór, á gamla Íslandi. Og enn í dag skemmum við jafnvel heilsuna og flóruna okkar sjálfra með allskonar óþarfa íhlutunum. Til að stytta stundirnar sem okkur finnst oft, allt of langar.

Síðustu þrjú ár hefur þessi dagur átt enn ákveðnari skýrskotun í mínum huga. Til afar dapurlegs tíma í Íslandssögunni sem ég, ásamt flestum Íslendingum átti þátt í að skapa. Þegar sjálfur forsætisráðherrann sá ástæðu til að biðja Guð að blessa Ísland á myrkum en miðjum vinnudegi, í beinni útsendingu í Ríkisútvarpinu haustið 2008. Þegar brjóststrengir höfðu slitnað innra með þjóðinni og sem hefur lifað í sorg og eftirsjá síðan eftir gömlu „góðu“ dögunum. Dagur sem á vissan hátt boðaði endalok á vegferð nýfrjálshyggjunnar undanfarna áratugi, en um leið allt aðra og nýja vegferð. Þessi dagur var í vissum skilningi eins og föstudagurinn langi í sinni lengstu mynd.

Sorgin síðar birtist síðan í svo mörgu öðru en bara upplausn heimila og félagslegu óöryggi, og flestum þykir nóg um. Líka ábyrgðarleysi gagnvart okkar eigin líkamlegu heilsu um árabil og sem enn brýtur á. Þar sem fyrir liggur engin rannsóknarskýrsla Alþingis. Skaða í mannheimum af okkar eigin völdum og í engum takt við bágan efnahag nú, eins og fréttir frá vinum okkar Grikkjum sem líka máttu muna sinn fífil fegurri í sögunni segja til um. Meðal annars þúsunda íslenskra kvenna, sem telja sjálfsagt að fá sílikon í brjóstin fyrir stórar upphæðir, sem síðan lekur með tímanum um líkama þeirra. Sem jafnvel hefur skapað mörg nýyrði í íslenskri tungu. Svo sem „snjókomu í holhönd“ og „sílikoneitlar“ og ég lærði aldrei neitt um í læknisfræðinni. En sem flestir geta rétt ímyndað sér hvað þýðir í raun. Á sama tíma og við erum líka á góðri leið með að eyðileggja sýklalflóruna okkar með ofnotkun lyfja og vitlausum áherslum í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar sem mér hefur svo oft áður verið tíðrætt um, en þar hljómgrunnin hefur oft vantað.

Í Prag er fræg klukka, Prague astronomical clock, sem smíðuð var í upphafi 15 aldar og sem gengur enn. Stórmerkilegt tækniundur á sínum tíma og er í raun enn. Auk þess að sýna sól- og tunglstöður, ár, mánuði og daga, var hún hönnuð til að minna alþýðuna á örlög sín og mismunandi lífsskeið. Lífsklukkuna í stærra samhengi. Þegar drepsóttir voru algengar og enginn vissi hver yrði næsta fórnarlambið. Kirkjan hafði vit á að minna menn reglulega á þessar staðareyndir lífsins, ekki síst yngra fólkið. Að hvenær sem er gætu menn og konur orðið að standa skil á gerðum sínum, frammi fyrir hinum æðsta dómstól. Klukkan fræga minnti á þessa staðreynd m.a. með ímynd dauðans í líkneski beinagrindar sem gekk fram á klukkustundar fresti og sem sést í á myndinni hér að ofan. Sem sló í klukkuna á heila tímanum og allir nærstaddir hugsuðu sitt. Enda klukkan alltaf rétt.

Ég hef stundum velt fyrir mér hvort svipuð klukka væri ekki hentug fyrir okkur Íslendinga. Til dæmis í stað gömlu klukkunnar á dómkirkjuturninum við Austurvöll sem greinilega hefur ekki verið nógu sýnileg hingað til. Kannski á sjálft Alþingishúsið hinum megin við götuna svo fleiri sjái vel á hana, og til að þeir sem þar vinna, taki mark á henni, enda verði hún alltaf rétt stillt. Til að við einfaldlega göngum meira í takt við okkar eigin lífsklukku, allt þar til hún stoppar. Dagurinn í dag er líka áminning um að á morgun kemur nýr og vonandi góður dagur, bjartur og fagur. Gleðilega páska

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn