Á ferð um Evrópu getur maður stundum séð hvað Íslendingar eiga í raun oft lítið erindi í Evrópusambandið. Hvað auðvelt væri að kaffæra okkar sérstöðu með samrunanum, ekki síst með tilliti til viðskipta og ferðamannaiðnaðar. Aðstæður heima fyrir sem skapa yfirburði í sóknartækifærum viðskipta við aðrar þjóðir. Þættir sem tengjast helstu atvinnuvegum okkar til sjós og lands og Íslandi sem ferðamannaparadísar, engri annarri líkri. Óspilltri náttúru í mótun, nógu hreinu vatni og gæðamatvöru sem eru ómengaðar af efnum og lyfjum sem leyfð eru oft án nægjanlegra takmarkana í öðrum Evrópríkjum. Þar sem hvert ríki fer líka oft sínar eigin leiðir. Hrossakjötsmálið og endurteknar matareitrunar- og mengunarmál í matvælum um gjörvalla Evrópu segja best sína sögu. Falsaðar hjúkrunar- og lækningavörur eins og PIP brjóstapúðarnir, sýna best hvað sumir aðilar eru tilbúnir að ganga langt í vörusvikunum, hvítþvegnum jafnt sem á svörtum markaði. Hvað í raun hefur verið auðvelt að fara á bak við upprunann, sannleikann og allt regluverkið.
Nýlega var ég staddur á lítilli eyju og ferðamannaparadís á miðju Miðjarðahafinu, nánar tiltekið á Krít, og sem vissulega bauð upp á góðar stundir fyrir fjölskylduna og gott sumarleyfi fyrir sólarþyrstan landann. Verðlagið var þó hátt, svipað og annars staðar í Evrópu fyrir Íslendinginn. Flugferðin með Ryanair var reyndar óþægileg með viðkomu á herflugvelli þar sem okkur var smalað í stíur og við máttum dúsa í 2 klukkustundir í biðröð fyrir brottförina heim. Ekkert drykkjarvatn síðan til í vélinni. Það sem þó kom mér mest á óvart í ferðinni og stakk mig reyndar í augun, var hvað falsaður verslunarvarningur er algengur til sölu í öllum verslunum. Allskonar merkjavara í fatnaði, raftækjum, tískuvörum og leikföngum. Jafnt í búðinni á horninu og fínustu verslunarmiðstöðvum í miðmænum. Þar sem meirihluti varningsins var þá reyndar á skaplegu verði, en öll gæði vantaði. Sama hvar komið var niður og sem sennilega hefur náð að plata margan saklausan viðskiptavininn. Eins freisting fyrir hina sem vissu betur, en vildu kaupa fölsuð vörumerki til að sýnast efnaðri en þeir voru. Nokkuð sem við svo sem könnumst vel við af öðru tilefni fyrir ekki svo löngu. En er þetta það viðskiptaumhverfi sem við sækjumst eftir í Evrópusamstarfinu nú?
Gæðin fylgja alltaf upprunanum og sem er okkur hér á landi sérstaklega annt um. Um matinn á Krít vissi ég minnst um þótt hann hafi smakkast vel. Íslendingar eru stoltir af sinni matvöru og hljóta alltaf að vilja geta selt sínar afurðir, ekki síst fiskinn sem ófalsaða gæðavöru, en ekki að eiga í stöðugu stíði við eftirlíkingar í samkeppni við aðrar þjóðir. Eins þar sem viðurkenning á óheiðarleika í verslun hlýtur að ala á enn meira svindli og svínaríi. Fyrir um áratug var t.d. svipaður falsaður varningur og nú er seldur í fínu verslununum á Krít, aðeins seldur af hettuklæddum mönnum í húsasundum eða á götuhornum og flestir gátu varist. Oft ansi skuggalegir og stórir menn með sólgeraugu. En nú er tíminn og normið sem sagt allt annað.
Eigum við erindi í bandalag með öðrum Evrópuríkjum sem svífast einskins í að falsa viðskiptavarning og plata viðskiptavini, hvað sem öllu nákvæmu regluverki bandalagsins líður? Hvað verður um litla eyþjóð sem þarf að aðlaga sig að slíkum veruleika? Okkur varð svo sannarlega á í messunni, réttara sagt mest í viðskiptalífinu um árið og sem gerði landið nær gjaldþrota. Svindl og svínarí á efstu hæðum bankanna og þar sem aðrar þjóðir voru plataðar upp úr skónum. En við fengum skellinn að lokum og batnandi þjóð hlýtur að vera best að lifa. Tækifæri til að vera áfram sjálfstæð, og verjast nú öllum nýjum svikum og prettum. Halda í gömlu gildin sem við flest ólumst upp við, fyrir ekki svo löngu síðan. Með heiðarleika og sanngirni að leiðarljósi svo langt sem það nær og verða aftur eftirsótt þjóð til að eiga viðskipti við og heim að sækja. Það getum við a.m.k. vonað þótt peningarnir okkar nú séu af skornum skammti og að við þurfum enn um sinn að taka út þunga refsingu, sem þjóð meðal annarra Evrópuþjóða. Vegna þess að við svindluðum og þóttumst miklu stærri en við vorum.
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2010/07/01/gamli-minn-og-esb/