Í framhaldi af síðsta pistli um ofnotkun sýklayfja hér á landi um árabil, oft vegna veirusýkinga þar sem sýklalyf virka auðvitað alls ekki neitt og þróun vaxandi sýklalyfjaónæmis, langar mig að endurrita pistil af DV blogginu mínu í vor í greinaflokknum Eir, um heilbrigðisástandið eins og það var hér á landi fyrir rúmlega öld síðan, samanborið í dag. Fyrir öld voru ekki til nein sýklalyf og allt að þriðjungur fólks dó sem fékk t.d. alvarlega lungnabólgu eða blóðeitrun hverskonar. Í dag eru okkur sannarlega mislagðar hendur í skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og horfum oft langt yfir skammt. Meiri áhersla á hátæknilækningar t.d. í stað þess að standa vörð um grunnheilsugæslu og mörg ár tekur að byggja upp. Nokkuð sem stjórnmálamenn í öllum flokkum láta sér í léttu rúmi liggja þessa daganna.
Guðmundur Magnússon, læknir, skrifaði um fingurmein í Eir, 1899; „Fingurmein eru menn vanir að kalla hvers konar bólgu eða graftarígerð í fingrum. Þau eru einhver algengasti kvilli útvortis. Fingurmein eru oft lítilfjörleg, eru fljótt út og gróa fljótt, eða eyðast án þess að grafi hafi í þeim, en stundum getur fingurinn úthverfst svo, að bein losna úr honum, og verður sjúklingurinn þá ævinlega lengi frá verki. Stundum losna sinarnar úr fingrinum, og verður hann þá svo að kalla hreyfingalaus á eftir (staurfingur) og oft og einatt ónýtari til vinnu en enginn væri. En auk þeirra skemmda, sem einatt verða á fingrinum, getur oft farið svo, að öðrum hlutum líkamans verði hætta búin. Bólgan getur færst svo upp með sinunum, að það getur grefur kring um þær um úlnliðinn, og jafnvel upp framhandlegg. Þegar svo er komið, má teljast heppni ef sjúklingurinn missir ekki höndina, og að minnsta kosti er þá lítil von til þess, að hún nái sér nokkurn tíma til fulls. Loks eru ekki fá dæmi þess, að eitur og ólyfjan hefir borist svo frá þessum ígerðum inn í blóðið, að sjúklingurinn hefir beðið bana af.“
„Hver er orsökin til fingurmeina? Hún er ævinlega sú, að ígerðarbakteríur (lifandi, örsmáar og ósýnilegar jurtir) komast inn í holdið og tímgast þar. Nú komast þær ekki gegn um heilbrigt skinn, en það þarf ekki nema örlitla skinnsprettu, flimbru, rispu, smásting, jafnvel svo lítilfjörlegt, að menn verða þess ekki varir. Þess vegna vill alþýða einmitt ekki trúa því, að orsökin sé þessi. Menn halda oft, að veikin komi af „spilltum vessum“, „slæmu blóði“ o.s.frv., en það er ekki rétt. Orsökin liggur ekki í líkamanum sjálfum, heldur fyrir utan hann. Aðrir kenna loftinu um, og sjómenn segja oft, að sjórinn sé óhollari í eitt skipti en annað, og kenna því um. Það er satt, það eru áraskipti að því, hve margir fá fingurmein og hve ilt verður úr þeim, og árið sem leið var slæmt að þessu leyti, að minnsta kosti hér í grenndinni, en þetta getur ekki hrakið það, sem áður var sagt um orsökina. Það er alkunnugt, hve misjfan grasvöxturinn er; stundum sprettur gnæð alls konar jurta, stundum er grasvöxtur yfirleitt lélegur, en samt þroskast einstöku jurtir vel. Það getur t.d. verið gott berjaár, í svokölluðu grasleysisári.“
„Vér verðum að hugsa oss, að svipað eigi sér stað að því er ígerðarbakteríur snertir, enda þótt vér sjáum þær ekki. Stundum er mikið til af þeim, stundum lítið. Stundum eru að vísu fár til, en þær sem til eru hafa óvenjulega mikinn þroska og kraft, svo að ígerðirnar sem þær valda, verða illkynjaðar. Auk þess eru til ýmsar tegundir af þeim, og getur það haft áhrif á ígerðina, hver bakteríutegund veldur henni.“
„Hver ráð eru þá til þess að komast hjá því að fá fingurmein? Hreinlæti. Það kemur hér fram sem oft endranær, að hreinlætið er drjúgt á metum til að koma í veg fyrir sjúkdóma. Menn eiga að gera sér það að fastri reglu, að sápuþvo sér um hendurnar, þegar þeir hætta starfi sínu eða ganga til hvíldar. Sjómennirnir eiga að þvo af sér slorið og slímið áður en þeir leggjast til svefns. Erfiðismenn eiga að þvo af sér leirinn og moldina á kveldin.“
Kaflinn, Fingurmein, í alþýðuritinu Eir frá aldarmótunum 1900, var áminning um algenga sjúkdóma í þá daga, slys og sýkingar sem gat verið erfitt að fást við og þar sem fræðslan var mikilvægust, m.a. um almennt hreinlæti. Eitt af litlu vandamálunum í dag hins vegar og þar sem við treystum endalaust á sýklalyf sem lausn mála, en sem eru jafnvel hætt að virka vegna ofnotkunar. Sumir segja að við nálgumst óðfluga þann tíma sem var fyrir tíma sýklalyfjanna fyrir rúmlega hálfri öld síðan. Allt vegna þess að við viljum oft ganga lengra í inngripum en góðu hófi gegnir, til þess eins að spara okkur tíma, ráðgjöf og eðlilegri eftirfylgd í heilsugæslunni. Mislögðu hendurnar okkar í dag.
http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2014/4/12/eir-thegar-frumur-voru-kalladar-sellur/