The Hunger Games (Hungurleikarnir) er skáldsaga sem notið hefur mikilla vinsælda sl. ár, sem og kvikmyndirnar sem gerðar hafa verið eftir sögunni. Saga sem lýsir ákveðinni framtíðarsýn í fasískri framtíðarveröld. Leikir sem gerður er út á mannaveiðar og blóðug slagsmál, þar sem aðeins þeir hæfustu fá að lifa að lokum. Saga sem hefur svo sem margendurtekið sig gegnum mannkynssöguna og lýsir vel versta eðli mannsins. Skylmingaþrælar voru þannig látnir berjast til síðasta blóðdropa í Rómaveldinu til forna, til að múgurinn gæti skemmt sér og fengið útrás fyrir heiftina. Til að aðallinn fengi frið til að lifa í allsnægtum.
Gunnar Nelson heitir geðþekkur ungur maður sem lagt hefur fyrir sig bardagaíþrótt í UFC (Ultimate fighting championship) og sem heyrir undir íþróttagrein sem kölluð er MMA (Mixed martial arts). Íþrótt sem gengur út á m.a. að að hálfkirkja eða rota andstæðinginn að lokum. Í raun miklu grófari íþrótt en boxið sem lengi vel var bannað hér á landi, en nú þó aðeins ef keppendur noti hjálma. Með sömu rökum og við viljum að hjólandi fólk beri alltaf hjálm á höfði, og þar sem hvert högg á höfuðið getur haft afdrífaríkar afleiðingar. Um síðustu helgi gat hins vegar öll þjóðin fylgst með Gunnari sem náð hefur langt í greininni sinni, leggja andstæðinginn að velli á nokkrum mínútum í beinni sjónvarpsútsendingu. Lemja andstæðinginn til blóðs og síðan hálf rota hann með olnbogahöggum. Samskonar höggum og annar bardagamaður í sömu íþrótt var drepinn með, sömu helgina.
Þótt sumir kalli þetta íþrótt og þar sem vissulega liggja að baki miklar æfingar og ögun sálar, er sjónarspilið fyrir okkur hin ekkert annað en ofbeldi í sinni verstu mynd. Sem veldur keppendum mismiklum heilaskaða, jafnvel heilablæðingu og skyndidauða. Sjónvarps- og afþreyingarmarkaðinn sem hvetur á ofbeldishneigð og spennufíkn manna og kvenna í sófanum heima með börnunum eða á ölstofum sem er oft lítið betra. Gamli góði íþróttaandinn, þar sem menn og konur keppa í leik, á þannig ekkert lengur skylt við þessa nálgun og sem íslenskir læknar hafa lengi barist gegn.
Við hljótum að spyrja okkur um eigin vegferð þegar afþreyingin snýst orðið í vaxandi mæli að mata okkur af raunveruleikaóeðli. Dagskrágerð í sjónvarpi þar sem við heimtum fleiri tár og meira blóð. Íslensk dagskrágerð er þarna ekkert undanskilin og mikið lagt undir í sölumennskunni og áskriftarherferðunum. Hver er þessi vegferð, og hvaða gildi erum við að kynna fyrir afkomendum okkar í samfélagsmiðlunum? Hversu langt erum við farin að nálgast sögusviðið í Hungurleikunum svokölluðu á köldum klakanum, og sem við höfum hingað til talið óraunverulegan skáldskap?
http://m.visir.is/forsida/Frett?ArticleID=2014140308942
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/07/16/afreksithrottir-og-adrar-thjodarithrottir/