Mikið hefur verið rætt um staðsetningu Nýs Landspítala og að hann verði nú aðgengilegur sem flestum, af landi sem og lofti. Um helgina átti ég lækniserindi inn í Innra-Djúp. Smellti þá af nokkrum myndum, sem og ég gerði líka í vor þegar ég fór norður í Kaldalón. Maður komst ekki hjá miklum hughrifum og að velta fyrir sér fegurð sveitarinnar og bættum samgöngum, en þar sem samgönguleysi var ástæða einangrunar og að sveitin fór að lokum mest í eyði.
Á Arngerðareyri var áður kaupfélag og þar stendur enn gamla kaupfélagsstjórahúsið í sínum hallarstíl með marmaragólfum og einkahöfn við sjávarmálið. Á Ármúla í Nauteyrarhreppi aðeins utar og norðar bjó og starfaði (1911-1921) síðan læknirinn og eitt ástsælasta tónskáld þjóðarinnar, Sigvaldi Stefánsson, síðar nefndur við Kaldalón. Hámenning sem blómstraði til sveita á Vestfjörðum snemma á síðustu öld og lækna víða að finna eins og t.d. í Árneshreppi á Ströndum. Vegasamgöngur voru enda víða ótryggar, en síðar komu þó flugvellir m.a. í Djúpinu. Eini flugvöllurinn sem starfræktur er í Strandabyggðinni allri er þó reyndar aðeins á Gjögri í Árneshreppi á Norðurströndum í dag, enda ófært landleiðina þangað nokkra mánuði á vetri hverjum.
Allir vegirnir sem búið er að leggja í dag eru hins vegar varasamir og einbreiðar brýr yfir árnar. Djúpið og Norðurstrandir eru fjársjóður ferðamanna, erlendra sem innlendra og njóta vilja náttúru Íslands eins og hún gerist best og fram kemur í tónverkum Sigvalda læknis. Jafnvel til framleiðslu vinsælustu Hollywoodmynda samtímans eins og um daginn í Djúpuvík. Mestu áhyggjur almannavarna Íslands í dag eru hins vegar hópslysin sem geta orðið við þessar aðstæður á þjóðvegum landsins. Hugsa þarf hvernig bregðast á við hættunni. Tryggja þarf aðgang að nauðsynlegri læknishjálp á vettvangi og með mönnun björgunarsveita. Tryggja þarf síðan sjúkraflug með bættu viðhaldi flugvalla á mikilvægustu stöðunum eins og t.d. á Hólmavík og aðgengi sjúkraþyrluflugs. Álíka á við víða um landið. Þröngir malbikaðir vegir í besta falli, segja þannig ekki alla söguna. Miklu frekar vegalengdirnar frá þéttbýlinu, einbreiðar brýr, veðráttan og flugleysið víða. Áttatíu kílómetrar er t.d. að Ármúla og 120 km. í Norðurfjörð. Þannig hugsanlega 330 – 370 kílómetrar ef keyra þarf með sjúkling í sjúkrabíl alla leiðina suður til Reykjavíkur. Og aðeins einn læknir á öllu svæðinu (Hólmavík), einn hjúkrunarfræðingur og einn sjúkrabíll. Áttatíu kílómetrar eru í næstu hjálp frá Búðardal, við bestu skilyrði.
Á sumrin 2-3 faldast íbúatalan í Strandabyggð ef allir túristarnir eru taldir með og sem sumir eru jafnvel í hestaferðum allt norður fyrir Drangjökul. Þjóðvegurinn til Ísafjarðar liggur um Hólmavík og Djúpið. Bílaumferðin er því mikil árið um kring, sérstaklega á sumrin. Vöruflutningar eru miklir landleiðina árið um kring, vörubílar með jafnlanga tengivagna. Má áætla að fjöldinn nálgist að vera 30 bílar á dag og heildarlengd með vögunum þá um hálfur kílómeter. Samsvörun þannig við sundurslitna járnbrautalest. Til viðbótar eru síðan allar rúturnar og sem er stundum aðal almannaógnin. Allir sjá a.m.k. hvaða slysahættu allur þessi akstur ber með sér, ekki síst í misslæmum veðrum.
Umferðaöryggi á vegunum okkar er þegar orðið að einu ótryggasta heilbrigðismálinu á Íslandi. Eins greiður aðgangur að nauðsynlegri neyðarhjálp og sjúkrastofnunum. Ættum við a.m.k. ekki að huga að báðum endum heilbrigðisþjóðbrautarinnar okkar og greiðari aðgangi þar að, bæði á landi sem í lofti. Eða hvað ætlum við annars að bjóða landsmönnum og öllum túristunum okkar í náinni framtíð? Hjá þjóð sem býr í ægifögru landi og sem hefur verið annáluð fyrir gestrisni um aldir.