Sunnudagur 25.11.2012 - 13:30 - FB ummæli ()

Íhlutun og íhlutir (seinni hluti) – persónuvernd og íslensku brjóstabobbingarnir,

Önnur umræða og miklu alvarlegri um íhlutina en greint var frá í síðasta pistli, fór af stað erlendis í lok síðasta árs, en minna hér heima. Umræðan um PIP (Poly Implant Protheses) sílikon gervibrjóstin  og sem síðan opinberaði miklu stærra vandamál um tíðni leka og hugsanlegra afleiðinga ísetninga gervibrjósta almennt. Til dæmis að í stað 1-3% leka á sílikongeli úr skelinni á 10 árum, reynast flestar tegundir gervibrjósta leka gelinu í yfir 20% tilfella á innan við 10 árum. Hvað verður síðan um þann hluta gelsins og sem ekki sést í brjóstvef, milli rifja eða í eitlum í holhönd ásamt stóru innihaldi af skelinni sjálfri, virðist mörgum hulin ráðgáta enn í dag.

Aðrir vita sem er, að efnin eru farin á flakk um allan líkamann með ófyrirsjáanlegum afleiðingum til lengri tíma litið. PIP gervibrjóstin voru síðan bara miklu verri en önnur sílikonbrjóst þegar upp var staðið, enda láku þau og tærðust upp í allt að 80% tilvika á innan við 10 árum. Auk þess fölsuð og glæpsamleg vara, sem lengi vel var ójljóst hvað innihélt, nema vitað var að innihaldið var iðnaðarsílikon sem ætlað var til húsgagnaframleiðslu en ekki í menn. Allskonar önnur efni og olíur fundust síðan í PIP sílikoninu og sem gerði það lekara en sem er í öðrum sambærilegum bobbingum.

Hvað varðar Íslendinga sérstaklega var myndin skuggaleg. Vandinn var hlutfallslega miklu meiri en flestar aðrar þjóðir áttu við að glíma, ekki síst meðal frændþjóða okkar. Hærri tíðni á notkun bobbinga, ekki á veiðafæri, heldur í brjóst kvenna á köldu landi og sem er nær þeirri tölu þar sem blóðhiti þeirra er hvað hæstur í heiminum. Nánar tiltekið í Braselíu með kjöthátíðarnar sínar margfrægu.

Eftir áramót kom m.a. í ljós að yfir 40.000 konur höfðu fengið PIP sílíkonbrjóst í Bretlandi og þótti mörgum nóg um. PIP brjóstin töldust vera um helmingur af öllum gervibrjóstum sem sem ungar konur höfðu fengið þar í landi. Á Íslandi reyndust konurnar hins vegar vera yfir 500 sem fengið höðu PIP brjóst, en sem töldust samt „aðeins“ vera um 10% af öllum konum sem fengið höfðu sílíkonbrjóst á undanförnum árum. Samkvæmt þessum tölum er fjöldinn 10 sinnum meiri hér á landi miðað við íbúafjölda. Eins samkvæmt tölum um að 1000 slíkar ísetningaraðgerðir séu gerðar hjá lýtalæknum á ári, sl. ár. Þannig má ætla að hátt í 10% kvenna í ákveðnum aldurshópum hafi fengið sílikonbrjóst af mismunandi gerðum, en oft lélegum gæðum. Heildarfjöldinn getur þannig hæglega verið milli 5.000 – 10.000 konur.

Í ljósi umræðunnar sem spratt af PIP málinu erlendis undir vorið og miklu hærri tíðni á leka úr öllum sílikonbrjóstum en áður var vitað um, hafði fjöldi kvenna af þeim þúsundum sem báru slíkar fyllingar í brjósti samband við Krabbameinsfélagið vegna áhyggja af heilsuskaða sem þær jafnvel þegar höfðu orðið fyrir. Þær óskuðu sem fyrst eftir ómskoðun af brjóstunum til að útiloka lekann, en sem þó sjaldnast er hægt að útiloka með þeirri rannsókn einni saman. Þar sem heldur enginn getur séð tæringuna í sjálfri skelinni og þaðan af síður séð eða heyrt grátinn í brjóstum kvennanna frá púðunum (byrjandi smit). Eins vildu þær útiloka það versta, þegar óvænt fyrirferð eða bólga fannst í brjósti eða holhönd af völdum sílikonsins. Óskir sem félagið gat síðan engan veginn orðið við vegna mikill anna og of lítilla vísindalegra tengsla við áhættu á brjóstakrabbmeinsbreytingum. Ógn sem allar konurnar hræddust þó mest. Krabbameinsfélagið óskað því eftir í framhaldinu að Landlæknir léti gera frumsamdar verklagsreglur fyrir heilsugæsluna sérstaklega hvernig eftirliti skyldi háttað með sílikonbrjóstum, enda virtust lýtalæknarnir sem settu púðana í, engan veginn ráða við vandann. Nýtt lýðheilsuvandamál á Íslandi sem enginn kannaðist við að væri til, fyrr en dundi allt í einu á, í heilsugæslunni eftir áramótin.

…..“Ef tryggja á að allar konur með sílikonpúða hafi jafnan rétt til greiningar á mögulegum leka er brýnt að Landlæknir gefi út nánari tilmæli til lýtalækna og heimilislækna varðandi eftirlit með konum sem hafa fengið brjóstapúða með hefðbundnu sílikoni. Tekið skal fram að slíkt eftirlit er utan við verksvið starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins“  ( Kristján Sigurðsson, yfirlæknir LK ).

Í ljós kom hins vegar að í mörgum tilvikum var löngu vitað um leka úr sílikonbrjóstum við fyrri röntgenrannsóknir af brjóstum á Leitarstöðinni og þótt næmi á sílkonleka við slíkar rannsóknir sé vel innan við 50%. Konurnar voru bara ekki látnar vita af honum þar sem hann var ekki talinn hættulegur. En hvar átti síðan að leita að sílikoninu sem ekki fannst lengur laust í brjóstunum sjálfum eða eitlunum í hölhönd, var mönnum hulin ráðgáta, ekki síst þegar konur fóru að koma sem vildu vita um afdrif sílíkonsins og efnanna í líkamanum. Nokkrar  konur  komu enda fram og lýstu miklum skaða á líffærunum sínum og heilsu. Skemmdum eitlum og hættulegum sýkingum, úrátum í rifjabeinum sem ollu stöðugum verkjum. Jafnvel sílikonklessur í brjóstholi sem náðu alla leið inn að hjartanu. Óskýrð þreyta og einskonar tæring í mörg ár.  Aðskotahlutir á víð og dreif sem vógu í allt nokkur prósent af heildarlíkamsþyngdinni. Spurningar sem gjarnan voru spurðar í heilsugæslunni og þegar konurnar komu og óskuðu eftir blóðprufum og jafnvel „total body scanning“. 

Hver ber síðan ábyrgðina? Bandarísk heilbrigðisyfirvöld vöruðu við slatvatnspúðunum frá PIP  þegar árið 1994 og bönnuðu þá síðan í framhaldinu. Eftir að hafa kynnt sér PIP sílikonpúðana árið 2000 var algjört bann sett á innflutning og notkun þeirra í Bandaríkjunum. Á sama tíma og ýmsir aðrir gelpúðar voru leyfðir og sem nutu þá vaxandi vinsælda. PIP sílíkonpúðarnir voru hins vegar á sama tíma fluttir inn til Íslands og notaðir reyndar víða í Evrópu allt til ársins 2010. Þegar á fyrsta ártugi þessarar aldar mátti hins vegar ætla að PIP púðarnir stæðust ekki eðlilegar heilbrigðiskröfur vegna fjölda mála sem upp kom með notkun þeirra, aðallega leka og sýkingahættu. Í mars árið 2010 var loks ljóst að um glæpsamlega og falsaða vöru var að ræða og þá loks komst málið í hámæli víða um heim, en síður hér heima. Konurnar sem báru PIP púðana hérlendis voru enda ekki látnar vita, en ákveðið að sjá og fylgjast með endingu þeirra í þeim úr fjarlægð eins og í óupplýstri lyfjatilraun. Vandinn var einfaldlega okkur ofvaxinn til að takast á við. Niðurstöður „tilraunarinnar“ og sannleikurinn um gæði PIP púðanna var síðan verri en nokkurn grunaði. Þegar Landlæknir ætlaði loks að leita eftir nánari upplýsingum um þessi mál til að gera sér betur grein fyrir umfangi vandans með skýrslum frá lýtalæknunum, gerðist hið óvænta. Persónuvernd hafnaði þessarri málaleitan á grundvelli laga um persónufresi og að um trúnaðarupplýsingar væri að ræða sem honum kæmi ekki við. Þótt gelið og innihald slíkionbrjóstana færi á flakk um líkama kvennanna, stefndi það ekki lífi og heilsu þeirra í nógu mikla hættu til að upplýsingar til hans væru réttmætar. Sjaldan hefur maður heyrt nokkuð eins fjarstæðukennt og sem er í raun makalaust álit frá opinberri stofnun sem á að vera vakandi fyrir hagsmunum einstaklingsins, ekkert síður en samfélagsins. Í máli þar sem lögfræðin og læknisfræðin fara greinilega illa saman.

Fáir efast hins vegar í dag um alvarleika PIP málsins svokallaða, ísetningu gallaðra og jafnvel eitraðara íhluta í brjóstin hjá rúmlega 500 íslenskum konum á besta aldri. Í sakamáli aldarinnar sem tilheyrir læknisfræðinni á heimsvísu og upplýsti í raun svo miklu stærra vandamál sem hafði verið falið lengi. Ekki síst hér á landi þar sem vandinn var hlutfallslega miklu meiri. Jafnvel þótt flest fórnarlömbin vilji nú fara huldu höfði, enda konurnar margar komnar í blindgötur og engin góð úrlausn í boði en að fá sér ný sílikonbrjóst. Þar sem erfitt er að taka það sem áður hafði verið gefið. Sönnunargögnum hins vegar jafnóðum eytt og þeirra er aflað úr konunum. Málefni sem jafnvel fjölmiðlarnir eru feimnir að ræða.

Afar brýnt er auðvitað að kallað sé eftir nákvæmum upplýsingum um all málið sem allra fyrst til að kortleggja vandann sem heilbrigðiskerfið þarf óhjálkvæmilega að takast á við á næstu árum. Á hvaða aldri í lífi kvenna þær fá fyrstu púðana, fjölda ára frá aðgerð, barneignir og brjóstagjafir með sílikonpúðana í brjóstum, hvernig eftirliti með sílikonbrjóstum hefur verið háttað hingað til og hvernig eftirlitið er ráðgert í framtíðinni. Ekki síst til að ungar konur geti áttað sig á áhættunni sem þær taka þegar þær ákveða að fá sílikonbobbinga í fyrsta sinn og ekki verður aftur snúið. Með upplýstri ákvörðun, enda gömlu ráðleggingarnar Landlæknis löngu úreldar.

Á sama hátt og við viljum taka á öðrum lýðheilusvandamálum í dag og sem hafa verið skilgreind sem slík, eins og t.d. tóbaksreykingum sem sannarlega skaða heilsuna, verðum við að takast á við brjóstapúðamálið allt eins og það leggur sig. Hvað sem Persónuvernd kann að finnast um vandann. Jafnvel með nýrri löggjöf svo eftirlit með umfanginu verði að minnsta kosti mögulegt. Síðar til að hægt sé að kortleggja heilsuskaðann betur. Til að ákvarðanir verði byggðar á bestu þekkingu og eðlilegu siðferðislegu mati og normi. Svokölluðu upplýstu samþykki kvennanna sjálfra.

Byggt á fyrirlestri á Fræðadögum heilsugæslunnar 16.nóv. sl.

Viðtal, Í bítið 28.11.2012

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/11/21/ihlutun-og-ihlutir-fyrri-hluti/

http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP9477

http://bleikt.pressan.is/lesa/krabbamein-og-silikon-er-erfidara-ad-leita-ad-hnutum-i-silikonbrjostum/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn