„Að velja frekar tólg í stað góðra og grófra kolvetna sem uppistöðu í fæðunni er stórhættulegt og stuðlar að allt annarskonar bruna en er okkur ætlaður.“
Meðfylgjandi mynd er af blóði úr ungum manni með allt of háar blóðfitur, en sem staðið hafði á rannsóknarborðinu í nokkrar klukkustundir. Á þeim tíma nær fitan að setjast ofan á og storkna. Fita sem ýmist er komin frá meltingarveginum beint eftir fituríka máltíð, eða frá lifrinni síðar. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl að áætla hvað þessi fita getur gert líkamanum. Jafnvel þótt aðeins lítill hluti fitunnar teljist til slæma kólesterólsins og sem á særstan þátt í kölkun æðaveggja. Þarna liggur líka munurinn á harðri fitu, mettuðum transfitusýrum og fjölómettuðum góðum fitusýrunum sem við fáum meðal annars úr fiski og jurtaríkinu. Harða fitan er einmitt fitan sem bráðnar aðeins við hátt bræðslustig og sem brennur reyndar best sem tólgarkerti. Eins sem gefur líka stökku áferðina og brúna litinn á frönsku kartöflunum, kleinunum og jafnvel laufabrauðinu nú yfir jólin, eftir djúpsteikingu.
Góða fitan, þar á meðal omega fitusýrurnar, helst hins vegar tær og fljótandi niður undir frostmark og eins og hún gerir í fiskinum í djúpum hafsins. Fiskifita sem getur virkað eins og yngingarmeðal fyrir ofalda þjóð og sem hefur sýnt sig gera gegn æðabólgum, æðakölkun, gigt, elliglöpum, krabbameinum, athyglisbresti og þunglyndi. Í fiskinum okkar og lýsinu fellst því ekki aðeins afkoma okkar sem þjóðar, heldur bestu sóknartækifærin til bættrar heilsu. Unnar kjörvörur ýmiskonar, innihalda hins vegar mikið af harðri fitu, oft meira en líkami okkar ræður við með góðu móti. Hugsum okkur eitt andartak að meðfylgjandi blóðprufa hafi einmitt verið tekin eftir máltíð á skyndibitastað þar sem á boðstólnum var hamborgari með frönskum kartöflum og majonesi. Einmitt í unnum kjötvörum og oft skyndibitanum, er erfiðast að átta sig á hlutföllum slæmu og góðu fitunnar, þar sem þó verulega hallar á þá síðarnefndu. En síðan og ekki síst, er málið hvernig við ætlum við að brenna allri fitunni. Með hreyfingu?
Mikið hefur verið rætt um offituvandann að undanförnu og vaxandi tíðni sykursýki. Þróun sem á fyrst og fremst rætur að rekja til neysluvenja okkar og þar sem Íslendingar standa illa að vígi. Vegna þess sem við kaupum og borðum og hvað við hreyfum okkur lítið. Heilbrigðisgrýlur 21. aldarinnar sem kollvarpað geta hugmyndum okkar um heilbrigðiskerfið eins og við þekkjum það og jólin geta orðið allt öðruvísi en við óskum. Oft er einblínt á skyndilausnir, ný æði og kúra sem við viljum að leysi allan okkar vanda. Kolvetnasnauður kúr er dæmi um slíka tísku, þótt vissulega mega flestir skera aðeins niður fínu kolvetnin og manneldisráð ráðleggur nú í sínum ráðleggingum. Kolvetni sem auðveldlega geta breyttast í sykur og fitu í efnaskiptaferlum líkamans. Eftir stendur fitan og próteinin í fæðunni, sem vissulega eru nauðsynleg í réttum hlutföllum og gæðum. Minnst í unnum kjötvörum, steiktum og brösuðum mat.
Falsaðar umbúðamerkingar er annað dæmi um það sem misfarist hefur, og þar sem allskonar önnur óhollusta getur falist í búðarhillunum. Ekki þó síst allt gosið, snakkið og sælgætið sem beinlínis er beitt fyrir okkur eins og gildrur og ásetningurinn var að versla á eins hagkvæman hátt til heimilisins. Íþróttahreyfingin mætti líka fyrir löngu vera farinn að hugsa sinn gang og sem leggur oft snemma óheilbrigðar línur fyrir unga fólkið með sölu á orkustöngum og orkudrykkjum í íþróttahúsum landsins. Og það þarf vissulega hugafarsbreytingu hjá þjóð sem sífellt lætur glepjast af gylliboðum og ráðleggingum þeirra sem m.a. kalla sig mícróscopista.
Oft öfunda ég veðurfræðingana sem spáð geta óveðri og flestir taka mark á. Eftir mikla snjókomu og spáð er stormi og rigningu með asahláku. Fólk hvatt til að gera ráðstafanir heima við og moka frá niðurföllunum svo ekki fari illa. Af hverju er ekki tekið mark á okkur heilbrigðisstarfsfólkinu þegar við spáum aðeins lengra fram í tímann og að æðarnar munu stíflast í okkur við óbreytt ástand? Að velja frekar tólg (og harða fitu) í stað góðra kolvetna sem uppistöðu í fæðunni er stórhættulegt og stuðlar að allt annarskonar bruna en er okkur ætlaður.
(Styttri og aðeins breytt útgáfa birtist í helgarblaði DV 6.12 sl.)