Endurbirti hér bloggfærslu úr blogginu mínu hjá DV, Tifandi tímabombur, þar sem ég hef áður fjallað um skild mál á Eyjunni sl. ár, í umræðunni um sýklalyfjaónæmi og sýkingarhættu tengt notkun aðskotahluta hverskonar, í okkur og á og mikið er nú í tísku. Tilbúið heilbrigðisvandamál tengt einni mestri heilbrigðisógn samtímans.
Í umræðunni um lífstílstengda sjúkdóma, gleymist oftast að minnast á þá sem snúa mest að afleiðingum gerða okkar sjálfra og áráttu í að vilja breyta sífellt útlitinu með allskonar róttækum inngripum. Á sama tíma og vaxandi þekking er um áhrif spilliefna á lífríkið, hefur notkun litarefna, þungmálama og þrávirkra lífrænna efna aldrei verið meiri í okkar nærumhverfi, mikið tengt snyrti- og fegrunarvörum, litarefnum og íhlutum, í okkur og á. Og á sama tíma og Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) telur vaxandi sýklalyfjaónæmi vera eina mestu heilbrigðisógn samtímans og að við verðum að fara mikið betur með sýklalyfin, er notkun húð- og slímhúðarglingurs ásamt brjóstapúðum aldrei meiri og þar sem oft þarf að grípa til sýklalyfja. Þegar er oft erfitt að meðhöndla fylgisýkingarnar og þegar lyfin eru hætt að virka, hvað þá í framtíðinni.
Í dag er hins vegar mikill samfélagslegur þrýstingur á útlitið og kynímyndina, tengt tísku og jafnvel klámvæðingu. Yngri kynslóðin vill líka oft marka sér sína sérstöðu, út fyrir ystu nöf gamalla gilda. Hlutir jafnvel teknir upp úr ævafornri menningu og, trúarbrögðum, sem allir virðist mega afbaka og túlka að vild. Húðflúr (tattoo), hringjaskraut (piercings) hverskonar undir húð og á, jafnvel á kynfæri, í munn og tungu. Bilið milli læknisfræði og útlitsdýrkun, atvinnuskapandi iðnaðar og lýtalækninga þar sem brjóstapúðar (implants) koma mest við sögu, hefur aldrei verið minna en í dag.
Íhlutir og aðskotahlutir hverskonar bera alltaf með sér mikla sýkingahættu. Brjóstapúðarnir sem þúsundir íslenskra kvenna bera nú undir húð af öllum gerðum geta valdið alvarlegum sýkingum auk annarra fylgikvilla. Lækningavara sem upphaflega þróaðist vegna neyð sjúklinga, meðfæddra líkamsgalla eða afleiðinga sjúkdóma eins og krabbameins sem hægt var að bæta að einhverju marki, en sem síðar eru oftast notaðir í allt öðrum tilgangi. Húðsýkingar sem tengjast minni inngripum í húð eða slímhúðum eingöngu með hringjum og öðru glingri eru þó miklu miklu algengari. Oft í kringum viðkvæmustu líkamspartana.
Mörg dæmi eru í dag um alvarlegar afleiðingar sýkinga frá slíkum smáhlutum í húð og sem auk þess geta síðan valdið drepi í aðliggjandi vef eins blóðvana brjósk eyrna. Afleiðingar aðgerða og líkamlegra íhlutana sem gerðar eru í stórum stíl á snyrtistofum út í bæ, jafnvel hjá litlum börnum. En þegar lífshættulegustu blóðsýkingarnar verða, verður að treysta á hátæknislæknisfræðina, bráðadeildir, sjúkrahúsin og sterkustu sýklalyfin sem völ er á hverju sinni, í æð eða vöðva. Hvergi annars staðar en eins og á aðskotahlutum geta sýklar blómstrað, oft löngu áður en sýkingar verður vart og sem myndað hafa þá oft svokölluð bú (biofilmur) sem er samfélag baktería. Bakteríurnar, m.a. hinir illræmdu MÓSAR, hafa þá oft verkaskiptingu sín á milli, eins og maurar í mauraþúfu. Að lokum ráðast þær til atlögu gegn hýslinum gegnum blóðrásina, á okkur sjálf á örlagastundu.
Hver má ásættanlegur fórnarkostnaður þessara íhluta vera í framtíðinni? PIP málið fræga sýndi að allar gerðir brjóstapúða verða að sjálfsköpuðu lýðheilsuvandamáli. Mikill aukinn kostnaður fyrir heilbrigiskerfið sjálft að lokum, sem þegar er farið að sligast af öðrum lífsstílssjúkdómum? Hvar liggja síðan endanleg mörk læknisfræðinnar eins og við höfum skilgreint hana hingað til og þess sem hefur ekkert með líkn eða lækningu að gera? Hver verður máttur vísindanna í náinni framtíð að finna ný lyf og inngrip við öllum aukaverkunum sem upp geta komið með óþarfa íhlutum í líkamann eftir því sem árin líða? Hver er ábyrgð fjölmiðlanna sem markaðssetja ímyndina oft m.a. með svokölluðum raunveruleikaþáttum? Hver er t.d. ábyrgð fjölmiðla hér á landi sem beinlínis auglýstu nauðsyn aðgerða á brjóstum ungra kvenna fyrir alþjóð eftir fyrsta barn fyrir nokkrum árum? Ekki einu sinni, heldur í framhaldsþáttum á fréttatengdu efni í þáttunum „Ísland í dag“.