Miðvikudagur 31.12.2014 - 09:10 - FB ummæli ()

Litla vonarljósið nú um áramótin

Sennilega hefur lýðheilsu og heilsuöryggi þjóðarinnar aldrei fyrr verið stefnt í jafnmikla hættu og nú með aðgerðarleysi ríkisstjórnar Íslands sem hefur ekki viljað leiðrétta föst laun lækna allt sl. ár og sem dregist hafa langt aftur úr í föstum launum samanburðahópa (20-40%). Yfirvofandi er landsflótti íslenskra lækna eftir áramót, stór hluti heillar atvinnustéttar frá landinu góða og sem eiga að teljast með þeim mikilvægari í þjóðfélaginu. Nokkuð sem á sér ekki neina hliðstæðu í Íslandssögunni. Lykilstarfskraftur fyrir þjóðfélag til að að það geti  þrifist, en sem jafnframt er falast eftir til starfa erlendis fyrir allt að margföld laun. Allt staðreyndir sem opinberar ótrúlega þröngsýni íslenskra stjórnvalda og sem ekki vilja leiðrétta grunnkjörin um þann tæplega þriðjung sem þarf. Mælir hins vegar á sama tíma ágæti verka sinna í háum ríkisútgjöldum til þeirra sem hafa það best og til þeirra sem græða mest á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Íslenska læknismannauðnum má samt að fórna.

Sennilega hefur engin atvinnustétt látið bjóða sér álíka vinnuþrælkun og læknar hafa gert gegnum árin og sem ekki verður liðin lengur. Ný fjölskyldusjónarmið yngri lækna og læknanema sjá til þess. Mörg önnur sjónarmið lækna hafa reyndar lengi verið hundsuð, meðal annars hvað starfsaðstöðu varðar á sjúkrahúsunum og eftirfylgd gæðaverkefna svo langt sem ég man. Nú á hins vegar að veita  hundruðum milljóna til nýs gæluverkefnis ríkisstjórnarinnar, Lýðheilsunefndar forsætisráðherra og sem á að vera til marks um eigið ágæti og innrætingu eins og fleiri dæmi sanna sl. daga..

Um áramót kveðjum við samt gamla árið og fögnum venjulega því nýja með mikilli eftirvæntingu. Ekki um þessi áramót. Sama hvað við skjótum upp mörgum rakettum og kveikjum á mörgum stjörnuljósum fyrir börnin okkar og barnabörn. Sama hvað við styrkjum björgunarsveitirnar góðu í dag og sem er samt okkar góði og styrki bakhjarl þegar við týnumst eða náttúruhamfarir verða, enda enginn her sem flestar þjóðir treysta á við slíkar aðstæður. Við þurfum nefnilega öll á læknishjálp að halda af og til. Þegar börnin okkar og við sjálf veikjumst, eða þegar mesta þörfin er að fá hjálp í lífinu, eftir alvarleg slys og veikindi. Til gjörgæsludvalar, skurðaðgerða, til læknismeðferða hverskonar eða bara til rannsókna á meinunum okkar og svona mætti lengi telja. Eins til að skipuleggja nám heilbrigðisstarfsfólks, stunda læknavísindi og fyrirbyggjandi læknisfræði, framtíðarinnar vegna. Og nýju sjúkrahúsin á teikniborðinu er tilgangslítið að byggja ef mannauðinn síðan vantar.

Neyðarljós eiga eftir að loga langt fram eftir nýja árinu, enda óbætanlegur skaði þegar að bresta á. Margir munu deyja áður en hjálp berst tímanlega. Læknum hefur verið gefinn puttinn af ríkisstjórninni og sem þjóðin kaus fyrir aðeins tæpum tveimur árum síðan. Þvílík stjórn og kannski einfeldningar sem þjóðina skipar sem kalla þessi ósköp yfir sig. Tími þrælahalds er löngu liðinn, grunnkjör unglækna í dag á Íslandi eru um 345.000 kr. og sem er nánast engum samboðin, hvað þá eftir 6-8 ára strangt háskólanám. Flestir komnir þá með fjölskyldu og sumir með andvirði húsnæðisláns á herðunum í formi námslána. Fyrirvinnur heimila sem vinna ósjaldan yfir 200 yfirvinnutíma á mánuði til að láta enda ná saman og sem dugar ekki alltaf til.

Í fyrsta skipti má í raun segja segja að „Útkall sé meðal þjóðar“. Ekki til að kortleggja genin okkar og þar sem björgunarsveitarmenn eru misnotaðir eins og gert var sl. vor, heldur til að við flest getum einfaldlega lifað lengur og fengið bráðaþjónustu þegar lífið liggur við. Börnin okkar eiga það að minnsta kosti skilið. Við kaupum það öryggi ekki með flugeldum um þessi áramót. Ekki heldur með áramótablysum, sem áður fyrr voru sum raunveruleg gömul og úrheld neyðarblys sjómannanna og sem minnti á alvöru lífsins í ólgusjó. Heldur aðeins með því að tendra sterka vakningu meðal þjóðarinnar fyrir heilbrigðiskerfið og sem er aðframkomið af fjársvelti. Reka þarf tvo jólasveina helst strax úr brúnni á þjóðarskútunni okkar. Burt með þá, og mega þeir aldrei koma til okkar aftur, hvorki um áramót né á öðrum tímum ársins. Mjög hættulegir og skyni skroppnir menn eða álfar, sem kunna ekki að fara með valdið fyrir þjóðina sína og sem er í raunverulegum lífsháska.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur, segir gamalt máltæki. Ríkisstjórnin hefur boðað stríð gegn þjóðinni sem ógnar heilbrigði almennings. Aðgerðir stjórnvalda nú leggur læknanámið í rúst. Stjórnvöld trassa uppbyggingu heilbrigðiskerfisins sem hefur tekið meira en heila öld að skapa, en sem er nú að hruni komið. Stundar jafnvel óbætanlegt niðurrif með áróður gegn læknum eins og þegar fjármálaráðherra líkti læknum við gíslatökumenn í hádegisfréttum í gær. Trúnaðarbrestur milli æðstu valdamanna og lækna sem vara mun a.m.k. líftíma ríkisstjónarinnar. Hún hefur reyndar þegar dæmt sig út í horn, vegna hryðjuverka á eigin þegnum og sem neita á um eðlilega læknisþjónustu, get ég sagt á móti. Þjóðarkannanir sýna enda mikinn stuðning við málstað lækna (>80%) og sem mun koma enn betur í ljós á nýju ári. Ríkisstjórn sem aðeins þriðjungur þjóðarinnar studdi í lok ársins og sem er nú sem í frjálsu falli.

Forsætisráðherra með nýju orðuna sína og orðaflaumi mun reyna að aftala neikvæðar væntingar í sinni árlegu áramótaræðu um leið og við munum reyna að gera okkur glaðan dag. Lög á lækna mun hins vegar ekki leysa vandann eftir áramót ef einhver telur sig trú um það, heldur aðeins herða íslenska lækna til víkings erlendis. Þá til mannúðar- og læknastarfa þar sem þeirra starfskrafts er óskað fyrir ásættanlegt vinnuálag. Ennþá er samningaviðræðum þó ekki endanlega lokið, þótt lokahrinan fyrir áramót hafi ekki borið árangur. Meðan enn logar á litlu vonarkerti hjá báðum samningsaðilum, er ekki öll von úti og því óska ég öllum landsmönnum gleðilegs árs með þökk fyrir það liðna.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn