Fimmtudagur 18.07.2013 - 22:16 - FB ummæli ()

Einkarekstur, einkavæðing og einkamálin í heilbrigðiskerfinu

Mikil umræða hefur farið fram um þá skoðun heilbrigðisráðherra að skoða skuli möguleika á meiri einkarekstri innan heilsugæslunnar og fleiri sviðum heilbrigðisþjónustunnar. Vísa ég m.a til fyrri skrifa minna um efnið í síðustu þremur pistlum. Áður en lengra er haldið vil ég þó sérstaklega benda á gott stöðuyfirlit mála hér á landi í dag sem kemur fram í grein Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðings á vísi.is í dag. Þar bendir hún m.a. á að fyrsta grein laga um Sjúkratryggingar Íslands kveði skýrt á um „að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag“ , „að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum“ og „að styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og kostnaðargreina heilbrigðisþjónustuna“.

Mikill ruglingur felst í hugtökunum einkarekstur og einkavæðing, en þar sem væntanlega einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar gengur hugmyndafræðilega lengra, jafnvel óháð greiðslum frá ríkinu og opnar á þann möguleika að þeir efnameiri geti keypt þjónustu umfram þá fátæku. Mismuni þá jafnvel aðgengi að heilbrigði og hvað greinilegst hefur komið fram í Bandaríkjunum. Þjónustusamningar um einkarekstur hins vegar grundvallaður á opinberu fé og jöfnu aðgengi sjúkratryggða að þjónustunni. Slíkt þekkjum við vel m.a. í stofurekstri sérfræðilækna og ýmissa stofnana, jafnvel heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Ábyrgð starfseminnar liggur þá hjá stjórnendum, en eftirliti með gæðum og þjónustu liggur þá hjá því opinbera. Nákvæmlega eins og Sigurbjörg bendir á en sem er af skornum skammti. Oftast hausatalningar látnar nægja og að þakgreiðslur komi til þegar afköstin eru orðin óeðlilega mikil.

Margsinnis hefur verið bent á þá staðreynd hvað heilsugæslulæknar (sérfæðingar í heimilislækningum) hafi setið illa að vígi í atvinnumöguleikum á höfuðborgrsvæðinu í samanburði við ýmsa sérgreinalækna gagnvart Sjúkratryggingum Íslands og sem opnað hafa getað stofu nánast að vild (eftir skilgreindri vöntun á þjónustu), en sinnt jafnvel störum heimilislækna og reglubundnu eftirliti sjúklinga til að tryggja reksturinn. Sérgreinalæknar náð þannig samningi við um einkareknar stofur fyrir opinbert fé, þegar heimilislæknar hafa nær eingöngu getað sótt um lausar stöður sem losna innan heilsugæslunnar og sem eru með vel skilgreint starfssvið og svæðaupptöku. Undantekning er gamall samningur um einkarekstur nokkra sjálfstætt starfandi heimilislækna sem varð til fyrir stofnun heilsugæslustöðvanna.

Fyrir löngu er hins vegar svo komið, þar sem aldrei var lokið við uppbyggingu heilsugæslunnar hér á höfuðborgarsvæðinu, að þjónusta sem átti heima í heilsugæslu fór í „afkastahvetjandi“ einrekstur  úti í bæ, jafnvel sjálf vaktþjónusta heilsugæslunnar á kvöldin og um helgar með stofnun Læknavaktarinnar ehf. Mikil stöðnun hefur þannig ríkt í heilsugæsluþjónustunni um árabil, jafnvel þannig að ekki hefur verið hægt að fylgja alþjóðlegum stöðlum um meðferð og eftirliti sjúklinga eins og lög gera ráð fyrir og að við veitum bestu meðferð og eftirliti með sjúkdómum hverju sinni. Nokkuð sem endurspeglast í meiri lyfjanotkun allskonar og aukinni hjúkrun aldraða á bráðamóttökum. Ekki eitt einasta hljóð um skilgreind gæði frá heilbrigðisyfirvöldum sem bera ábyrgðina með eftirlitshlutverkinu og þjóðhagslegri hagkvæmni þjónustunnar hverju sinni. Aðeins að einhver þjónusta sé veitt.

Einkarekstur getur reyndar gengið svo langt að um einkavæðingu er að ræða. Lýtalækningar er eitt slíkt dæmi og þegar fólk kaupir sér þjónustu beint frá lýtalæknum til fegrunaraðgerða, án þátttöku þess opinbera. Jafnvel þótt lögin segja skýrt til um eftirlitshlutverk t.d. landlæknis, er einkareksturinn slíkur að vísað er til að um einkamál læknis og sjúklings sé að ræða þegar eftir upplýsingum er leitað og sem öðrum komi ekki við. Jafnvel þótt málin snúist að einu stærsta glæpamáli aldarinnar, PIP brjóstapúðaísetningunum í íslenskar konur . Glæpsamlega falsaða og gallaða vöru til ísetningar í mannfólk og sem reyndar varð til að upplýst varð að flestar gerðir annarra brjóstapúða láku í margfalt oftar en þeim þúsundum kvenna hafði verið talið trú um að þeir myndu gera. Nýtt lýðheilsuvandamál varð síðan til á Íslandi. Alger forsendubrestur í upphafi og sem hefði aldrei verið leyft jafn lengi ef eitthvað álíka kæmi upp með t.d markaðssett lyf  og sem hefði skilyrðislaust verið kippt af markaði, auk skaðabótamála þeirra sem í hlut eiga vegna hugsanlegra hættulegra aukaverkana.

Sú var tíðin að heimilislæknar voru á þjónustusamningi við Tryggingastofnun Ríkisins (nú Sjúkratryggingar Íslands) í afkastahvetjandi launakerfi. Kerfi sem hafði snúist upp í andhverfu sína og þar sem menn sprengdu sig á hlaupunum til að geta haft ofan í sig og á. Með kjarabaráttu þar sem þeir voru aldrei viðurkenndir á sérfræðitaxta eins og aðrir sérfræðingar eða með möguleika á stofurekstri í sama mæli og aðrir sérfræðingar, upphófst kjarabarátta þeirra til að komast m.a. á föst laun eins og aðrir opinberir starfsmenn og sjúkrahúslæknar. Með fjöldauppsögnum þegar hrun blast við, samþykkti ráðuneytið loks að laun skyldu ákvörðuð af Kjaranefnd eins og um aðra fasta embættismenn ríkisins árið 2002 og sem var þá jafnframt viðurkenning á miklvægi heilsugæslulækna, jafnt á við aðra sérgreinalækninga í opinberum rekstri. Staða sem sumir vilja nú rjúfa og tækifæri sem heilbrigðisráðuneytið hefur aldrei nýtt til fullustu, en stuðlað þess í stað að sameiningu heilsugæslunnar undir einn hatt þannig að minna heyðist frá grasrótinni. Eins með stofnun Lýðheilsustöðvar sem að lokum var sameinuð Landlæknisembættinu. Ekki þó til að sinna betur margumræddu gæðaeftirlit og sem virðist því miður vera enn eitt af einkamálum pólitískra heilbrigðisyfirvalda.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn