Mikið hefur verið fjallað um söluhöft munntóbaks í Evrópu sl. daga, m.a. í fjölmiðlum hér á landi, en minna um sölu á íslenska fínkornótta neftóbakinu hér á landi. „Íslenska ruddanum“ eins og hann er oft kallaður, enda oftast notaður sem munntóbak nú orðið.
Munntóbakið snus er hins vegar framleitt undir ströngu gæðaeftirliti í stöðluðum neytendapakningum í Svíþjóð og sem inniheldur minnst af hættulegustu efnunum sem finnast í tóbaksreyk. Snus er þannig talið vera allt að 90% skaðminna fyrir hina líkamlega heilsu en tóbaksreykurinn. Sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa því leyft framleiðslu og sölu á snusi og sóttst eftir leyfi fyrir útflutningi á því til annarra EB landa með þeim rökum að snusnotkunin dragi a.m.k. úr hættulegri tóbaksreykingum og reynsla er af í Svíþjóð. Öll fíkn er hins vegar varasöm og margir telja munntóbakið mun meira ávanabindandi og valda meiri fíkn hjá ungu fólki en tóbaksreykingarnar og því hugsanlega varasamara til lengri tíma litið.
Hreinunnið munntóbak eins og snusið, er þó hvað sem öllu öðru líður, mikið „hreinni“ tóbaksvara en íslenska neftóbakið og sem mest er notað orðið sem munntóbak í vör hjá ungu fólki hér á landi. Íslensk tóbaksvara sem er mun líklegri að geta valdið sárum og jafnvel krabbameini í munni en sænska snusið eða munntóbak yfir höfuð sem er með miklu færri hugsanlegum hættulegum aukaefnum. Það er þannig ekki allt sem sýnist í þessum efnum þótt æ fleiri lönd banni innflutning á munntóbaki (snusi) en leyfa áfram innflutning á reyktóbaki. Íslenska neftóbakið, „mesti ruddinn“, virðist hins vegar þó hvergi vera til umræðu að leyfa sölu á, nema hér á landi.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), seldi rúm 30 tonn af neftóbaki í fyrra og hefur salan hér á landi þrefaldast á aðeins 10 árum, á sama tíma og dregið hefur aðeins lítillega úr sölu á tóbaki til reykinga. Uggvænlegri eru þó upplýsingar um að um tuttugu prósent ungra karla, 16 -23 ára, neyti neftóbaks í munn reglulega. Bara á síðasta ári hefur salan á neftóbakinu aukist um tæplega fjórðung og fréttir berast af jafnvel af íþróttafólki sem neyta „neftóbaks“ í munn á íþróttakappleikjum.
Meginregla íslenskra tóbaksvarnarlaga er að banna innflutning og sölu á nef- og munntóbaki, en neftóbak hefur engu að síður verið framleitt á Íslandi lengi á undanþágu. Sama var að segja með íslenska „neftóbakið“ Lundann sem er innflutt grófkorna neftóbak framleitt í Danmörku sem neftóbak en sem var markaðsett hér á landi til notkunar sem munntóbak fyrst og fremst. ÁTVR ákvað í sumar að hætta innflutningi á Lundanum og taka ekki inn neinar nýjar tegundir á nef- og munntóbaki til sölu meðan úr því væri skorið hvort selja mætti Lundann áfram sem munntóbak. Óskað var eftir afstöðu velferðarráðuneytsisins til málsins og endurmati á reglum um sölu á munn nef- og munntóbaki yfirhöfuð. Í frétt á heimasíðu ÁTVR segir að verði lagaumhverfið óbreytt blasi við að neftóbakstegundum og þar með munntóbakstegundum muni fjölga talsvert á næstunni. Það mun hinsvegar skjóta skökku við ef banna á áfram munntóbak en leyfa innflutning og framleiðslu á íslenska ruddanum, „íslenska munntóbakinu“.
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/07/21/er-haegt-ad-rettlaeta-solu-a-munntobaki/
http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=2012710249939
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/bannad-verdur-ad-selja-munntobak-i-danmorku