Föstudagur 20.03.2015 - 09:13 - FB ummæli ()

Ljósið og lækningar (Eir VI)

solin

Við Botnsúlur í janúar 2015

Í grein í Fréttablaðinu fyrir 3 árum, Bláu augun þín, varaði Jóhannes Kristinsson, augnlæknir, við útfjólubláum geislum sólar. Bláeygðir eru taldir viðkvæmari fyrir geislum sólarinnar á augun en dökkeygðir, ljós kynstofn sem hefur aðlagast gegnum árþúsundin við takmarkaða birtu yfir vetrarmánuðina á norðursóðum. Tjáningu genanna okkar og svörun þeirra gagnvart umhverfinu, ljósið í sortanum í öðrum skilningi. Á sumrin er birtan hins vegar mikil og sem ljósmyndarar nýta sér óspart, en sem vísindamenn vara við, í of miklu magni á stuttum tíma, tengst algengasta krabbameininu okkar og sem fer oft huldu höfði. Hið kolsvarta sortuæxli, sem allir ættu að hræðast. Við vitum líka, að á góðum sólardegi á Íslandi getur geislunin verið mikil og miklu meiri en sólarhæðin ein segir til um vegna þynningar í ósonlagi lofthjúpsins yfir landinu okkar. Nokkuð sem komið var líka inn á, í þættinum um sortuæxlin á RÚV, Aðgát í nærveru sólar.

Vísindamenn við Háskóla Íslands undir forystu Eiríks Steingrímssonar, prófessors við Læknadeild, í samstarfi við þýska vísindamenn greindi í fyrra frá byggingu ákveðins stjórnpróteins sem kallast MITF og sem húðfrumur framleiða til örvunar á framleiðslu litarefnisins melaníns og sem verndar húðina gegn skaðlegum áhrifum útfjólublás ljóss. Sama prótein, en í miklu meira magni, gegnir lykilhlutverki í örum vexti sortuæxlanna illræmdu og sem hugsanlega má mæla hjá fólki. Niðurstöðurnar gefa von um að hægt verði að hanna greiningarpróf fyrir lækna og opnar möguleika á lyfjameðferð í framtíðinni.

En lítum um öxl, rúmlega öld aftur í tímann í alþýðutímarit Íslendinga um heilbrigðsimál, Eir, nánar tiltekið frá árinu 1900, til að kanna betur grunnþekkinguna okkar á ljósinu og hvað aðrir íslenskir vísindamenn voru þá að sýsla. Guðmundur Magnússon læknir skrifað pistil sem hann nefndi, Ljósið og ljósalækningar, og sem ég vitna hér orðrétt í;

„Allir þekkja ljósið, og samt verður varla sagt, hvað það sé í raun réttri. Hér vill nú svo til, að ekki þarf að halda á meira eða minna torskilinni eða efasamari skýringu á eðli þess. Án hennar má vel rifja upp fyrir mönnum, hvernig allt það sem á jörðu lifir er háð ljósinu beinlínis og óbeinlínis, hvernig menn á síðustu árum hafa fengið betri þekkingu en áður á áhrifum ljóssins á líkama manna, og hvernig þeirri þekkingu hefur verið beitt í þarfir læknisfræðinnar. Það er ekki sízt ástæða til að minnast á þetta hér, af því að sá maður, sem þakka má mikilvægustu atriðin í þessum framförum læknisfræðinnar, er íslenzkur að ætt. Sá maður er Niels Finsen, prófessor í Kaupmannahöfn.“ (sem stutttu síðar, 1903, fékk Nóbelsverðlaunin í læknis- og eðlisfræði)

„Hér á raunar ekki sólarljósið alt óskilið mál, því það er sett saman af margvíslegum geislum, og má kljúfa það svo, að geilslar þessir verði sýnilegir hver um sig, því að þeir bera hver sinn lit. Þess konar klofningur á sólarljósinu hafa allir séð þar sem regnboginn er. Hann kemur fram við það, að geislanrnir sundrast í regndropanum, og í regnboganum sjáum við alla þá liti, sem saman blandast í hvítu ljósi. Nú geta menn reynt fyrir sér hver áhrif hver geislategund um sig hafi á dýr og jurtir, og hefir sú orðið niðurstaðan, að rauðu geislarnir séu heitir, en hafi að öðru leiti lítil sem engin áhrif, en bláu og fjólulitu geilslarnir séu nálega hitalausir, en hafi afarmikil áhrif til efnabreytinga. Og á þennan hátt hafa menn orðið Þess vísari, að „sólbruni“ kemur ekki til af því, að hitinn sé svo mikill, því að hann kemur engu að síður þótt rauðu geislunum sé bægt frá, heldur valda honum „kemisk“ eða efnabreytileg áhrif bláu geilsanna. Menn verða „útiteknir“ af því að það myndast dökkleitt litarefni í húðinni, og þetta efni er til varnar fyrir of miklum áhrifum sólarljósins. Þess vegna þola svertingjar betur hita en hvítir menn; þeir hafa svo mikið litarefni í húðinni, að þeir eru svartir á hörundslit.

Þekking á þessum skaðlegu áhrifum bláu geislanna á heilbrigt skinn urðu til þess, að Niels Finsen hugkvæmdist, að ýmsir hörundskvillar gætu versnað, ef ljós fengi að komast að þeim, en mundu batna ef þeim væri bægt í burt., og fyrir hans orð fóru læknar að reyna þá aðferð við bólusótt, að byrgja úti bláu geislana með því móti að láta aðeins rautt ljós komast að sjúklingnum, en það má verða á þann hátt, að hafa rautt gler í gluggarúðunum, eða rauð tjöld fyrir gluggum og hurðum. Nú er reynslan búin að sýna, að bólan verður miklu vægari, þegar þessi aðferð er notuð. Það grefur lítið sem ekkert í bólunum og hefir þann mikla hagnað í för með sér, að þorna fyrr upp en ella, það koma lítil eða alls engin ör, og hitasóttin, sem annars greip sjúklingana um leið og bólurnar fóru að grafa, verður lítilfjörleg.

Enda þótt bólan sé nú orðin fágæt í samanburði við það, sem áður var, þegar menn kunnu ekki til bólusetninga, þá er enginn efi á því, að þessi uppgötvun er mikils virði og að Finsen hefir að maklegheitum getið sér frægð fyrir, en hann hefir gert enn merkilegri uppgötvun í „ljóslækningum“. Þessi lækningaraðferð við bólusótt er fólgin í því að koma í veg fyrir skaðleg áhrif ljósins. Hin uppgötvunin er fólgin í að nota skaðleg áhrif ljósins til lækninga.“ (nánar tiltekið á Lúpus, Rauða úlfa).

„Nokkuð öðru máli er að gegna um not þau, sem læknisfræðin hefir haft af geislum þeim, sem Röntgen, þýskur prófessor, fann fyrir nokkrum árum. Þeir geislar eru sérstaklegs eðlis; þeir eru ekki í sólarljósinu, en þeir myndast ef sterkum rafmagnsstraum er hleypt um nálega loftlaust rúm. Þeir eru að mörgu leyti frábrugðnir venjulegum ljósgeislum, en sá eiginleiki þeirra er mikilsverðastur, að þeir geta farið gegnum líkama mannsins, en raunar ekki jafn greiðlega gegn um alla parta hans. Með því móti má taka myndir – skuggamyndir – af beinum gegnum óskemt holdið..“

Í dag má líka segja að ljósabekkirnir komi í stað sólar fyrir þá sem sækjast eftir áhrifum bláu geislanna, en því miður oft mikið ofnotaðir. Og hvað varðar röntgengeislana, að þá eru sumir farnir að nota þá hversdagslega, þótt uppsöfnuð skaðleg áhrif þeirra hafi lengi verið ljós. Í lífrænni veröld þar sem meðalhófið ætti að vera fyrir öllu.

(Í tilefni sólmyrkvans í dag og áhrifamátts sólar til góðs, en stundum til ills, endurbirti ég hér pistil minn frá því fyrir tæpu ári af DV blogginu.)

https://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2013/11/25/ljosefnin-og-brunavarnir-okkar-sjalfra/

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2014/4/12/eir-thegar-frumur-voru-kalladar-sellur/

Brenndir Íslendingar

http://www.mbl.is/frettir/taekni/2012/12/03/afangi_i_leit_ad_laekningu_vid_sortuaexli/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn