Í tilefni nýútkominnar skýrslu Landlæknisembættisins um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi manna og dýra, 2016 og tilmæli alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO) nú í vikunni vegna einnar mestu heilbrigðisógnar samtímans að þeirra mati, sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda mannsins tengt óhóflegri sýklalyfjanotkun, vil ég endurbirta að hluta og annars vísa í ráðherrabréf mitt sem ég skrifaði þáverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni með afriti til heilbrigðisnefndar alþingis árið 2009, en sem var aldrei svarað. Ekki svo að skilja að endilega þurfi að svara öllum bréfum og kannski síður sem send eru bara með tölvupósti. Þó frekar þar sem erindið og ósk um svar við bréfi mínu var ítrekað við næstu tvo ráðherra heilbrigðismála sem á eftir komu, og gott ef ekki við þann þriðja líka. Bréfinu hefur sem sagt aldrei verið svarað og sem sýr einmitt að slæmri stöðu lyfjamálanna í dag!
Og hvert var svo megin innihald bréfsins. Jú, afrakstur og niðurstöður gæðaþróunarverkefnis heilsugæslunnar 1992-2002 varðandi lyfjaávísanir lækna og þá sérstaklega á sýklalyf, afleiðingar í þróun sýklalyfjaónæmis helstu sýkingarvalda barna og eins sýkinga sem leiddu til endurtekinna sýkinga, eyrnabólgu og lungnabólgu meðal þeirra. Eins mögulega hárrar tíðni hljóðhimnurörísetninga meðal barna (milli 30-40%).
Í bréfinu sagði meðal annars:
„Læknar skrifa oft út á lyf í takt við (af sömu tilefnum) hvað kollegarnir gera til að vera ekki “öðruvísi” og til að skapa sér ekki óvinsældir. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að læknar komi sér upp vinnuferlum, stundum allt að því ómeðvitað til að samlagast straumum í heilbrigðiskerfinu og eftir kröfum almennings hverju sinni. Í nýlegri mastersritgerð Péturs Péturssonar heilsugæslulæknis á Akureyri er gerð góð grein fyrir af hverju læknar skrifa upp á lyf (sýklalyf) án þess að fyrir liggi beinar læknisfræðilegar ástæður (non-pharmalogical prescriptions). Álag og tímaleysi bæði læknis og sjúklings kemur þar inn sem áhrifaþáttur auk launakjara lækna t.d. á vöktum sem þurfa að vinna hratt til að halda uppi ásættanlegum launum. Ekki má heldur gleyma áhrifum lyfjafyrirtækja sem reyna eins og þau frekast geta að hafa áhrif á lækna, mismikið eftir sérgreinum.“
Í bréfinu er líka bent á líkleg tengsl slakrar uppbyggingar í heilbrigðiskerfinu og ómarkvissrar ávísun lækna á lyf í hinum ýmsum lyfjaflokkum og þótt erfitt sé oft að sanna bein orsakasambönd við heilbrigðisógn eins og þar sem sýklalyfin og þróun sýklalyfjaónæmis sýkingarvaldanna sjálfra, eiga í hlut. Þannig eins og módel og þar sem bent var á mikilvægi þess að afgreiða ekki heilsuvanda (veikindi) barna á vöktum nær eingöngu, heldur í dagvinnutíma heilsugæslunnar þar sem tækifæri væri á eftirfylgd og nákvæmari ráðleggingum sömu aðila, en ekki undir tímapressu hjá ókunnugum lækni út í bæ. Nýjustu alþjóða klínískar leiðbeiningar um loftvegasýkingar manna ganga einmitt út á þetta og sem hin Norðurlöndin hafa tekið sér til fyrirmyndar.
„Svipaðar rannsóknir má gera sem tengjast ýmsum öðrum lyfjaflokkum t.d geð- og svefnlyfjum sem byggist þá á réttri notkun lyfjanna, fyrirbyggjandi aðgerðum og öðrum úrræðum en lyfjaávísunum. Í raun ætti að líta á öll álíka verkefni innan heilbrigðiskerfisins sem sprota- eða frumkvöðlaverkefni til að bæta hag og heilsu þjóðar sem eru ekki síður mikilvæg ýmsum öðrum stórum verkefnum í líftæknivísindum sem hlúð hefur verið að og litið upp til hér á landi hingað til. Heilsugæslan gegnir þannig ekkert síður mikilvægu hlutverki en aðrar sjúkrastofnanir í að lækna og viðhalda heilsu auk þess sem hún á að vera leiðandi í forvörnum og fræðslu.“
Á Íslandi hefur samt allt setið við það sama. Stundum talað á hátíðisdögum hvað mætti betur gera. Stöðugur niðurskurður samt í reynd á starfsemi, jafnvel í bullandi góðæri og þar heilsugæslan á landinu öll fær, ásamt öllu fjármagni til forvarna, aðeins innan við 4% af heildarfjármagni ríkisins til heilbrigðisþjónustu. Reynt að spara frekar með öflugri vaktþjónustu í stað uppbyggingar heilsteyptrar heilsugæslu. Einmitt af þessum orsökum er skýrsla landlæknis svo frábær. Hún mælir í raun „óðaverðbólguna“ í heilbrigðiskerfinu sjálfu, þvert á stefnumarkmið alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Önnur nýleg skýrsla Landlæknis um oflækningar segir svipaða sögu. Einhversstaðar í stjórnsýslunni ætti nú að blikka rauð ljós og jafnvel heyrast sírenuvæl. Hefði ekki mátt svara bréfinu góða og reyna sameiginlega með grasrótinni að leysa úr vandanum. Lífið snýst enda ekki bara um opinberar góðar hagtölur, en sem því miður margir stjórnmálamennirnir halda.
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2009/11/16/osvarad-radherrabref-og-lyfjamalin/
http://www.laeknabladid.is/tolublod/2016/02/nr/5746
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2016/02/04/verdum-ad-gera-betur-vardandi-syklalyfjaavisanir/