Mikil umræða hefur farið fram um offituvandann og vaxandi tíðni sykursýki meðal vestrænna þjóða. Þróun sem á fyrst og fremst rætur að rekja til neysluvenja okkar um árabil og þar sem Íslendingar standa að mörgu leiti illa að vígi. Það sem við kaupum og borðum og hvað við hreyfum okkur lítið. Heilbrigðisgrýlur 21. aldarinnar sem margir nefna og sem geta kollvarpað hugmyndum okkar um heilbrigðiskerfið eins og við þekkjum það með sama áframhaldi. Heilbrigðisstarfsfólk hefur varað við þróuninni lengi en stjórnmálamennirnir lítið viljað hlustað eða framkvæmt nauðsynlegar aðgerðir til mótvægis. Í dag virðist síðan nýtt æði hafa gripið á þjóðina sem leysa á allan vanda. Kolvetnisskerti kúrinn. Eftir stendur þá fitan og próteinin í fæðunni okkar.
Vöntun er á opinberum aðgerðum til verðstýringar á fæðu eftir hollustu. Sérstakur sykurskattur er eitt dæmi og sem bresku læknasamtökin eru nýlega búin að leggja fram róttækar tillögur um. Önnur aðgerð væri meiri fræðsla um óhollustuvörur í stórmörkuðunum sem vinna gegn manneldissjónarmiðum. Ekki síst gosið, snakkið og sælgætið sem beinlínis er oft beitt eins og gildrur fyrir fólk og sem kemur inn í markaðina, fyrst og fremst til að versla nauðsynjar á sem ódýrastan hátt til heimilisins. Falsaðar umbúðamerkingar sem lélegt eftirlit er með, er annað glænýlegt dæmi um það sem misfarist hefur, og þar sem allskonar óhollusta getur falist. Íþróttahreyfingin mætti líka vera farin að hugsa sinn gang fyrir löngu og sem leggur snemma óheilbrigðar línur fyrir unga fólkið með sölu á orkudrykkjum og sælgæti í formi orkustanga í íþróttahúsum landsins. Og svona mætti lengi telja. Besti og varanlegasti árangurinn næst hins vegar auðvitað með róttækri hugafarsbreytingu hjá okkur sjálfum. Öllum, ungum sem gömlum. Af þessum tilefnum og þar sem lítið hefur áunnist í þessum efnum sl. ár, vil ég endurskrifa þriggja ára gamlan pistil, Góðir Íslendingar, í aðeins breyttri mynd.
Meðfylgjandi mynd er af blóði úr ungum manni með allt of háar blóðfitur, en sem staðið hafði á rannsóknarborðinu í aðeins nokkrar klukkustundir. Á þeim tíma nær fitan að setjast ofan á og storkna. Fita sem ýmist er komin frá meltingarveginum beint eftir fituríka máltíð eða frá lifrinni síðar. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl að áætla hvað þessi fita getur gert líkamanum. Jafnvel þótt aðeins lítill hluti fitunnar teljist til slæma kólesterólsins og sem á mestan þátt í kölkun æðaveggja og sem dæmi sést um á myndinni hér fyrir neðan. Þarna liggur líka megin munurinn á harðri fitu, mettuðum transfitusýrum og fjölómettuðum góðum fitusýrunum sem við fáum meðal annars úr fiski og jurtaríkinu (omega fitusýrum). Harða fitan er einmitt fitan sem harðnar aðeins við hátt bræðslustig og sem brennur best sem tólgarkerti. Eins sem gefur stökku áferðina og brúna litinn þegar við djúpsteikjum upp úr henni t.d. franskar kartöflur eða kleinur sem okkur finnst góðar.
Góða fitan, þar á melal omega fitusýrurnar, helst hins vegar tær og fljótandi niður undir frostmark og eins og hún gerir í fiskinum okkar í djúpum hafsins við strendur landsins. Fiskifita sem getur virkað eins og yngingarmeðal fyrir ofalda þjóð og sem hefur sýnt sig draga úr æðabólgum, æðakölkun, gigtareinkennum, elliglöpum, krabbameinum, athyglisbresti og þunglyndi. Í ferskum fiski og lýsinu fellst því ekki aðeins afkoma okkar sem þjóðar, heldur ekkert síður bestu sóknartækifæri okkar til bættrar heilsu.
Unnar kjörvörur ýmiskonar, innihalda hins vegar mikið af harðri fitu, oft meira en líkami okkar ræður við með góðu móti. Hugsum okkur eitt andartak að meðfylgjandi blóðprufa hafi einmitt verið tekin eftir máltíð á skyndibitastað þar sem á boðstólnum var hamborgari, jafnvel góðborgari með frönskum djúpsteiktum kartöflum og majonesi. Ein af skyndilausnunum sem er svo vinsæl í dag, enda tíminn sem við þó eigum þó nóg af, ólíkt peningum, ekki nýttur sem skyldi.
Oft öfunda ég hins vegar veðurfræðingana sem spáð geta óviðri og sem flestir taka mark á. Jafnvel eftir fallegan vetrardag þegar spáð er stormi og rigningu með asahláku og allir hvattir til að gera ráðstafanir heima við og moka frá niðurföllunum svo ekki fari illa. Af hverju er ekki tekið mark á okkur læknum þegar við spáum aðeins lengra fram í tímann og að æðarnar munu stíflast í okkur við óbreytt ástand?
Mjög alvarlegt heilbrigðisvandamál blasir nú við sem á eftir að stórauka heilbrigðiskostnaðinn í framtíðinni. Þrátt fyrir að á Íslandi séu heimsins bestu aðstæður til manneldis og útivistar. Heitt vatn til að synda í, hreint vatn til að drekka, fjöll til að ganga á og gott loft til að anda að sér. Nóg af góðum ómenguðum fiski í sjónum í bland við góðar hreinræktaðar íslenskar landbúnaðarvörur. Einmitt þessi atriði í bland við hvert annað, ætti svo auðveldlega að geta forðað okkur frá annars fyrirséðu heilsufarshruni og þegar ekki er tímalega brugðist við.
Heilsugæslunni er meðal annars ætlað þetta hlutverk í tillögu að nýrri heilbrigðisáætlun til ársins 2020. Að annast forvarnir og gefa ráðleggingar um heilbrigðan lífstíl þegar það á við. Rétta notkun heilbrigðikerfisins, stuðningsmeðferð sjúklinga með langvinna sjúkdóma og sem eiga eftir að fjölga mikið. En heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu fékk ekki að byggjast upp á eðlilegan máta í góðærinu. Það sjáum við nú best í kreppunni og þegar hrun blasir við í heilbrigðiskerfinu. Brýnt er því að bregðast þegar við og styrkja grunnheilsugæsluna á allan hátt. Langvarandi vanlíðan barna í fjölskyldum sem óttast afkomu sína dag frá degi, reyndist Finnum í kreppunni þeirra á áttunda áratug síðustu aldar, dýrkeyptust þegar til lengri tíma var lítið. Stórauka þarf því möguleika á félagsráðgjöf og sálfræðiaðstoð í heilsugæslunni sem er nánast engin í dag. Eins er vitað að bak við offitu er oft léleg sjálfsvirðing fyrir eigin líkama, og gömul sár geta legið þar að baki sem þarf að græða. Annars er hætt við að drykkir og sælgæti verði meira notað í „sjálflækningaskyni“ sem og önnur lyf við kvíða og þunglyndi.
Jafnvel þótt að við gripum nú enn og aftur til róttækra skyndilausna eins og okkur Íslendingum er svo tamt, og að öll þjóðin færi á kólesteróllækkandi lyf t.d. með því að bætta lyfinu í drykkjarvatnið okkar, læknum við ekki þjóðina af megin meinsemd dagsins. Jafnvel þótt við gætum haldið æðakölkuninni eitthvað niðri með því móti, héldi þjóðin áfram að þyngjast og ástandið að öðru leiti að versna. Meiri lyfjanotkun síðan af öllu tagi. Við þurfum því miklu frekar á hugafars- og lífstílsbreytingu að halda, uppstokkun á örlagaspilunum okkar. Á sama hátt og við viljum standa vörð um óspillta náttúru Íslands í framtíðinni, þurfum við að gera meiri kröfu um góðan aðgang að hollri og fjölbreyttri fæðu og möguleikum á að varðveita betur eigin heilsu. Þetta er eitt af megin skyldum stjórnvalda, jafnframt því að tryggja lækningu og líkn, fyrir unga sem aldna, í nútíð og framtíð.