Fimmtudagur 27.03.2014 - 13:53 - FB ummæli ()

Hvað ræður eiginlega för?

St. Jósefsspítali sem nú stendur tómur og hálf eyðilagður eftir innra niðurrif

Vegna umræðunnar í dag um yfirfullan háskólaspítala LSH og tilvísanir forráðamanna í heilsugæslu sem er að molna á höfuðborgarsvæðinu, og til spítala úti á landi, vil ég endurbirta grein sem ég skrifaði sl. haust, enda sjá menn nú kannski betur í hvað stefndi.

„Í umræðunni nú um að heilbrigðiskerfið sé að molna, virðast margir halda að steypuskemmdum á Landspítala, sveppum í skrifstofubyggingum og almennum húsnæðiskorti á gömlu Landspítalalóðinni  sé mest um að kenna. Sérstaklega heyrir maður marga stjórnmálamenn og einstaka heilbrigðisstarfsmenn í stjórnun tjá sig með þessum hætti, í stað þess horft sé á meginrót vandans og sem lengi hefur blasað við öllum. Kostar auk þess miklu minna að lagfæra en nýjar rándýrar húsbyggingar sem hinir sömu telja vera bestu bótina fyrir ástandið í dag og sem þar að auki við höfum ekki efni á. Mælt í almennt bættri þjónustu á næstu árum, betri gæðum íslensku heilbrigðisþjónustunnar, tryggari mannauð og lýðheilsu landans.“

„Vissulega er húsakostur á Landspítalanum þröngur og margt sem þarf að laga og bæta. Sú vitneskja og þróun nær reyndar áratugi aftur í tímann eða eins langt aftur og ég man sem unglæknir. Ekkert síður vegna kerfisvanda og allt of mikils álags á bráðaþjónustuna. Margar betrumbætur hafa hins vegar verið gerðar í tímans rás, nýjar byggingar byggðar og ýmsar hagræðingar. Á sama tíma hafa heilbrigðisyfirvöld hins vegar líka lokað góðum og gegnum heilbrigðisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu eins og t.d. St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Lítið sjúkrahús sem var orðið vel tæknivætt á ýmsum sviðum með nýjum skurðstofum og hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og lagður var niður fyrir 3 árum, í hagræðingarskyni! Skammsýni fyrrum ráðherra heilbrigðismála er um að kenna og sem virtust lifa í draumaveröld um nýja sameinaða háskólaspítalann á Landspítalalóð sem öll vandamál ættu að leysa, en sem ég hef áður kallað að væri eins og slæmur draumur í dós. Fyrst og fremst illa staðsettur á röngum tíma og þar sem byrjað var á vitlausum enda.“

„Hrakandi gæði og verri þjónusta í heilbrigðiskerfinu öllu eru hins vegar aðalatriðin sem nú blasa við og kalla á HJÁLP. Mikilvægast af öllu er að læknum og starfsfólki á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar verði gert kleift að vinna eftir alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum um góða læknismeðferð og hjúkrun sem aðrar vestrænar þjóðir kappkosta að fylgja. Ferlar sem aldrei hafa verið meira þverbrotnir hér á landi en einmitt þessa daganna vegna óhóflegs og vaxandi vinnuálags. Þættir sem koma til með að mælast í atgerfisflótta vel menntaðs starfsfólks og versnandi heilsu þjóðarinnar á komandi árum, að öllu óbreyttu. Þróun sem tekur langan tíma að snúa við.“

„Sannleikurinn er að heilbrigðiskerfið er að molna þar sem ekki hefur verið staðið vörð um mannauðinn, launamál starfsmanna, endurnýjun á tækjakosti, fjölgun hjúkrunarrýma svo og uppbyggingu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og nágrennis sérstaklega, til áratuga. Áherslan nú á því að vera að bjarga því sem bjargað verður sem fyrst, þar sem nýtt sárara hrun blasir við en sem við höfum áður þekkt. Mest fyrir alla þá sem þurfa mest á heilbrigðisþjónustunni að halda.“

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/08/06/byrjum-nu-a-rettum-enda/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/08/13/heilbrigdisthjonusta-sem-einfaldlega-er-ekki-i-bodi-a-sjalfu-hofudborgarsvaedinu/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/05/05/nyr-landspitali-eins-og-slaemur-draumur-i-dos/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/12/06/bradathjonustuvandinn-er-kerfislaegur/

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2011/07/25/stada-laeknisthjonustunnar-a-islandi/

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn