Miðvikudagur 10.07.2013 - 13:37 - FB ummæli ()

Brenndir Íslendingar

sol

Sólin yfir höfuðborginni séð frá Lágafelli

Á dimmu og vætusömu sumri þegar við fáum ónóga sól á kroppinn og veðurspáin er endlaust „slæm“, er tilvalið að líta nánar á þær björtu hliðar sem snúa að heilbrigði okkar á allt annan hátt. Litabreytingar í húð og ótímabærir bandvefsstrengir endurspegla betur en nokkur „góð“ veðurspá, hvernig við höfum farið með okkur og útsett líkamann fyrir óþarfa álag. Ótímabærar hrukkur sem eru oft eins og misstórir árshringir í trjástofni og lesa má úr heilmikla „heilsufarssögu“ hjá landi og þjóð.

Reykingar hraða öldrun húðarinnar meira en flest annað, sem og óhófleg sólböð og ljósabekkjanotkun, oft á unga aldri. Aðrar íhlutanir með húðina, fegrunaraðgerðir og litun hverskonar, gera það líka en á allt annan og oft tvíræðari hátt. Sannleikurinn nálgast hins vegar að vera meira svartur en hvítur þegar áhættan af því alvarlegasta, sjálfum sortuæxlunum verður berskjaldaður. Góðar forvarnir gegn geislun og árvekni fyrir eigin líkama eru því mikilvægustu þættirnir í baráttu okkar gegn þessum óæskilegum áhrifum eins og svo mörgu öðru og þegar við bara sjáum sólina eða ljósabekkina.

Í grein í Fréttablaðinu fyrir rúmlega ári, Bláu augun þín, varaði Jóhannes Kristinsson, augnlæknir við útfjólubláum geislum sólar á augun. Bláeygðir eru taldir viðkvæmari fyrir geislum sólarinnar en aðrir sem eru með dekkri augu. Ljós kynstofn sem hefur aðlagað sig gegnum árþúsundin á hinni norrænu birtu og sem er oft af skornum skammti. Hinsvegar stundum líka sterk og ólýsanlega falleg, eins og konurnar okkar bera best vott um. Birta sem flestir ljósmyndarar sækjast eftir að njóta og lýsa á allt annan hátt en vísindamennirnir okkar nú sem vara við í of miklu magni, ekki síst á góðum sólardegi.

Það er einnig margt sameiginlegt með húðinni og augunum sem Jóhannes nefndi í annarri grein í Fréttablaðinu, Spegill sálar og líkama. Þar lýsti hann vel hvað sjá má í þróun sjúkdóma í öðrum líffærum en bara augnbotnunum. Hvað væri m.a. að gerast í æðunum okkar almennt. En húðin er líka okkar ytra yfirborð, þar sem oft má sjá má hvað hefur gengið á um ævina. Einkenni margra annarra sjúkdóma en bara húðsjúkdómanna, ef grannt er skoðað.

Hér á landi er mikil ásókn í að vera brúnn, helst allt árið um kring. Til að sýnast útiteknari og heilbrigðari en maður kannski er, hvað sem öllu D vítamíninu líður og við getum fengið á annan hátt. Ungt fólk fylgir síðan tískunni fast eftir í þessum efnum, tengt árangri markaðssetningar fegrunarvara sem litað geta húðina í öllum regnbogans litum, allt eftir aðstæðum og tilefnum hverju sinni. Engu að síður geta snyrtivörur valdið húðmengun, allt eftir því hvaða efni eiga í hlut. Hégómlegri ásýnd myndu sumir segja, en aðrir tímanna tákn um frjálsræðið og þar sem ekkert er talið ómögulegt. Útlitsdýrkun okkar á sér engin takmörk og sem við höfum verið rækilega minnt á, á síðustu árum. Með sílíkonbrjóstunum, tattooinu og öðrum íhlutum, í og á líkamann. Götun, glingri og nælum, sem spillt geta heilsunni varanlega, þótt ekki væri nema vegna sýkingahættu sem sífellt er erfiðara að eiga við og meðhöndla.

Óljós landamerki sortuæxlis (líka á Íslandi)

En snúum okkur aftur að verstu áhrifum útfjólublárra geisla sólar sem virðast nú vera af skornum skammti á höfuðborgarsvæðinu þessa daganna. Sjálfum sortuæxlunum, þessum kolsvörtu húðkrabbameinum sem allir hræðast mest. Algengasta krabbameini mannsins og sem fer oft huldu höfði lengi framan af og sáir sér allt of fljótt um allan líkamann. Undanfarna áratugi hefur nýgengi húðkrabbameina, sérstaklega sortuæxlanna, aukist hratt. „Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands greindust að meðaltali 49 manns á ári með sortuæxli í húð (20 karlar og 29 konur) á árunum 2004-2008, þar af 10 sem létust árlega. Tíðni húðæxla í heild hefur tvöfaldast á síðustu tíu árum og mest er aukningin hjá ungum konum. Sortuæxlum hefur fjölgað mest, en þau eru alvarlegasta tegund húðkrabbameina og algengasta krabbameinið hjá konum á aldrinum 15-34 ára.” Læknablaðið 07/08 2011.

Góðir landsmenn. Ég vona að ég móðgi engan með þessum „óvísindalegum bloggskrifum“ mínum í dag. Það eru þó fyrst og fremst forvarnirnar sem gilda og sem eru tilefni þessara skrifa minna. Brennt barn forðast auk þess venjulega eldinn og á það ekkert síður við um húðheilsuna og margt annað í þjóðfélaginu þessa daganna. Að „þegnar“ landsins noti góða sólarvörn á húðina á „sólríkum dögum“ og að áróðurinn um afleiðingar óskynsamlegrar notkun ljósabekkja verði meiri. Forvarnir sem þegar virðast hafa skilað nokkrum árangri á allra síðustu árum, enda hefur aðeins dregið úr hröðu nýgengi sortuæxla síðustu áratuga. Að við getum nú aðeins litið á bjartari hlið lýðheilsumálanna og sem snýr að útlitinu og æsku landsins.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn