Eins og kemur fram í DV í dag, greindi Bloomberg fréttaveitan frá því í vikunni að Monster drykkurinn sé talinn hafa átt þátt í dauða fimm einstaklinga á árinu 2009 í Bandaríkjunum en sama ár fengu rúmlega þrettán þúsund einstaklingar læknishjálp þar í landi eftir að hafa neytt orkudrykkja. Um helmingur þeirra voru einstaklingar á aldrinum 18-25 ára. Eins kemur fram að foreldrar 14 ára gamallar stúlku sem lést úr hjartsláttatruflunum eftir neyslu tveggja Monsterdrykkja huga nú á málaferli við framleiðandann.
Á sama tíma og um 10% þjóðarinnar er talinn líða fyrir ofvirkni hefur sala á ofur- og orkudrykkjum aldrei verið meiri hér á landi. Drykkir sem eru hlaðnir þrúgusykri og örvandi efnum. Litlir drykkir sem samt innihalda orku á við 30 sykurmola og coffeinmagni sem eru jafnvel meiri en hjörtu fullorðinna þola. Og oft ekki bara einn drykk heldur jafnvel 2-4 yfir daginn. Sem innihalda þá jafnvel alla þörf hitaeininga þann daginn. Skyldi engan undra að sumir séu örir, fitni um hóf fram og eigi síðan erfitt með svefn. Jafnvel ung börn sem kaupa þessa drykki eins og hver önnur drykkjaföng en þjást síðan jafnvel af hörgulsjúkdómum vegna næringarleysis á því nauðsynlegasta og ónógri hreyfingu. Til viðbótar lífhættulegum aukaverkunum drykkjanna þegar þeirra er neytt ótæpilega og sem seldir eru m.a. í mörgum íþróttahúsum landsins, er síst af öllu þörf á þessum orkudrykkjum ofan á neyslu annarra sykurdrykkja og sem mikið hefur verið til umræðu út frá almennum manneldissjónarmiðum.
Rannsókn sem birtist í fyrra í vísindatímaritinu Injury Prevention sýnir að neysla svokallaðra orkudrykkja eykur á ofbeldishneigð ekkert síður en áfengi. Rannsóknin var gerð í Boston árið 2008 og leitað var upplýsinga frá 2725 menntaskólanemum. Svarhlutfallið var 69% . Um 30% höfðu neytt að minnsta kosti 5 skammta (dósa) sl. viku. Þegar leiðrétt hafði verið fyrir öðrum þáttum sem áhrif voru taldir geta geta haft á hegðun, sýndi neysla orkudrykkja (5 dósir eða meira í viku) fram á 9-15% auknar líkur á ofbeldistilvikum. Ýmsar aðrar athyglisverðar niðurstöður fengust úr rannsókninni. Þeir sem neyta oft orkudrykkja eru líklegri til að hafa sleppt kvöldverði með fjölskyldunni og þeir eru líka líklegri að neyta áfengis og tóbaks. Eins að sofa minna en 6 klukkustundir á sólarhring.
Vitað er að svefn-, kvíða- og verkjalyf orsaka margfalt fleiri umferðaslys en áfengi í Bretlandi og Bandaríkjunum. En hvað með með orkudrykkina og þeirra þátt þeirra í umferðarslysunum og þegar oft bráðræðislegar ákvarðanir eru teknar? Þeirri spurningu svaraði því miður ekki ofangreind rannsókn. Það kann heldur ekki góðri lukku að stýra þegar orkudrykkja er neytt með áfengi eins og við vitum að gerist oft síðla nætur um helgar og viðkomandi er farinn að þreytast. Sem vilja hressa sig við til að geta haldið gleðskapnum áfram, fram undir morgun. Grunur sem vaknar síðan um vegna ástands margra sem þurfa að leita eftir hjálp á Slysa- og bráðamóttökunni m.a.
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/11/03/svefnleysi-og-offita-thjodarinnar/
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/11/22/neysla-orkudrykkja-getur-aukid-ofbeldi/