Fáir dalir eru mér og minni fjölskyldu jafn hjartfólgnir og Skammidalur í Mosfellssveit. Garðyrkjulönd sem Mosfellsbær leigði til skamms tíma nágrönnum sínum í Reykjavík og sem þurftu að fá að komast út í sveit og rækta kartöflurnar sínar. Tengdaforeldrar mínir höfðu þannig fengið skúrland til leigu og flutt þangað kofa fyrir tæpri hálfri öld. Kofi og garður sem konan mín og ég og börnin okkar höfðu síðan mikið gaman af, og amma og afi þeirra ekkert síður. Græðlingarnir sem voru gróðursettir í þá daga, eru nú sumir orðnir að stórum trjám og hluti af garðlandinu sem mynda orðið lítið skógarrjóður.
Malargatan þar sem kofarnir standa við, hefur hins verið óbreytt allan tímann. Hver kofi síðan ótrúlega ólíkur hvor öðrum og útfærðir jafnvel með smá verönd og skjólgirðingum. Þar sem nýtnin hefur alltaf ráðið ríkjum, enda dalurinn seint talinn dalur ríka fólksins og stóreignagreifa. Góðærið kom heldur aldrei í Skammadal. Ekkert rafmagn eða rennandi vatn hvorki heitt né kalt í krönum, enda bara lítil sumarbústaðargata í nágrenni höfuðborgarinnar í sveitinni okkar. Kalda vatnið mátti hins vegar sækja í lækinn ekki skammt frá. Allt gamalt var notað, gjarnan frá öðrum merkilegri húsum og afgangshlutum hverskonar og aflaga innréttingum. Spýtur og gömul tré síðan notað sem eldiviður í kamínurnar, enda einginn kofi nægilega öflugur til að bera arinn. Í besta falli tvö til þrjú rúm og eldhúsborð.
Í morgun fór ég og konan mín í göngutúr frá kofanum okkar og ættaróðali stórfjölskyldunnar á fellin í kring. Gömlu minningarnar helltust yfir, ekki síst þar sem börnin eru nú flest erlendis við nám og vinnu með sín börn. Við gengum fram hjá plóginum gamla sem þar stendur og horfðum yfir gömlu garðlöndin sem sífellt fá minni athygli og umhirðu bæjaryfirvalda. Frost var nýfarin úr foldu og það gekk á með norðaustan éljagangi. Sól á milli og umhverfið skartaði sínu fegursta í snemmvorlitunum. Kosningar síðan um næstu helgi og maður komst því ekki hjá því að spyrja sig spurninganna sem dunið hefur á manni allt frá síðustu kosningum eftir hrunið mikla.
Nýtni á því sem við þó áttum og hvernig staðið er að velferðarmálum hjá ríkisstjórn sem kenndi sig við málaflokkinn. Ráðherrar sem og fyrri kollegar þeirra í öðrum flokkum sem ekki skildu grunnþættina og jarðveginn. Menn og konur sem héldu að ekki þyrfti að plægja jörðina í kotlandinu á vorin og losna við illgersið, heldur vaða í að byggja hallir. Jafnvel þótt þær eigi að standa undir því merkilega heiti, Sameinaður Landspítali Háskólasjúkrahús og sem kostar „aðeins“ um 90 milljarða króna. Með þyrlupalli þar í þokkabót á milli húsanna og þar sem átti að telja manni trú að vaxtakostnaður af lánum borgaðist upp af hagræðingunni að sameina öll húsin á einn stað. Á sama tíma og grunnheilsugæslan, tækja- og lyfjakostnaður almennings sem og bráðaþjónustan hefur verið látin blæða og sem er fyrir löngu komin út fyrir þau öryggismörk sem þjóðin vill. Mikill atgerfisflótti fagfólks til útlanda og niðrif þjónustu sem seint verður byggð upp aftur. M.a. öll starfsemi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði sem þar var og sem nú stendur tómur. Á tímum sem gamla veika fólkið sem býr heima fær ekki dvalarrými við hæfi og er komið á allskonar móttökuvergang.
Því miður er vart hægt að kjósa flokka og stjórnmálamenn sem þannig standa að málum og sem ekki hafa viljað hlusta á grasrótina, nema nú síðustu dagana fyrir kosningar. Þeim er ekki vel trúandi eða treystandi. Gömlu gildin sem við viljum öll standa vörð um, jafnframt markmiðum flestra okkar að tryggja jafna skiptingu arfs af sameiginlegri auðlind okkar allra, eru hins vegar megin stefnumál Lýðræðisvaktarinnar.
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/05/05/nyr-landspitali-eins-og-slaemur-draumur-i-dos/
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/07/10/bradaastand-i-sjalfri-heilbrigdisthjonustunni/