Mánudagur 10.06.2013 - 14:30 - FB ummæli ()

Förum út og vestur

DagverðarnesNú er sumarið vonandi loks komið og tilvalið að rifja upp góða ferðasögu. Lífið er hreyfing- njótum hennar, eru einkunnarorð ferðaþjónustu Út og vestur sem vinir mínir, Jón Jóel og Maggý, reka. Ferðir sem þau bjóða upp á m.a. um Snæfellsnes, í Dölunum, á Fellsströnd og Dagverðarnes. Um einstaka upplifun var að ræða fyrir okkur hjónin þegar við ásamt fleiri vinum fórum með þeim í 4 daga göngu- og hjólaferð fyrir þremur árum. Sú ferð stendur upp úr öðrum ferðum okkar á undanförnum árum af ýmsum ástæðum.

Maður einfaldlega upplifir í smáatriðum ferðina, dag frá degi á hverjum degi. Sama hvar komið er niður, frá fyrsta til síðasta dags, allir svo gjörólíkir og svo sérstakir á sína vísu. Ef sagan væri kvikmynd væri hægt að spila hana aftur á bak. Þetta hljómar auðvitað eins og lygasaga eftir Munchausen. En hvert einasta orð er dagsatt og sagan er skrifuð aðeins í þeim göfuga tilgangi að örva lesandann til dáða, að kynnast landinu sínu og sjálfum sér aðeins betur meðan maður getur. Góð ferð eru alltaf gott veganesti í lífið framundan og miklill orkugjafi. En engin ferð er eins.

Vel heppnuð ferð skapast með góðri leiðsögn um framandi staði og helst í sæmilegu veðri. Með hughrifum og tilfinningum sem náttúran ein getur kallað fram í góðum félagsskap, því enginn er eyland. Hughrif sem síðan endast oft ævilangt, og hægt er að kalla fram aftur og aftur, þegar maður vill og þegar maður þarf á að halda. Með vaxandi aldri og þroska finnur maður hvað hver einstaklingur er lítill í náttúrunni, en samt svo stór. hvað hann getur samsvarað sér vel á réttum stað og á réttri stundu, eins og hann hafi alltaf átt þar heima. Ef til vill þarf lífið að hafa verið aðeins erfitt á köflum til að við getum notið alls skalans. Sár lífsreynsla eða saga rifjast oft upp og endurspeglast í andhverfu sinni, fegurðinni sem ró og tenging við náttúruna ein getur skapað. Þannig fær hún útrás og nýja merkingu eins og í ævintýrunum. Þá sögu er hægt að segja aftur og aftur. Eins og nokkuð er orðið ljóst að þá er ég ekki að rekja ferðasöguna sem slíka heldur leggja áherslu á öll augnblikin í ferðinni því þau voru svo mörg, en um leið einstök. Ferðalýsinguna sem slíka læt ég öðrum eftir eða gæti verið efni í annan pistil síðar.

Að ferðast um söguslóðir er oft eins og að ganga inn í sjálfar Íslendingasögurnar. Ekki var það verra að sögusviðið í Laxdælu var okkur flestum vel kunnugt eins og t.d. í Sælingsdal, þar sem ferðin byrjaði og endaði. Sagan verður þannig smá saman hluti af manni sjálfum. Eins og heimsókn til forfeðra okkar sem við erum ef til vill að heimsækja í fyrsta sinn. Veðurblíðuna er auðvitað ekki hægt að panta en hún eykur óneytanlega á áhrifin. Ekki síst ef veðrið kemur manni sífellt á óvart, en aðallega kissir mann á vangan og strýkur góðlátlega. Og maður upplifði í fyrsta sinn á ævinni að geta hjólað með storminn í fangið í heilan dag eins og ekkert væri, með því að herma eftir oddaflugi gæsanna. Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Að haldast þannig á hjólinu í heilan dag var toppurinn á erfiðleikaskalanum og mjög eðlilegt mótvægi við daganna á undan í rjómalogni og yfir 20 stiga hita. Hvernig ætti veðrið að vera öðruvísi á landinu góða?

Reyndar var hitinn nær 25 gráðum næst síðasta daginn þegar við gengum Dagverðarnesið og að lokum í tæplega 2 tíma í volgum sjónum á leirunum yfir að Fellsströnd. Hópurinn kom þar gangandi eins og sjóenglar af hafi í náttstað eins og ekkert væri eðlilegra. Góður matur, sögur og söngur síðan langt fram á kvöld í alsælu eftir frábæra daga kórónaði að lokum ferðina. Hver dagur hafði gefið manni svo margt. Maður komst ekki hjá því að vera aðeins upprifinn og á pörtum skáldmæltur, svona óvart.

Fyrir er ég sennilega nokkuð hrifnæmur fyrir náttúrunni enda uppalin í sveit á sumrin og vissi vel hvaða náttúran og sveitin geta gefið manni ofan á lífsins reynslu. Reynslu til að geta séð hlutina í aðeins öðru ljósi og birtu. Sagan sjálf eins og þessi er þó aldrei nema hálfsögð og það eru oft bestu sögurnar. Hver ferð er líka einstök á sína vísu sem vonlaust er að endurtaka á sama hátt aftur. Þannig á það líka að vera. Þessari ferð lýstum við ferðafélagarnir hins vegar sem hreinu ævintýri, ferð sem við vissum ekki svo mikið um í byrjun en sem kom manni endalaust á óvart og sprengdi þolmörkin bæði tilfinningalega og líkamlega. Og í kjölfarið fór ég að blogga, aðallega fyrir sjálfan mig en líka til að reyna að koma einhverju til skila til þeirra sem vilja, þótt það sé aðeins brotabrot af því sem ég sagt vildi hafa. Takk fyrir mig!

Endursamið úr eldri færslu, Út og vestur.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn