Miðvikudagur 21.11.2012 - 19:48 - FB ummæli ()

Íhlutun og íhlutir (fyrri hluti)

Svo virðist sem sterk tengsl séu á milli félagslegs þrýstings, kynímyndarinnar, tísku og jafnvel klámvæðingu nútímans. Eins hvernig yngri kynslóðirnar vilja oft marka sína sérstöðu á ystu nöf, hvað sem um almenna skynsemi og hollustu má segja og við hin látum óátalið. Líka hlutir sem við tökum upp frá frumbyggjum í fjarlægum heimsálfum af hentisemi, en sem tengjast jafnvel ævafornri menningu og trú þeirra sem í raun eiga. Hefðir sem við virðumst getað afbakað og túlkað að vild.

Á síðastliðnu ári hefur líka margt opinberast um okkar innri mann, hégóma og veikleika, til sálar og líkama. Margt er þar óljóst milli læknisfræðinnar og útlitsdýrkunar, atvinnuskapandi iðnaðar, tísku og heilbrigðis. Þetta á ekki síst við um afleiðingar ýmissa inngripa á sjálfum mannslíkamanum með beinni íhlutun. Lýtaaðgerðum til ímyndaðrar fegrunar með íhlutum (implants), húðfúri (tattoo) og hringjaskrauti (piercings) hverskonar, undir húð og á, á kynfæri og í munn og tungu.

Hvað má þetta kosta og hver má fórnarkostnaðurinn vera í heilsu sem þegar virðist vera orðinn að sjálfsköpuðu lýðheilsuvandamáli og sjálfshverfingshætti sem engan endir ætlar að taka fyrir þá sem ánetjast? Hvar eru síðan mörk læknisfræðinnar og einhvers alls annars sem hefur ekkert með líkn eða lækningu að gera? Aðgerðir semm kenndar eru engu að síður við fræðagreinina, en tengist fyrst og fremst gróða fárra og markaðshyggju? Hver er síðan ábyrgð fjölmiðla sem markaðsetja svokallaða „lýtalækningar“ í auglýsingaskini með svokölluðum raunveruleikaþáttum? Hver er t.d. ábyrgð fjölmiðla hér á landi sem beinlínis auglýstu nauðsyn aðgerða á brjóstum ungra kvenna fyrir alþjóð eftir fyrsta barn, svo þær mættu alltaf líta út sem 18 ára, en ekki eins og skaparinn ætlaðist til? Ekki einu sinni, heldur í framhaldsþáttaformi á fréttatengdu efni í þætti sem heitir „Ísland í dag“. Þegar síðan var jafnvel gengið á eftir ungum konum með símhringinum og tilboðum, en þar sem kostnaðurinn getur oltið á milljónum þegar upp er staðið frá skurðaborðinu og hlutirnir eru jafnvel farnir að leka út um allt.

Alltaf hefur verið vitað að íhlutir og aðskotahlutir ýmiskonar í líkamann geta verið hættulegir og borðið með sér mikla sýkingahættu. Þetta var meðal annars með því fyrsta sem ég lærði í læknisfræðinni á sínum tíma. Ekkert síður á þetta við um lækningavörur eins og gervibrjóstin sem stór hluti íslenskra kvenna bera undir húð og sem mörg dæmi er um að geti tengst lífhættulegum sýkingum og eyðileggingu á aðliggjandi vef. Lækningavara og aðferðir sem upphaflega þróuðust vegna neyð sjúklingsings, meðfæddra líkamsgalla eða afleiðinga sjúkdóma sem hægt væri að laga að einhverju marki. Húðsýkingarnar eru þó miklu algengari og sem tengjast minni inngripum í húð eða slímhúð eingöngu, eyrnahringjum og allskonar lokkum og skrauti. Ekkert síður og stundum frekar í kringum viðkvæmustu líkamspartana.

Lokkana er jafnvel farið að setja í eyru stúlkubarna hér á landi strax á fyrst og öðru aldursári. Mörg dæmi eru hins vegar um alvarlegar afleiðingar slíkra smáhluta í húð og brjósk, t.d. eyðilegging á útliti eyrnanna ef blóðvana brjóskið deyr. Afleiðingar aðgerða og íhluta sem gerðar eru í stórum stíl á snyrtistofum út í bæ. En þegar lífshættulegustu blóðsýkingarnar síðan verða, verður að treysta á hátæknislæknisfræðina, bráðadeildir,  sjúkrahúsin og sterkustu sýklalyfin sem völ er á, í æð eða vöðva. Áður samt oft langa sýklalyfjakúra og þegar fyrsta höfnunin verður á aðskotahlutnum. Á tímum vaxandi sýklalyfjaónæmis vegna ofnotkun sýklalyfja og þegar mest ætti að vera um vert að fara vel með það sem við þó enn eigum, virk sýklalyf og næma sýklaflóru. Hvergi annars staðar en á aðskotahlutum geta sýklar blómstrað og sem mynda þá oft svokölluð bú (biofilmur) sem er samfélag baktería sem verður til með tímanum og þegar þær fara að hafa verkaskiptingu eins og maurar í mauraþúfu. Allt þar til þær síðan ráðast til atlögu gegn óvininum, okkur sjálfum, á örlagastundu.

Mikil aukning hefur orðið í að fólk fái sér húðflúr hér á landi á síðustu árum, eins og annars staðar í hinum vestræna heimi. Í Bandaríkjunum hefur aukningin verið mikil á sl. árum (um 7% á sl. 4 árum) og sem nálgast nú að fjórði hver fullorðinn sé kominn með húðfúr. Jafnvel þar sem tugprósent af yfirborði líkamans er flúrað með allskonar litarefnum sem standast ekki neinar heilbrigðiskröfur og sem gerðar eru til lyfja, hjúkrunar- eða lækningavara. En sem við vitum að geta innihaldið ósterilt vatn, sýkla, sveppi, þungmálma og önnur eiturefni, sem sitja mun jafnvel ævilangt í húð og vessum þess sem það ber.

Litirnir sem eru oft notaðir í húðflúr eru enda margir upphaflega framleiddir fyrir blekhylki og sem auðvitað eru ekki ætlaðir mönnum, heldur í blekprentara. Málmefni, blý og kopar sem truflað geta líka myndgæði nauðsynlegra segulómskoðana, ekki síst á höfði og kringum augu. Eins valdið bruna í húð og öðrum óþægindum í þessum rannsóknum. Þá er að lokum ótalin tilvik á allskonar höfunarviðbrögðum líkamans sjálfs, örmyndanir og ofnæmisviðbrögð, jafnvel löngu eftir ísetningu litanna í húðina. Eins við lasermeðferð löngu seinna þegar reyna á að eyða húðflúrinu og leysa upp litina svo þeir hverfi út í blóðið.

Ekki má heldur gleyma hér húðsýkingingum strax eftir flúrið eins og sannaðist eftirminnilega í Reykjavíkurmerki borgarstjórans okkar fyrir nokkrum árum. Nokkuð sem þó er miklu auðveldara að meðhöndla en alvarlegar veirusýkingar og hættulegar bakteríusýkinar sem smitast geta með sjálfum litunum, nálunum eða jafnvel frá tattoo-saumavélunum sjálfum sem ómögulegt getur verið að sótthreinsa svo vel sé. Lifrarbólgur og húðberklasýkingar sem koma fram löngu síðar og sem meira er farið að skrifa um nú síðustu árin.

Algengasta vandamálið nær hins vegar til helmings húðflúrsberanna og þegar og ef skömmin fer að segja til sín og fólk vill láta fjarlægja „listaverkin“. Flóknar aðgerðir með laser og skurðaðgerðum sem reynst geta bæði dýrar og erfiðar.

Byggt á fyrirlestri á Fræðadögum heilsugæslunnar 16.nóv. sl.

http://ruv.is/frett/margir-danir-thjast-vegna-hudflursmistaka

http://www.vancouversun.com/touch/story.html?id=11122918

Viðtal, Í bítið 28.11.2012

(framhald. í næstu færslu og þá nánari umfjöllun um gervibrjóstin, nýjasta lýðheilsuvandamálið okkar)

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn