Miðvikudagur 01.07.2015 - 15:38 - FB ummæli ()

Stálvaskurinn góði

uppþvottavelinStálvaskurinn, sem auðvelt er að halda hreinum, var mikil búbót fyrir íslensk heimili fyrir tæplega tveimur öldum. Nokkuð sem stórbætti hreinlæti og matarvinnslu þjóðarinnar og þar með heilsuna okkar.

Þegar ég dvelst erlendis hjá börnunum mínum, þótt ekki sé nema um stundarsakir, sér maður hlutina oft í allt öðru ljósi en heima. Hvað gerir það eiginlega að verkum að við höldum að allt önnur lögmál gildi á klakanum góða en í útlöndum? Þar sem þarfir okkar reynast stundum gerviþarfir þegar betur er að gáð, eins og t.d. kaup á rándýrum uppþvottavélum á flest íslensk heimili. Vélar sem eyða miklu rafmagni til að hita upp kalda vatnið okkar. Reiknað hefur verið út að ákveðinn orkusparnaður geti verið af slíkum tækjum erlendis og þar sem ekkert finnst heita vatnið. Eins íhugunarvert ef við hugsum um uppþvottaefnið, vítissótann, sem mengar náttúruna meira en mildar sápur.

Höfum við ekki einfaldlega verið blinduð af amerísku markaðshyggjunni frá því um miðja síðustu öld og þegar auglýsingarnar byrjuðu að flæða yfir okkur? Og jafnvel þótt við vitum betur í dag, teymumst við áfram á asnaeyrunum, kannski ómeðvitað. Heilu kynslóðirnar hafa svo sem ekki kynnst öðru allt sitt líf.

fjármálamarkaðurDaglega eru líka fréttir af óstöðugum fjármálaheimi og hættu á nýju hruni. Að allt fari aftur í vaskinn og sogast í ræsið. Hringekkja fjármálalífsins er eins og hvert annað skemmtitæki í Tívolí þar sem æsingurinn er oft yfirgengilegur og margir missa sig um stundarsakir. Hringekkja sem hins vegar snýst alla daga í okkar lífi og við vitum aldrei hversu hratt hún fer eða hvenær hún skoppi út um allt, stjórnlaust jafnvel eins og skopparakringla. Að minnsta kosti stöndum við oft mjög ringluð og vitum ekkert í okkar haus eins og fréttir dagsins bera með sér í Grikklandi en sem áður áttu við okkur sjálf.

Í gósenlandinu Svíþjóð þar sem velmegunin drýpur af hverju strái er uppþvottavélin sjálf jafnvel ekki alltaf við hendina, heldur oft aðeins gamli góði stálvaskurinn og uppþvottagrindin. Ekki má heldur gleyma tilfinningunni og ánægjunni af því að „vaska upp“ sem rifjast nú upp hjá mér eins og oft áður sl. ár í góðra barna hópi. Að þvo og pússa síðan stálvaskinn á eftir og líta stoltur yfir gott verk. Heimilisstarf sem var áður stór og mikilvægur þáttur í uppeldinu. Til að aðrir komi að hlutunum hreinum og snyrtilegum, eins og þú villt sjálfur koma að þeim síðar. Pottum, diskum, glösum og hnífapörum frágengnum í hillunum eða skúffunum þar sem hlutirnir eiga heima. Allt á sínum stað en ekki í óreglu í uppþvottavélinni og sem er hugsuð fyrir allt annað. Kannast kannski einhver við samlíkingu frá öðru úr daglega lífinu? En eins og svo oft finnst okkur þægilegast að getað lokað „óhreinindin“ inn frá augunum og óskað að þau bara hverfi. Í stað þess að ganga í verkin og klára þau. Nokkuð sem forfeður okkar, vaskir mann kunnu að minnsta kosti þegar þeir þvoðu þvottana sína.

Uppþvottavélin er í mínum huga tákngerfingur þess óþarfa á íslenskum heimilum og lýsandi hvað auðvelt er að rugla okkur í ríminu. Stálvaskurinn er það raunverulega sem við þurfum á að halda, fyrir okkur og börnin okkar. Á meðan eyðum við peningum, húsrími, óþarfa innréttingu og orku til óþurftar og mengum auk þess höfin af óþörfu. Samsvörunin er þó mest að við þurfum að taka mikið meiri þátt í óstöðugu fjármálalífinu alla daga. Þar sem við viljum helst þvo peningana okkar endalaust í stað þess að vinna fyrir þeim.

Lífið frá degi til dags getur líka verið eins og í töfraheimi og þar sem allir dagar eru gjörólíkir hverjum öðrum. Í gærkvöldi voru þrumur og eldingar í Svíþjóð eftir veðurblíðuna og hitann um daginn og orkan virðist óþrjótandi í háloftunum. Síðan rigndi eins og hellt væri úr fötu. Allsherjar skolun og bað sjálfrar náttúrunnar. Nokkuð sem minnti líka á aðra þvotta og stálvaskinn góða.  (endurskrifað og stílfært úr gamalli færslu, Vaskurinn góði)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn