Í gamla daga var hægt að taka þægilega hraðferð með Strætó, milli miðborgarinnar, Lækjargötu eða Hlemm, og úthverfanna. Ferð sem tók oft aðeins 10-15 mínútur og þegar maður átti oftast skemmtilegt og gott erindi í miðborgina. Þetta kom upp í hugann ekki eingöngu tengt umferðavandanum í dag heldu meira þegar ég hugsa um “Hlemm heilbrigðiskerfisins”, Bráðamóttöku LSH í Fossvogi og þangað sem oft vel á þriðja hundruð sjúklinga, misveikir og slasaðir leita á hverjum sólarhring. Hins vegar sannarlega eingin hraðferð þangað frekar en nú í miðbæinn og þar sem engar tímaáætlanir standast. Þjónusta sem upphaflega var skipulögð fyrir allt aðrar þarfir, en sem nú er kappkostað að koma á í neyð og að koma sem flestum út aftur með misgóðum árangri enda margir aldraðir strandaglópar í kerfinu. Endastöð líka veglausra farþega í heilbrigðiskerfinu öllu, ekki síst höfuðborginni sjálfri. Síðasta athvarf þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og sem sum stjórnmálaöfl í ríkisstjórninni þykjast berjast hvað mest fyrir. Og aukningin er mikil ár eftir ár, að viðbættri allri þjónustu fyrir milljónir blessaðra ferðamanna sem heimsækja landið okkar.
Höfuðborgin sinnir sínu skipulagi á sinn sérstaka hátt og sitt sýnist hverjum nú um lífvana miðbæinn fyrir hinn venjulega Reykvíking sem orðið forðast hann eins og heitan eldinn. Umferðin aldrei hægari enda samþjöppun þjónustu náð nýjum hæðum á kostnað íbúagæðanna. Allt snúist um að borgin græði sem mest á útlendingum, stofnunum og nú jafnvel nýjum þjóðarspítala á Hringbrautareyjunni. Í þokkabót fyrir ómældan aukakostnað og óhagræði á alla vegu miðað við skynsamlega staðsetningu. Ómöguleiki stjórnmálanna hafa þannig fengið nýja merkingu í samstarfi tækifærisflokkanna nú með stærsta stjórnmálaflokki landsins. Til að gæta sinna sérhagsmuna og trúnaðar við jafnvel eldgamla forystu. Skynsamleg skipulagsuppbygging, hagkvæmni og mannleg heildstæð þjónustu virðast skipta þá minnstu máli.
Steininn tekur þó út hvað sjálft heilbrigðiskerfið varðar með skertu aðgengi og þjónust hvert sem litið. Ný múlbundin rekstraform hafa sum staðar náð í gegn í sveltri heilsugæslunni til áratuga, m.a. til að fylla í stærstu götin. Enn er t.d. langt í land að allir hafi sinn heimilislækni eins og við þekktum í gamla daga. Tíminn og mannleg samskipti við heilbrigðiskerfið er markaðsett með sparnaði og auðveldast að vísa bara á kvöldvaktir og nýja aðgangshindraða Hlemminn. Allir í heilbrigðiskerfinu hlaupi bara hraðar, fyrir sömu laun. Og nú einning í skertri og samningslausri sérgreinaþjónustu sem heilbrigðisyfirvöld virðast hatast út í. Miklu ódýrara að stefna sjúklingum bara á yfirfullan Hlemminn og í basta falli vanmáttugar göngudeildir.
Göngudeildarkerfi sem sumir stjórnmálamenn samt dreymir um á nóttunni og jafnvel að koma megi upp, sambærilegt á göfugri hátt eins og var með gömlu góðu Hlemmur-Lækjargata hraðleiðinni og þegar borgin var allt önnur og manneskjulegri en hún er í dag. Borg sem jafnvel í þá daga byggði veglegan og fullkominn spítala fyrir bráðaþjónustuna á besta stað sem fannst í bænum og sem var þá í Fossvogi. Hálfrar aldar sluksuháttur hefur því svo sannarlega komið illa í bakið á Reykvíkingum hvað skipulags- og heilbrigðisþjónustuna varðar og sem engan endi virðist nú ætla að taka. Skömm stjórnvalda hefur aldrei mátt vera meiri á lýðveldistímanum og jafnvel að meðtöldum þjóðveldistímanum sem stjórnmálamennirnir kappkosta nú að minna okkur á í dag, með bros á vör og blóm í hnappagatinu. Á mesta “hagsældartímabili” Íslandssögunnar.